Það hafa orðið óvæntar sviptingar í bandarísku kosningunum

Hin mikla þrautarganga, baráttan um Hvítahúsið í Bandaríkjunum, nálgast lokamarkið. Það eru „aðeins“ 70 dagar eftir.

Þing stóru flokkanna þóttu marka nokkur þáttaskil. Baráttan hafði verið í járnum um hríð og Donald Trump jafnvel haft yfirhöndina í könnunum, þótt innan skekkjumarka væri. Í kjölfar þinganna breyttist þetta mjög. Trump lék af fingrum fram, með þeim hætti, sem hafði gefist honum vel í prófkjörinu í flokknum. En nú höfðu önnur lögmál tekið við. Ögrandi og jafnvel meiðandi ummæli í garð einstaklinga og afmarkaðra hópa virkuðu illa. Þau voru ekki „töff“ talsmáti manns sem þorði að segja það sem svo margir hugsuðu en bældu niður vegna yfirþyrmandi stjórnmálalegs rétttrúnaðar.

Kosningastjórar Trumps og áhrifamenn í einstökum fylkjum reyndu að fá frambjóðandann til að halda sér við markaða rullu. Nú þurfti að höfða til kjósenda á jaðri flokksins og flokksleysingja. Ná þyrfti meirihluta þeirra ætti sigur að nást. Á sömu sveif lögðust vinveittir fréttahaukar svo sem stjórnendur vinsælla spjallþátta í útvarpi. Trump lét undan þrýstingi og hélt fundi þar sem hann stautaði í gegnum texta af skjám, í stað þess „að láta vaða.“

Hillary Clinton flytur eingöngu ræður þar sem aðrir hafa skrifað hvert orð. Því hefur hún vanist í áraraðir og gerir vel. Og hún hefur komist upp með að hafa ekki mætt á opna blaðamannafundi í nærri 300 daga sem er algjört einsdæmi.

Augljóst er að Trump fer illa að standa í púlti í klukkutíma og lesa annarra manna orð. Hann er því eins og óþekkur krakki. Sætir færis til að skrópa frá skrifuðu ræðunum og skemmta sjálfum sér og fundarmönnum. Þeir fundir hafa sinn sjarma, en Trump hættir til að stökkva á flugur sem andstæðingarnir egna fyrir hann. Tali hann af sér þá velta fjölmiðlarnir sem leggjast gegn honum (sem er mikill meirihluti þeirra) sér upp úr því. Þeir hafa átt mjög marga góða daga. Bilið á milli Trump og Hillary tók að mælast í tveggja stafa tölu. Öllum ber saman um að það er alvarlegt hættumerki þegar aðeins eru tæpir 3 mánuðir til kosninga.

En þvert á allar spár hefur þetta bil á milli frambjóðendanna skyndilega minnkað verulega. Þótt Hillary hafi enn yfirhöndina, bæði á landsvísu og í flestum þeim fylkjum sem helst er slegist um, liggur meirihluti hennar nú nærri skekkjumörkum. Hvað hefur gerst? Dropar tölvupóstanna halda áfram að hola steininn. Ákvörðun forstjóra FBI um að ákæra Hillary ekki fyrir að brjóta reglur sem snúa að öryggi ríkisins var mjög ósannfærandi. Forstjórinn rökstuddi ákæru í 12 mínútur af 15 og sneri svo skyndilega við blaðinu. Mikill meirihluti landsmanna, bæði stuðningsmenn og andstæðingar, fengu á tilfinninguna að um hvítþvott væri að ræða. Enginn annar Bandaríkjamaður hefði við þessar aðstæður fengið slíka silkimeðferð. Og sífellt fleiri tölvupóstar sem kríaðir eru út, þar á meðal fyrir atbeina dómstóla, gera ákvörðun um að ákæra ekki undarlegri. Enginn getur af sannfæringu haldið því fram að Clinton hafi sagt satt um notkun sína á tölvupóstunum, meðhöndlun þeirra eða um samskiptin við Clinton-stofnunina, hina öflugu peningamyllu fjölskyldunnar.

Trump sýndi hins vegar að ólíkindaþátturinn í fari hans hefur sína kosti. Hann þáði óvænt boð um að hitta forseta Mexíkó, Enrique Pena Nieto. Þeir áttu fund og héldu sameiginlegan blaðamannafund. Hvort tveggja var mikið hættuspil fyrir forsetaframbjóðanda, sem hafði talað svo gáleysislega, svo ekki sé sagt fjandsamlega, um Mexíkóa í rúmlega ár. En Trump þykir hafa komið ótrúlega vel frá uppákomunni. Og þar með slegið sér verulega upp, þegar hann þurfti mest á því að halda.

Þótt enn spái flestir spekingar því, að Hillary Clinton verði kosin þá er enginn vafi á því, að töluvert líf er aftur komið í þessar kosningar. Sjónvarpskappræður frambjóðendanna þykja mikilvægari nú en áður var talið. Tölvupóstasprengjur geta enn fallið á frú Clinton og með mun meiri skaða en hinar fyrri. En á hinn bóginn er ekki útilokað að ólíkindatólið Trump sprengi sprengjur og þess vegna eina í sínu eigin sjálfsmorðsvesti.

Vandi er um þetta að spá.