Hafdís Margrét Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 2. apríl 1950. Hún lést 21. ágúst 2016 á Droplaugarstöðum.

Hafdís lætur eftir sig ástkæran eiginmann, Gunnar Fjeldsted, og tvö uppkomin börn, þau Katrínu Björg Fjeldsted og Steinar Orra Fjeldsted, tengdabörn og barnabörn.

Útför Hafdísar fer fram í Bústaðakirkju í dag, 2. september 2016, kl. 11.

Hvíldu í friði, elsku hjartað mitt.

Mynd þín er hverful í huga mér

í hjartans angist leita að þér

en ef hlusta heyri róminn blíða,

finn ilm þinn framhjá líða,

man milda kossa enn um sinn

og bjarta blikið í augum finn.

Ó, samt í angist ég leita að þér

og að mynd þinni í huga mér.

(Gleðja.)

Þinn

Gunnar.

Elsku mamma mín.

Hvar á ég að byrja eiginlega...? Mér finnst þetta svo óraunverulegt...að þú sért farin! Ég get ekki lýst því hversu mikill tómleikinn er! Ég get heldur engan veginn talað um þig í „þátíð“ mamma og því tala ég bara „til þín“, sem ég veit að verður þannig um ókomna tíð, því ég finn sterklega fyrir þér, elsku mamma. Þú sagðir alltaf að þú ætlaðir að verða „eldgömul“. Þú elskaðir lífið og ert ein jákvæðasta manneskja sem ég hef nokkurn tímann vitað um, algjör „Pollýanna“ eins og við oft göntuðumst með, manstu, en var samt heilagur sannleikur eins og allir sem þekkja þig vita.

Betri mömmu er ekki hægt að hugsa sér né óska og ég er eilíflega þakklát fyrir að hafa fengið að vera dóttir þín, elsku mamma mín...þvílíkur heiður. Kannski er það eigingirni en ég hefði viljað hafa þig hjá mér svo miklu lengur og þó að þú hafir veikst, mamma, situr það ekki eftir í minningunni því á ég að segja þér...þessi sjúkdómur er ekki þú! Þú ert svo miklu stærri en hann en ég veit að þér líður loksins betur, þú fékkst frelsið, mamma mín. Það er greinilegt að þér eru ætluð mikil og stór verkefni hinumegin og ef einhver á heiðurssæti þar skilið ert það þú! Já, kannski fólk sem lesi þetta hugsi að ég sé að setja þig í „dýrlingatölu“ af því þú ert farin, en við vitum það báðar að okkur er alveg sama hvað aðrir eru að hugsa og við vitum það líka báðar að svo er ekki...ég á bestu mömmu í heimi og ég á besta pabba í heimi, ég er það heppin!

Það er svo vont samt, mamma, að hugsa til þess að þú sért farin, og Guð er vitni mitt um hvað ég sakna þín og mun gera alveg þangað til við hittumst aftur. Ég sakna þess að heyra ekki í þér að meðaltali þrisvar á dag...það sem við gátum spjallað og um allt og ekkert, haha. Ég sakna þess að geta ekki hringt í þig, hitt þig í hádeginu, að fá ekki sms frá þér... „Vöknuð, Kata mín?“ Ég sakna hláturs þíns og glaðleika. Ég sakna þess að borða ekki öll saman eins og við gerðum svo oft...minnst einu sinni í viku. „Gaman-saman“ sögðum við þá alloft! Ég sakna þess að þú og pabbi stríðið hvort öðru, að þú „neyðir“ pabba til að dansa við þig við eitthvert lag sem þér fannst þá flott og pabbi og við öll skellihlæjandi. Ég lofa þér því, mamma mín, að pabbi, Steini og ég munum hlúa vel hvert að öðru og styðja hvert annað á þessum sorgartíma sem og einnig í framtíðinni. Ég elska þig svo mikið, mamma, og þín verður svo sannarlega sárt saknað.

Hvíldu í friði, elsku mamma mín, og megi englar Guðs umvefja þig og vernda.

Þín dóttir,

Katrín Björg Fjeldsted.

Mamma mín var besta móðir sem einhver getur hugsað sér. Hún var skemmtileg, alltaf stutt í brosið og alltaf til staðar þegar á reyndi. Ég var og verð alltaf mikill mömmustrákur en oft á tíðum vorum við bara tvö saman, sem mér þótti afskaplega notalegt. Hún að sauma (enda afburðasaumakona) og ég að teikna og talað var um allt milli himins og jarðar. Ég sakna þessa tíma og ég sakna elsku mömmu minnar. Ég hugsa oft til baka og hugsa þá til brossins hennar, göngulags hennar, hvað henni fannst skemmtilegt að gera og samtalanna okkar sem voru oft á tíðum afar skondin. Ég sakna litlu hlutanna sem virðast vera svo sjálfsagðir en eru það ekki. Eins og t.d. að geta ekki hringt í mömmu mína og sagt bara einfaldlega hæ, hvað segirðu gott eða ég elska þig, elsku mamma mín.

Mamma var ekki bara frábær móðir heldur var hún einnig frábær amma! Hún elskaði börn og börnin elskuðu hana. Mamma gat leikið við barnabörnin endalaust, komið þeim til að hlæja og allir voru himinlifandi. Ég veit að þú munt fylgjast með okkur og litlu börnunum vaxa úr grasi.

Mér finnst mjög óraunverulegt að þú sért búin að kveðja þennan heim, reyndar það óraunverulegt að hugsanir mínar vilja ekki skilja það. Elsku mamma, þú átt risastórt pláss í mínu hjarta og þar verður þú alltaf. Takk fyrir að vera mér við hlið í gegnum súrt og sætt, takk fyrir að opna augu mín fyrir því fallega í heiminum en fyrst og fremst takk fyrir að vera mamma mín.

Þú og ég erum eitt.

Steinar Orri Fjeldsted.

Elsku Haddý systir mín er dáin og laus við sjúkdóminn sem hún var svo hrædd að fá.

Þú varst litla systir mín, ég var 16 ára þegar þú fæddist og varst þú strax mikið uppáhald.

Minningar streyma fram í hugann þegar ég hugsa til baka. Til dæmis man ég vel að á tveggja ára afmælinu þínu gaf ég þér rauð stígvél með hvítri rönd, ég þurfti að bíða lengi í biðröð til að kaupa þau, því ekki var auðvelt að fá slík stígvél í verslun á Íslandi í þá daga. Gleðin skein úr andlitinu á þér og vildir þú alltaf vera í þeim þó að engin rigning væri, þú meira að segja svafst í þeim. Oft hlógum við að þessari sögu.

Öll símtölin, þegar þú hringdir í mig þegar ég var bundin heima með ung börn, með nýjustu fréttirnar. Alltaf gastu sagt mér eitthvað skemmtilegt.

Við vorum átta systkinin og oft glatt á hjalla þegar við hittumst, t.d. í afmælum í seinni tíð.

Gunnar var þér einstakur eiginmaður sem reyndist þér svo vel í veikindunum, enda voru þið mjög samrýnd.

Elsku Gunnar, Kata, Steini og fjölskylda. Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þín systir

Þorbjörg Einarsdóttir (Dodda).

Ég hef oft sagt að Haddý frænka, móðursystir mín, sé uppáhaldsfrænka mín sem er alveg rétt! Aðeins tíu ár voru á milli okkar í aldri og var hún oft að passa mig. Ég leit mjög upp til hennar og fannst allt flott sem hún sagði og gerði. Mér fannst alveg ótrúlega gaman að þvælast með henni og vinkonum hennar í bænum, kíkja í búðir, fara á kaffi Mokka eða Hressó og hlusta á þær tala um nýjustu kjaftasögurnar úr Glaumbæ. Þó að ég hafi verið aðeins 8-9 ára fannst mér gaman að heyra þessar sögur og skynjaði hvað allt var spennandi. Eins leyfði hún mér að sitja endalaust með þeim og hlusta á nýjustu lögin.

Seinna, þegar þau Gunnar voru byrjuð að búa og Kata og Steini fædd, þá passaði ég þau oft og fannst mér það mjög gaman. Alltaf mátti ég bjóða krökkum til mín og fannst öllum mjög spennandi að passa með mér, því þau áttu mikið plötusafn, flottustu græjurnar, alltaf til gos og snakk.

Hún frænka mín var mjög skemmtilegur persónuleiki, alltaf svo létt og kát. Það fór ekki á milli mála þegar hún var mætt í hús, hlátraskjöllin og glaðværðin í kringum hana var ávallt mikil.

Fyrir fimm árum greindist hún með Alzheimer sem var okkur öllum mikið reiðarslag. Við í fjölskyldunni þekkjum þennan sjúkdóm allt of vel þar sem Stína systir hennar er einnig að berjast við hann. Þeir sem þekkja sjúkdóminn vita að smám saman hverfur persóna sjúklingsins og er það mjög erfitt að sjá ástvin sinn fjarlægjast.

Það er búið að vera aðdáunarvert að sjá hve vel Gunnar hefur hugsað um konu sína í veikindum hennar. Hann heimsótti hana á hverjum degi eftir að hún gat ekki verið lengur heima, fór í göngutúra í miðbænum og bíltúra þegar þannig viðraði.

Hann hefur sýnt mikla ást og kærleika sem náði í gegnum allt.

Haddý er farin en minning hennar mun ætíð lifa.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Ég kveð Haddý frænku með þakklæti fyrir góða vináttu og ljúfar minningar í gegnum árin.

Elsku Gunnar, Steini, Kata og fjölskyldur, við fjölskyldan sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Birna Gunnlaugsdóttir.

Það er sárara en orð fá lýst að kveðja Hafdísi systur, sem lést 21. ágúst sl. eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm.

Hafdís greindist með Alzheimerssjúkdóminn 2011 og var það henni og okkur öllum mikið áfall.

Hafdís háði baráttuna með sterkasta vini sínum og eiginmanni, Gunnari, sem aldrei vék frá henni, studdi hana og styrkti í allri hennar baráttu, ásamt börnum þeirra Kötu og Steina.

Hafdís systir er mér mjög kær, hún var heilsteyptur persónuleiki, glaðvær og góð systir. Við brölluðum ýmislegt saman í æsku og á unglingsárunum varð vinskapur okkar sterkari og strengirnir, sem við bundum í æsku hafa varað alla tíð. Þegar Hafdís kynntist Gunnari eignaðist ég vin fyrir lífstíð og hefur samband okkar Ingu við þau hjón verið mér afar mikilvægt.

Hafdís og Gunnar hafa verið í gegnum tíðina mjög nánir vinir okkar hjóna og er margs að minnast frá liðinni tíð. Þegar við eignuðumst okkar fyrstu börn með aðeins dags millibili fannst okkur að enn sannaðist það hvað við værum samtaka og höfðum gaman af því öll fjögur. Þannig var samband okkar, mikil gleði og hressilegar samræður. Margar góðar minningar frá liðnum árum um skemmtilegar samverustundir ylja mér nú á kveðjustundinni. Minning um glaðværa orðheppna og gefandi systur, sem var annt um fólk og lét sig varða velferð annarra.

Hugur okkar er hjá fjölskyldu hennar, sem á um sárt að binda. Við Inga vottum Gunnari, Kötu, Steina og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð og biðjum góðan Guð að gefa þeim styrk til að takast á við sorgina.

Blessuð sé minning hennar.

Ingvar Einarsson.

Hafdís föðursystir okkar er látin eftir löng og erfið veikindi.

Haddý var hress og yndisleg frænka sem var alltaf áhugasöm um okkur systkinin. Fjöldi minninga leitar fram í hugann þegar við hugsum til hennar. Samverustundir fjölskyldnanna í æsku standa upp úr; helgarheimsóknir sem enduðu oft á því að við vorum borin sofandi út í bíl, ferðalag til Akureyrar með viðkomu í Akraborginni, öll afmælin, góðu peruterturnar og áramótin með heimagerðu hattana.

Það er auðvelt að loka augunum og sjá fyrir sér systkini pabba og maka á góðri stund heima í stofu og heyra hláturrokurnar. Þar var Haddý oft fremst í flokki í glensinu og hló dátt með öllu andlitinu.

Það er líka eftirminnilegt að það tók iðulega langan tíma að kveðja og stundirnar í forstofum jafnan broslegar. Oft lauk heimsókninni ekki fyrr en Gunnar klappaði saman lófum og dró Haddý, Kötu og Steina út í bíl við mikla kátínu.

Elsku Gunnar, Kata, Steini og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill. Það er aðdáunarvert hvernig þið hafið staðið sem klettar við hlið Haddýjar í veikindum hennar. Hugur okkar er hjá ykkur.

Við kveðjum elsku Haddý frænku með þakklæti, trega og söknuði. Blessuð sé minning hennar.

Þórir, Ásrún

og Herborg.