Algeng röksemd þeirra sem eru mótfallnir því að fólk frá öðrum löndum setjist hér að er að útlendingar hvorki geti né vilji aðlagast íslensku þjóðfélagi og að það skapi margvísleg samfélagsleg vandamál sem ekki sjái fyrir endann á.

Algeng röksemd þeirra sem eru mótfallnir því að fólk frá öðrum löndum setjist hér að er að útlendingar hvorki geti né vilji aðlagast íslensku þjóðfélagi og að það skapi margvísleg samfélagsleg vandamál sem ekki sjái fyrir endann á.

Áður en lengra er haldið er mikilvægt að hafa í huga að sumir þeirra sem svona tala byrja gjarnan þennan málflutning sinn með: „Ég er ekki rasisti, en ..... “ Þeir verða því kallaðir ekki-rasistar í þessum pistli.

Við þetta bæta ekki-rasistarnir gjarnan að ef þeim dytti nú einhvern tímann sjálfum í hug að setjast að í einhverju af þeim löndum sem téðir útlendingar eru að flýja frá myndu þeir semja sig hið snarasta að siðum innfæddra, klæða sig eins og þeir og ekki láta sér detta í hug að iðka trú sína.

Já, kæri ekki-rasisti – þú myndir sennilega ekki eiga neinna annarra kosta völ en að laga þig að siðum heimamanna, því að í mörgum þeim löndum sem fólkið sem hingað kemur hefur flúið frá er einfaldlega refsivert að haga lífi sínu á einhvern annan hátt en yfirvaldið býður. Það er einmitt stundum ástæðan fyrir því að fólki er ekki vært í heimalöndum sínum. Í sumum þessara landa hefur fólk aldrei fengið að kjósa, í öðrum löndum er refsivert að iðka aðra trú en ríkistrúna og sums staðar byggja lög og reglur á fornum trúarritum.

Varla er hægt að bera lífshætti í vestrænu lýðræðisríki eins og Íslandi saman við slík lönd. Hér á landi er nefnilega talsvert valfrelsi um hvernig fólk kýs að haga lífi sínu, svo framarlega sem það skaðar ekki aðra. Hér ríkir til dæmis trúfrelsi og Ísland er það land þar sem jafnrétti kynjanna telst mest samkvæmt lista Alþjóðaefnahagsráðsins. Allir borgarar landsins, sem náð hafa til þess tilteknum aldri, eru með kosningarétt, enginn á á hættu að fara í fangelsi fyrir að tjá skoðanir sínar (nema þær teljist ærumeiðandi eða ógnandi) og hér eru engin lög sem kveða á um klæðaburð fólks önnur en að það er refsivert að særa blygðunarsemi annarra, t.d. með því að vera berrassaður á almannafæri.

Hvað er annars aðlögun? Felur hún í sér að vera nákvæmlega eins og heimamenn? Eða að finna sinn stað í samfélaginu þar sem maður nýtur sín sem best og getur orðið að gagni? Hér á landi er atvinnuþátttaka innflytjenda 84%, sem er langmest af öllum OECD-ríkjum. Er það ekki merki um að meirihluti útlendinga vilji gjarnan aðlagast samfélaginu? Að minnsta kosti hafa kannanir sýnt að meirihluti Íslendinga vill gjarnan taka á móti fleiri útlendingum.

Ef ástæða er til að hafa áhyggjur af aðlögun einhvers tiltekins hóps að íslensku samfélagi, þá eru það helst ekki-rasistarnir. Þeir virðast nefnilega ekki átta sig á að þeir búa í fjölþjóðlegu og fjölbreyttu samfélagi þar sem fólk má vera eins og það er, svo framarlega sem það skaðar ekki aðra. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir