Methafi Aníta Hinriksdóttir glaðbeitt eftir að hafa bætt Íslandsmetið sitt í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst.
Methafi Aníta Hinriksdóttir glaðbeitt eftir að hafa bætt Íslandsmetið sitt í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst. — AFP
Eftir frábæra frammistöðu á Ólympíuleikunum í Ríó sagðist Aníta Hinriksdóttir ætla að freista þess að bæta Íslandsmet sitt í 800 metra hlaupi enn frekar áður en keppnistímabilinu lyki.

Eftir frábæra frammistöðu á Ólympíuleikunum í Ríó sagðist Aníta Hinriksdóttir ætla að freista þess að bæta Íslandsmet sitt í 800 metra hlaupi enn frekar áður en keppnistímabilinu lyki. Hún ætlar sér að keppa á tveimur mótum og nú er ljóst að fyrra mótið verður Klaverblad Arena Games í Hilversum í Hollandi sem fram fer á sunnudag. Þess má geta að á þessum sama stað bætti Hafdís Sigurðardóttir Íslandsmet sitt í langstökki í sumar.

Aníta bætti þriggja ára gamalt Íslandsmet sitt í Ríó fyrir hálfum mánuði þegar hún hljóp á 2:00,14 mínútum í undanrásum. Það var 20. besti tíminn í undanrásum en dugði þó ekki til að komast í undanúrslit. Aníta varð í 6. sæti í sínum riðli en næst á undan henni varð Halimah Nakaayi frá Úganda, sem hljóp á sínum besta tíma eða 1:59,78. Nakaayi komst í undanúrslitin.

Á mótinu í Hilversum mætast þær Aníta og Nakaayi aftur á hlaupabrautinni. Fleiri öflugir hlauparar munu keppa við Anítu um sigurinn. Heimakonan Sanne Verstegen, sem er margfaldur Hollandsmeistari, hefur hraðast hlaupið á 2:00,54 mínútum. Eglay Nalyanya frá Keníu, sem er jafnaldra Anítu, hefur svo hlaupið á 2:00,98 mínútum á þessu ári. Aníta fær því góða keppni og gæti hugsanlega náð að rjúfa tveggja mínútna múrinn í fyrsta sinn. sindris@mbl.is