Skotárás Lögreglumaður á verði á götu í Kristjaníu þar sem 25 ára gamall fíkniefnasali skaut á lögreglumenn í fyrrakvöld með skammbyssu. Árásarmaðurinn var ákærður fyrir tilraun til manndráps og ólöglega byssueign.
Skotárás Lögreglumaður á verði á götu í Kristjaníu þar sem 25 ára gamall fíkniefnasali skaut á lögreglumenn í fyrrakvöld með skammbyssu. Árásarmaðurinn var ákærður fyrir tilraun til manndráps og ólöglega byssueign. — AFP
25 ára gamall maður var í gær dæmdur í gæsluvarðhald og ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa sært tvo lögreglumenn og einn vegfaranda í skotárás í Kristjaníu í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld.

25 ára gamall maður var í gær dæmdur í gæsluvarðhald og ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa sært tvo lögreglumenn og einn vegfaranda í skotárás í Kristjaníu í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld. Annar lögreglumannanna fékk skot í höfuðið og særðist lífshættulega. Hinn lögreglumaðurinn og vegfarandinn særðust á fæti, að því er fram kemur á fréttavef danska ríkisútvarpsins.

Báðir lögreglumennirnir voru óeinkennisklæddir og reyndu að handtaka manninn fyrir sölu á hassi í Kristjaníu um ellefuleytið í fyrrakvöld. Hann veitti mótspyrnu og hóf skothríð.

Maðurinn komst undan en særðist seinna í skotbardaga við lögreglumenn. Hann var fluttur á sjúkrahús og dæmdur í gæsluvarðhald að honum fjarstöddum. Hann á að koma fyrir dómara innan sólarhrings eftir að læknar telja hann færan um það.

Fréttastofan Ritzau skýrði frá því að maðurinn væri ásamt fjórum öðrum grunaður um að hafa staðið fyrir sölu á 48 kílóum af hassi og nokkrum kílóum af öðrum fíkniefnum í fríríkinu Kristjaníu.

Maðurinn er danskur ríkisborgari en fæddist í Bosníu, að sögn danska ríkisútvarpsins. Hann hefur búið í Danmörku frá því að hann var fjögurra ára gamall þegar fjölskylda hans flúði þangað vegna stríðsins í Bosníu. Hann var hnepptur í gæsluvarðhald ásamt föður sínum árið 2010 og ákærður fyrir morðtilraun en var sýknaður.