Keppni Eva N Abrahamsdóttir úr Fylki og Hildur Antonsdóttir elta boltann.
Keppni Eva N Abrahamsdóttir úr Fylki og Hildur Antonsdóttir elta boltann. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kópavogi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Sigur Vals á Stjörnunni í fyrrakvöld bauð Blikakonum upp á tækifæri til að verja Íslandsmeistaratitil sinn í knattspyrnu kvenna án þess að þurfa að treysta á nokkurn annan en sjálfar sig.

Í Kópavogi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Sigur Vals á Stjörnunni í fyrrakvöld bauð Blikakonum upp á tækifæri til að verja Íslandsmeistaratitil sinn í knattspyrnu kvenna án þess að þurfa að treysta á nokkurn annan en sjálfar sig. Ég hef aldrei séð jafnafdráttarlausan vilja til að nýta tækifæri eins og Breiðablik sýndi svo í gærkvöld. Liðið fór svo illa með Fylki á fyrstu 20 mínútunum á Kópavogsvelli í gær að ég var farinn að vorkenna þeim appelsínugulu, komst í 3:0, og á endanum varð 4:0-sigur Blika staðreynd. Íslandsmeistararnir sköpuðu sér urmul færa í viðbót og voru einfaldlega klaufar, eða ef til vill örlítið þreyttar eftir stífa Meistaradeildartörn, að skora ekki nokkur mörk til viðbótar.

Breiðablik er nú tveimur stigum á eftir Stjörnunni þegar fjórar umferðir eru eftir. Leikjadagskrá Breiðabliks er hrikalega erfið en það breytir því ekki að þrátt fyrir nokkur óvænt jafntefli í sumar er liðið í æskilegri stöðu. Á þriðjudag þarf það á sigri að halda gegn sterku liði ÍBV í Kópavoginum og svo tekur við toppslagur við Stjörnuna sem gæti hreinlega ráðið úrslitum á þessu Íslandsmóti. Blikar eiga svo eftir að mæta ÍA og þriðja liðinu í titilslagnum, Val, í lokaumferðinni. Á sama tíma á Stjarnan aðeins eftir leiki við lið í fallbaráttu, fyrir utan toppslaginn við Breiðablik. Þess vegna verða meistararnir að vera upp á sitt besta í hverjum einasta leik, og gærkvöldið gaf sannarlega góð fyrirheit. Fylkisliðinu var hreinlega kaffært.

Hægri kantmaðurinn Svava Rós Guðmundsdóttir fór á kostum í framlínunni og kom að þremur markanna. Hún virtist hafa 1-2 aukagíra fram yfir varnarmenn Fylkis. Esther Rós Arnarsdóttir var sívinnandi og nýtti ágætlega tækifærið í fjarveru Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur, sem vegna heiðursmannasamkomulags mátti ekki spila gegn liðinu sem hún yfirgaf í sumar.

Hildur Antonsdóttir og Fjolla Shala áttu mjög góðan leik á miðjunni, en þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Hildar í deildinni eftir komuna frá Val. Hún skoraði þriðja mark leiksins á 19. mínútu. Fylkiskonur héldu stuttan krísufund í kjölfarið, sem undirstrikaði bara hve slæmt ástandið var. Rakel Hönnudóttir komst í fjölda góðra færa en gekk illa að nýta þau, og Fanndís Friðriksdóttir var dugleg að munda skotfótinn þó að það bæri ekki árangur í gær.

Fylkir leit ekki út fyrir að eiga heima í sömu deild og Breiðablik í gærkvöld. Liðið er fjórum stigum frá fallsæti og hefur enga ástæðu til að slaka á núna.