Þétt umferð úr borginni Álagið á Hringveginn hefur aukist gríðarlega.
Þétt umferð úr borginni Álagið á Hringveginn hefur aukist gríðarlega. — Morgunblaðið/Ómar
Umferðin á Hringveginum jókst um heil 13 prósent í ágúst frá fyrra ári, segir í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni.

Umferðin á Hringveginum jókst um heil 13 prósent í ágúst frá fyrra ári, segir í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni. Að meðaltali hefur umferð á veginum aukist um 3,5% á ári frá því fyrir tólf árum þegar byrjað var að hafa þann hátt á mælingum sem hafður er í dag. Aukningin í ár er því margfalt meiri en meðalaukning undanfarinna ára.

97 þúsund á einum degi

Umferðin um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi jókst um 13% í nýliðnum ágústmánuði borið saman við sama mánuð í fyrra. Mest jókst umferðin um lykilteljara á Austurlandi, um rúmlega 25%. Þessi aukning er bæði met í fjölda bíla og í hlutfallslegum vexti milli ára í ágúst.

Alls fóru rúmlega 97 þúsund ökutæki um teljarana 16 á degi hverjum í síðasta mánuði. Árið 2015 fóru 86 þúsund ökutæki um þá í sama mánuði. 11 þúsund fleiri bílar fóru því um Hringveginn á hverjum degi í nýliðnum ágúst.

Útlit er fyrir að í lok árs muni umferðin hafa aukist um nálægt 11 prósent, sem yrði algert met. Mesta árlega aukning á Hringveginum fram til þessa var á milli áranna 2006 og 2007 en þá var hún 6,8%.

Er þetta ekki svakalegt álag á vegina? „Nei, vegakerfið er ekkert sprungið, það þolir alveg heilmikla umferð,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. „En viðhaldsþörfin eykst. Við gerum ráð fyrir því að ferðamenn eigi töluvert í þessari aukningu. Ferðamennirnir eru í auknum mæli að keyra sjálfir frekar en að fara með rútunum, þeir fara þá oft svona hliðarvegi sem þurfa fyrir vikið aukið aðhald, eins og til dæmis vegurinn að Látrabjargi.

Þetta er heldur meiri aukning en þægileg er, sérstaklega þegar fjárveitingarnar hafa ekki verið nægar til að halda vegum við eins og við viljum hafa þá.“ borkur@mbl.is