Bjarni Þórarinn Jónsson, Bússi á Hoffelli í Vestmannaeyjum, fæddist 8. nóvember 1941. Hann lést 28. júlí 2016.

Foreldrar Bjarna voru Sigríður Bjarnadóttir sjúkranuddari, f. 6. janúar 1921, d. 1990, og Jón Karl Sæmundsson ljósmyndari, f. 1921, d. 1993. Systkini Bjarna sammæðra eru Jóhannes Eðvaldsson, Atli Eðvaldsson og Anna Jónína Eðvaldsdóttir. Systkini hans samfeðra eru Helga Jónsdóttir, Sæmundur Gunnar Jónsson, Árni Ólafur Jónsson og Sighvatur Hreiðar Jónsson.

Fyrri eiginkona Bjarna var Vilborg Karlsdóttir, f. 1947. Þau eignuðust þrjár dætur, fæddar 1967, 1969 og 1971, sem allar létust í frumbernsku. Barnsmóðir Bjarna var Helga Björgvinsdóttir, f. 1941, d. 2000. Sonur þeirra er Stefán Pétur Bjarnason, f. 1960. Hann er kvæntur Áslaugu Steinunni Kjartansdóttur, f. 1968. Börn þeirra eru Bjartey Ósk, f. 1992, Særós Eva, f. 1994, og Fanndís Rún, f. 1996. Bjartey á son fæddan 2. ágúst 2016.

Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Alda Sigurðardóttir, f. 1938.

Bjarni vann ýmis störf um ævina. Hann var m.a. vaktmaður á Kleppi og sundlaugarvörður á Seltjarnarnesi. Þá vann hann lengi sem vaktmaður á Borgarspítalanum og lét af störfum þar árið 2011 vegna aldurs.

Útför Bjarna var gerð í kyrrþey að hans ósk.

Ég frétti áðan að vinur minn til margra áratuga, Bjarni Þórarinn Jónsson, hefði látizt 28. júlí síðastliðinni. Þetta varð mér mikið áfall. Við Bjarni brölluðum margt saman og alltaf var hægt að stóla á hann. Ég held að við höfum bara verið sextán-sautján þegar við hittumst fyrst. Þá var hann að vinna í bakaríi í sama húsi eða við hliðina á Hótel Vík.

Bjarni var ekki langskólagenginn. Það vafðist stundum fyrir honum að hann var bæði les- og ritblindur. En segja má að hann hafi stofnað sinn eigin skóla þar sem hann var bæði skólastjórinn og kennarinn. Og raunar líka eini nemandinn. En sú skólaganga dugði Bjarna og stóð hann sig vel í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Það veit ég að vinnufélagarnir geta staðfest. Einu sinni var auglýst eftir manni á bílaverkstæði P. Samúelsson. Bjarni sótti um og fékk starfið. Ekki man ég hvað hann starfaði þar lengi en hann stóð sig vel og var vel liðinn. Seinna gerðist hann vaktmaður á Kleppi en síðustu árin starfaði hann sem öryggisvörður á Borgarspítalanum. Alveg þangað til hann varð að hætta vegna aldurs.

Til marks um vinskap okkar Bjarna heimsótti ég hann á alla vinnustaði hans. Ekki vegna þess að ég ætti erindi á vinnustaðinn heldur vegna þess að Bjarni var vinur minn. Ég sakna hans. Ég var farinn að hlakka til að geta óskað honum til hamingju með næsta afmælisdaginn. Bjarni hefði orðið sjötíu og fimm ára 8. nóvember.

Við tókum upp á því eitt árið að fara á síld í Siglufjörð og einnig á Raufarhöfn. Ætluðum að safna peningum. En það klikkaði. Leigðum meira að segja herbergi saman smá tíma. Ég votta ástvinum Bjarna mína dýpstu samúð.

Þorsteinn Konráðsson.