Gleði Myndin hlaut góðar viðtökur á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og hefur fengið boð á fleiri hátíðir. Frá vinstri til hægri eru Anton Máni Svansson, Diljá Valsdóttir, Sveinn Sigurbjörnsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Baldur Einarsson, Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstjóri, Katla Njálsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Blær Hinriksson, Theodór Pálsson, Lise Orheim Stender, Jesper Morthorst og Daniel Hans Erlendsson.
Gleði Myndin hlaut góðar viðtökur á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og hefur fengið boð á fleiri hátíðir. Frá vinstri til hægri eru Anton Máni Svansson, Diljá Valsdóttir, Sveinn Sigurbjörnsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Baldur Einarsson, Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstjóri, Katla Njálsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Blær Hinriksson, Theodór Pálsson, Lise Orheim Stender, Jesper Morthorst og Daniel Hans Erlendsson. — Ljósmynd/Moris Puccio
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Það virðast vera mjög góðar viðtökur – það var fullur salur, fólk hló og klappaði,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar Hjartasteinn sem var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í gær. „Maður metur stundum eftir því hvað margir fara út úr bíóinu á meðan á sýningunni stendur á svona hátíðum en það voru ekki margir sem fóru út núna,“ bætir hann við en einn áhorfandi hafi komið til sín eftir sýninguna og sagt myndina þá bestu sem hann hefði séð hingað til. „En hátíðin er auðvitað bara nýbyrjuð,“ bætir hann við léttur í bragði.

Þegar Morgunblaðið náði tali af leikstjóranum var hann nýkominn af frumsýningunni og kvað stundina einkennast af miklum létti. „Þetta er rosalega gaman en líka rosa mikill léttir þegar maður er búinn að vinna svona lengi að þessu.“ Um sé að ræða ákveðið upphaf af framhaldslífi myndarinnar og viðurkenningu.

Norður-Ameríka næst

„Það er búið að bjóða henni á mjög margar hátíðir og það kemur til út af þessari þannig ég verð meira og minna að ferðast fram að jólum á milli hátíða,“ segir hann en markmiðið sé ávallt að vekja athygli á myndinni svo hún eigi möguleika á að vera keypt og sýnd um allan heim. Næst verður myndin frumsýnd í Norður-Ameríku í kanadísku borginni Toronto 12. september en því næst heldur teymið út til Asíu til að taka þátt í stærstu kvikmyndahátíðinni þar.

Hjartasteinn er ein af aðeins 12 kvikmyndum sem taka þátt í keppnisflokknum Venice Days en hann er afar eftirsóttur um heim allan.

Flokkurinn var upphaflega stofnaður af Leikstjórafélagi Ítalíu til heiðurs sterkum röddum í tengslum við leikstjórn, að sögn Guðmundar. „Við vorum það heppin að það voru fleiri en einn flokkur á hátíðinni sem vildu fá myndina þannig að við gátum valið Venice Days-flokkinn en við vonuðumst helst eftir því,“ segir hann.

„Eru alveg í essinu sínu“

Með Guðmundi í för er um fjörutíu manna teymi sem samanstendur af krökkunum níu sem leika í myndinni ásamt foreldrum þeirra. Þá eru Nína Dögg Filippusdóttir, sem leikur í myndinni, og Gísli Örn Garðarsson, maður hennar, einnig í hópnum ásamt framleiðendum og mökum.

„Krakkarnir elska þessa athygli og eru alveg í essinu sínu. Þau eru líka mjög lífleg og opin og allt,“ segir Guðmundur en þetta sé frábær upplifun og tækifæri fyrir þau að fylgja myndinni um hátíðina.