[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Vilhjálmur Andri Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Margt er óljóst um möguleg kaup Fjarskipta hf. (Vodafone) á ljósvaka- og fjarskiptaeignum 365 miðla hf.

Fréttaskýring

Vilhjálmur Andri Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Margt er óljóst um möguleg kaup Fjarskipta hf. (Vodafone) á ljósvaka- og fjarskiptaeignum 365 miðla hf. og gætu þær tölur um kaupverð sem gengið er út frá í tilkynningu til Kauphallarinnar tekið verulegum breytingum, enda voru fyrirvarar gerðir.

Verði af kaupunum færist öll starfsemi ljósvakamiðla 365 til Vodafone, en það væru sjónvarps- og útvarpsrekstur 365. Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin og á útvarpssviðinu eru það meðal annars Bylgjan, FM957 og X-ið. Eftir myndi standa hjá 365 rekstur Fréttablaðsins og fréttamiðilsins visir.is.

Forsendur frá seljanda

Vodafone er tilbúið að greiða 3,4 milljarða króna fyrir ofangreindar eignir úr 365 miðlum, greitt með 1,7 milljörðum króna í reiðufé annars vegar og tæplega 32,4 milljónum hluta í Fjarskiptum hf. hins vegar. Forsenda kaupverðs er upplýsingar frá seljanda og gengið er út frá því að rekstrarhagnaður (EBITDA) hins keypta fyrir fjármagnsliði að viðbættum samlegðaráhrifum geti numið allt að tveimur milljörðum króna á ársgrundvelli eða rúmlega tvöföldum rekstrarhagnaði (EBITDA) 365 á síðasta ári, sem var samkvæmt ársreikningi félagsins 955 milljónir króna.

Vodafone mun einnig taka yfir vaxtaberandi skuldir upp á 4,6 milljarða króna, sem þýðir heildarkaupverð upp á allt að átta milljörðum króna, eða fjórfaldan þann EBITDA-hagnað sem gengið er út frá. Ætla má að það hvert endanlegt mat verður á EBITDA-hagnaði með samlegðaráhrifum ráði úrslitum um kaupverð, sem gæti því tekið talsverðum breytingum, verði af viðskiptunum.

Nærri því tvöföldun veltu

Eftir kaupin á ljósvaka- og fjarskiptaeignum 365 miðla áætlar Vodafone að velta félagsins verði um 23 milljarðar króna, sem er töluverð aukning frá því sem nú er, en samkvæmt ársreikningi Fjarskipta (Vodafone) var velta þess á síðasta ári 13,7 milljarðar. Til samanburðar var velta 365 miðla 11,2 milljarður sama ár. Ekki er sundurliðað í reikningum 365 miðla hversu stór hluti veltunnar kemur frá sjónvarpi, útvarpi og fjarskiptum en þó er ljóst að það er mikill meirihluti hennar.

Sveiflur hafa verið í rekstri 365 miðla á undanförnum árum og hafa skuldir vaxið töluvert, en heildarskuldir samstæðunnar eru um 10 milljarðar króna. Á síðasta ári skilaði samstæðan 22 milljóna króna hagnaði en árið á undan var 1,4 milljarða króna tap af rekstrinum. Verði af kaupum Vodafone situr því eftir 5,4 milljarða skuld hjá 365.

Þá er rétt að benda á að óvissa í skattamálum mun væntanlega sitja eftir hjá 365, en félagið vildi ekki una úrskurði Ríkisskattstjóra frá árinu 2013 um að því bæri að greiða viðbótartekjuskatt vegna ófrádráttarbærra vaxtagjalda og nýtingar á yfirfæranlegu tapi rekstrarárin 2009 til 2011. Yfirskattanefnd hafnaði röksemdum félagsins með úrskurði um mitt ár 2015 en það bíður nú niðurstöðu dómstóla.