Örugg Rúna ásamt fjölskyldu sinni.
Örugg Rúna ásamt fjölskyldu sinni.
„Við vorum bara heima enda klukkan bara að ganga fimm um morgun þegar þetta gerðist,“ segir Rúna Kristjónsdóttir Kuru í samtali við Morgunblaðið, en hún er ásamt fjölskyldu sinni búsett í borginni Gisborne á Nýja-Sjálandi þar sem...

„Við vorum bara heima enda klukkan bara að ganga fimm um morgun þegar þetta gerðist,“ segir Rúna Kristjónsdóttir Kuru í samtali við Morgunblaðið, en hún er ásamt fjölskyldu sinni búsett í borginni Gisborne á Nýja-Sjálandi þar sem jarðskjálfti upp á 7,1 stig reið yfir síðdegis í gær að íslenskum tíma.

Upptök skjálftans eru áætluð á um 30 kílómetra dýpi og um 167 kílómetrum utan við Gisborne, en borgin er á austurströnd Norðureyjar.

Á fréttaveitu AFP kemur fram að hundruð heimila hafi orðið rafmagnslaus vegna jarðskjálftans, sem fannst vel á bæði Norður- og Suðurey. Þá fylgdu fjölmargir eftirskjálftar í kjölfarið og mældust m.a. tveir þeirra 6,2 og 5,6 stig.

Aðspurð segir Rúna heimili hennar hafa sloppið alveg frá skemmdum þrátt fyrir talsverðan hristing. „Húsið hristist ekki bara og skalf heldur sveiflaðist það hreinlega fram og til baka. Við vöknuðum náttúrulega öll við hamaganginn og krakkarnir brugðust við með því að skýla sér – enda er þeim kennt það í skólanum. En þrátt fyrir þetta allt datt ekki einu sinni ein mynd niður af veggjunum hjá okkur.“

Fólk haldi sig frá ströndinni

Um 90 mínútum eftir að skjálftinn reið yfir mældust háar öldur á Kyrrahafi. Gáfu þá fulltrúar almannavarna á svæðinu út flóðbylgjuviðvörun og þurftu íbúar næstir ströndinni því að yfirgefa heimili sín.

„Ég ákvað að halda krökkunum bara heima því þeir eru í skóla sem er alveg við ströndina. Fólki hefur verið sagt að halda sig frá ströndinni og flytja sig upp á hæð ef annar öflugur skjálfti gengur yfir,“ segir Rúna.

Engar fregnir höfðu í gær borist af miklu tjóni á mannvirkjum. khj@mbl.is