[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhannes Stefánsson: "Nýtt námsstyrkjakerfi mun koma sér afar vel fyrir nemendur utan af landi. Fullyrðingar um annað eiga ekki við rök að styðjast."

Í frétt í Morgunblaðinu hinn 24. ágúst sl. var haft var eftir Adolf H. Berndsen, formanni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokks að nýtt námsstyrkjakerfi myndi „þrengja verulega að landsbyggðarnemendum“. Þessi fullyrðing var ekki rökstudd á neinn hátt, en fullyrt var að námsmenn sem kæmu af landsbyggðinni hlytu að skulda hærri fjárhæðir í námslán en námsmenn af höfuðborgarsvæðinu. Það er vissulega sú staða sem er uppi núna, enda er dýrara að búa í eigin húsnæði en í foreldrahúsum.

Það sem skiptir hins vegar máli fyrir nemendur sem koma utan af landi er hvaða áhrif þær breytingar sem hafa verið boðaðar á námslánakerfinu hafa á hagsmuni þeirra.

Námsmenn utan af landi eru án nokkurs vafa í þeim hópi nemenda sem njóta hvað mest góðs af þeim breytingum sem eru boðaðar með frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra. Staðreyndin er sú, að með skynsamlegri kerfisbreytingu er á sama tíma verið að tryggja öllum nemendum fulla framfærslu, auka gagnsæi og fyrirsjáanleika og lækka greiðslubyrði verulegs meirihluta nemenda eftir að námi lýkur.

Breytingarnar bæta hag nemenda

Tökum dæmi af nemanda. Viðkomandi er 35 ára með tíu ára starfsreynslu sem umsjónarkennari, en hefur starfað án kennsluréttinda í litlum skóla úti á landi. Námsmaðurinn er einstætt foreldri tveggja barna á leikskólaaldri og ákveður að flytja til Akureyrar til þess að taka fimm ára kennaranám við Háskólann á Akureyri og afla sér kennsluréttinda.

Gefum okkur að nemandinn afli sér engra annarra tekna alla skólagönguna, búi í leiguhúsnæði allt námið og njóti fullrar framfærslu að viðbættum 120.000 króna húsnæðiskostnaði. Ráðstöfunartekjur þessa námsmanns eru þá 339.331 krónur á mánuði yfir skólaárið, sem jafngildir því að brúttótekjur væru um 490.000 krónur. Á mynd 1 má sjá hvernig ráðstöfunartekjur skiptast.

Tryggir lægri greiðslubyrði

Í nýju námsstyrkjakerfi mun þessi námsmaður hafa 164.222 krónur á mánuði upp á að hlaupa ef ofangreindar ráðstöfunartekjur duga ekki, eða samtals 498.553 kr. á mánuði. Það jafngildir um 764.000 krónum í brúttótekjur. Með því að veita námsmönnum aukið fjárhagslegt svigrúm og fulla framfærslu er jafnrétti til náms tryggt, þannig að fólk sem glímir við erfiðari félagslegar aðstæður hefur aðgang að auknu fé til þess að ljúka námi ef eitthvað bjátar á.

Miðað við að þessi námsmaður hefði laun samkvæmt kjarasamningum kennara að námi loknu yrði greiðslubyrði viðkomandi lægri allan afborgunartímann. Sjá mynd 2.

Að sama skapi væru heildargreiðslur talsvert hagstæðari. Sjá mynd 3.

Fullyrðingar þarf að styðja með rökum

Í dæminu hér að ofan er um að ræða nemanda sem útskrifast 40 ára gamall, aflar ekki neinna tekna alla skólagönguna, býr í leiguhúsnæði, er einstætt foreldri tveggja barna og starfar sem kennari að námi loknu. Breyting á námslánakerfinu kemur sér vel fyrir þennan nemanda og aðra sem eru í sambærilegri aðstöðu, bæði hvað varðar greiðslubyrði og heildargreiðslur af námslánum. Dæmið gefur vísbendingu um hverskonar breytingu er um að ræða fyrir aðra nemendur sem eru í háskólanámi.

Það er æskilegt að þeir sem vilja reyna að hafa áhrif á opinbera umræðu um jafn mikilvægt mál og um ræðir, athugi fyrst hvort mál þeirra eigi við einhver rök að styðjast. Enda er staðreyndin sú að stúdentasamtök allra stærstu háskóla landsins hafa lýst yfir ánægju með meginefni frumvarpsins. Í öllu falli standast fullyrðingar formanns SSNV um nýtt námslánafrumvarp ekki skoðun og ætti hann því að geta glaðst yfir því að hagsmunir landsbyggðarnemenda eru betur tryggðir með breytingunum. Hið sama má segja um aðrar órökstuddar og rangar fullyrðingar um áhrif frumvarpsins sem hafa komið úr ranni stjórnarandstöðunnar undanfarnar vikur.

Höfundur er aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra.