Gleði Ivan Bubalo fagnar öðru af tveimur mörkum sínum gegn HK. Leifur A. Leifsson á erfitt með að leyna vonbrigðum sínum.
Gleði Ivan Bubalo fagnar öðru af tveimur mörkum sínum gegn HK. Leifur A. Leifsson á erfitt með að leyna vonbrigðum sínum. — Morgunblaðið/Eggert
Þótt lið KA og Grindavíkur lékju ekki í Inkasso-deildinni í gærkvöldi færðust þau skrefi nær sæti í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

Þótt lið KA og Grindavíkur lékju ekki í Inkasso-deildinni í gærkvöldi færðust þau skrefi nær sæti í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð. Keflavíkurliðið, sem er það eina sem á stærðfræðilega möguleika á að setja strik í reikning KA og Grindavíkur, gerði aðeins jafntefli við Hugin á Fellavelli, 0:0. Þar með er Keflavíkurliðið níu stigum á eftir KA og átta stigum á eftir Grindavík þegar liðið á þrjá leiki eftir. KA og Grindavík eiga hins vegar fjóra leiki eftir óleikna. KA fær Selfoss í heimsókn á laugardaginn og sama dag sækir næstneðsta lið deildarinnar, Fjarðabyggð, Grindvíkinga heim.

Fjarðabyggð er í næstneðsta sæti deildarinnar, stigi á eftir HK sem tapaði fyrir Fram á Laugardalsvelli. HK er þar með enn í fallhættu. Ivan Bubalo skoraði bæði mörk Fram á fyrsta hálftímanum eftir að flautað var til leiks. Hákon Ingi Jónsson klóraði í bakkann fyrir HK 19 mínútum fyrir leikslok en nær stiginu komst Kópavogsliðið ekki.

Leiknir Reykjavík situr áfram í fimmta sæti deildarinnar þrátt fyrir tap fyrir Haukum á Ásvöllum, 2:1. Haukar færðust upp í sjötta sæti. Alexander Helgason kom Haukum yfir í fyrri hálfleik. Atli Arnarson jafnaði metin fjórum mínútum fyrir leikslok. Aðeins mínútu síðar skoraði Haukur Ásberg Hilmarsson sigurmark Hauka. iben@mbl.is