Þorkell Á. Jóhannsson
Þorkell Á. Jóhannsson
Eftir Þorkel Á. Jóhannsson: "Sviksemi þessara skötuhjúa við almenning í landinu, við flugöryggi og ekki síst við sinn eigin flokk og landsfundasamþykktir hans er yfirgengileg."

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. haust var þessi klausa afgreidd einróma:

„Reykjavíkurflugvöllur verði óskertur í Vatnsmýri. Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri er þýðingarmikil miðstöð íslensks áætlunarflugs, áfangastaður til eina hátæknisjúkrahúss landsins...“

Ályktanir flokksins í þessu máli hafa verið jafn afdráttalausar og í þessum sama tón til fjölda ára. Sjálfstæðisflokkurinn hefur með þessu sýnt góðan samhljóm með afgerandi meirihluta almennings í þessu máli.

Forystuteymi flokksins, þau Bjarni Benediktsson, formaður og fjármálaráðherra, og Ólöf Nordal, varaformaður og innanríkisráðherra, hafa nú í krafti embætta sinna snúist þvert gegn þessum samþykktum flokks síns.

Ríkislögmaður í umboði þeirra gerði ekkert til að verja öryggishagsmuni þjóðarinnar í nýafstöðnum málarekstri borgarinnar gegn ríkinu þar sem krafist var lokunar neyðarbrautarinnar. Þessi aðför að flugöryggi, sér í lagi öryggi sjúkraflugs, brot Eflu-verkfræðistofu á reglum um útreikninga nothæfisstuðuls og önnur handvömm í þeirri vinnu, alvarlegar athugasemdir fagaðila, m.a. ÖFÍA (öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna) við þessi vinnubrögð, og þar af leiðandi fölsuð og augljóslega handstýrð niðurstaða Isavia um þennan nothæfisstuðul, fékk ekkert vægi í málsvörn ríkisins. Og innanríkisráðherra beygði sig samstundis mótþróalaust undir dómsniðurstöðuna þrátt fyrir að hafa verið viðtakandi allra áðurnefndra athugasemda. Hún hefur aukinheldur engu svarað þeim er sendu henni þessar athugasemdir.

Innanríkisráðherra hafði frest til 29. september til að loka þessari flugbraut. Formleg tilkynning, að kröfu innanríkisráðherra, barst hins vegar frá Isavia hinn 6. júlí sl. um að brautinni væri þar með lokað. Ætla hefði mátt að opinber fulltrúi þess stjórnmálaafls, sem gaf út áðurnefnda landsfundarályktun, hefði nýtt betur þann tímafrest sem enn á mánuð eftir, til að skoða til hlítar til hvaða ráða má grípa til að framfylgja athugasemdm um flugöryggi, afdráttalausan vilja almennings og landsfundum eigin flokks. T.a.m. hefði verið upplagt að fara eftir ítrekuðum ábendingum um aðkomu hlutlauss aðila til endurskoðunar á útreikningum nothæfisstuðuls flugvallarins. Það hefði einmitt átt að gerast að frumkvæði innanríkisráðherra.

Þess í stað virðist málið komið í flýtimeðferð til aðstoðar borgaryfirvöldum og lóðabröskurum! Og enn bólar ekkert á athugunum um mótvægisaðgerðir vegna flugöryggis, sem ráðherrann boðaði í fréttatilkynningu 9. júní sl. í kjölfar uppkvaðningar hæstaréttar, sbr.: „Ráðuneytið muni og ákveða hvernig rétt sé að bregðast við niðurstöðunni með það að leiðarljósi að tryggja áfram öryggi í flugsamgöngum innanlands.“

Ekki fegrast hlutur Sjálfstæðisflokksins í málinu við inngrip formannsins og fjármálaráðherrans. Skyndileg landssala undan neyðarbrautinni í Skerjafirði 11. ágúst sl. sem byggist á handsali tveggja Samfylkingarfulltrúa (þáv. fjármálaráðherra og þáv. setts borgarstjóra) árið 2013, og síðan ámátlegt yfirklór ráðherrans til að réttlæta þessa gerð, afhjúpa algerlega þá nöturlegu staðreynd að þessi forysta Sjálfstæðisflokksins hefur leikið tveimur skjöldum í málinu. Peningar skipta hér meira máli en öryggishagsmunir almennings og aðgengi landsmanna að sjúkrahúsum borgarinnar.

Nái lóðabraskið í Vatnsmýrinni fram að ganga eru braskararnir handhafar lottómiða með öruggum stórvinningi. Um þvílíkan ávinning er að ræða að mannslíf skulu sett skör neðar! Nú get ég ekki fullyrt að þau skötuhjú, Bjarni og Ólöf, séu bendluð við þessa vinningshafa. En illa kem ég auga á aðrar skýringar á athæfi þeirra.

Sviksemi þessara skötuhjúa við almenning í landinu, við flugöryggi og ekki síst við sinn eigin flokk og landsfundasamþykktir hans er yfirgengileg. Ef nú almennir félagar Sjálfstæðisflokksins vilja ganga til kosninga með þau Bjarna Benediktsson og Ólöfu Nordal sem formann og varaformann flokksins, er það viðurkenning á þessum verkum þeirra. Þar með viðurkennist að landsfundasamþykktir flokksins eru marklausar. Landsfundir eru ekki æðsta valdastofnun flokksins heldur ríkir þar forystueinræði.

Fari svo vona ég sannarlega að kjósendur séu á allt öðru máli.

Höfundur er flugmaður og starfar við sjúkraflug.