Oddný Harðardóttir
Oddný Harðardóttir
Eftir Oddnýju Harðardóttur: "Við Íslendingar erum efnuð þjóð, svo efnuð að allir ættu að búa við þokkaleg kjör á öllum stigum lífsins."

Of margir eldri borgarar fá lífeyri sem er langt undir þeirri fjárhæð sem þarf til að lifa af. Þetta þarf ekki að vera svona.

Í sumar hef ég notið þess heiðurs að hitta baráttufólk fyrir bættum aðbúnaði og kjörum aldraðra. Við höfum rætt stöðu þeirra sem búa við fátækt og líka um viðhorf til aldraðra. Ég hef hlustað af áhuga á nýjar hugmyndir um hvernig skuli nálgast þennan stækkandi hóp landsmanna sem býr við sífellt betri heilsu.

Við Íslendingar erum efnuð þjóð, svo efnuð að allir ættu að búa við þokkaleg kjör á öllum stigum lífsins. Þrátt fyrir það horfum við á fólkið okkar nálgast efri ár vitandi að sumum þeirra bíður að lifa á eftirlaunum sem ekki nægja fyrir nauðsynjum eða mannsæmandi lífi. Þessu ætlar Samfylkingin að breyta.

Í stuttu máli ætlum við að sjá til þess að eftirlaunin hækki í skrefum í 300.000 kr. mánaðargreiðslur að lágmarki. En það er ekki nóg eitt og sér. Því til viðbótar ætlum við að koma á sveigjanlegum starfslokum svo að þeir sem hafa til þess löngun og getu geti unnið lengur en nú. Jafnframt þarf að einfalda kerfið sem ákvarðar greiðslurnar. Í dag er of flókið að skilja útreikningana og fólk á þar af leiðandi oft í erfiðleikum með að gæta réttar síns. Við ætlum að tryggja meira gagnsæi. Þá ætlum við að afnema svokallaðar krónu á móti krónu skerðingar en sú breyting mun bæta talsvert stöðu margra.

Við höfum efni á að þessu og getum hafist strax handa við bæta kjörin. Nýtt og einfaldara kerfi, hækkun lágmarksgreiðslna í átt að 300.000 kr. lágmarki og afturvirkar greiðslur frá 1. maí í ár kostar ríkissjóð samtals um það bil 15 milljarða króna. Það er vel viðráðanlegt.

Með réttlátari skiptingu þjóðarkökunnar er þetta allt mögulegt. Það er forgangsmál að sýna eldra fólki þá virðingu sem það á skilið eftir langa starfsævi og tryggja því betri kjör.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands.