Bú Kýrnar halda áfram að mjólka, hver svo sem landbúnaðarpólitíkin er.
Bú Kýrnar halda áfram að mjólka, hver svo sem landbúnaðarpólitíkin er. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bændur sem aukið hafa framleiðsluna mikið vegna góðs markaðar fyrir mjólkurafurðir vilja frekar kaupa viðbótarkvóta nokkuð dýru verði heldur en að þurfa að trappa framleiðsluna niður í kvótann sem aftur kemst í gildi um áramót. Það er væntanlega ástæða þeirrar miklu eftirspurnar sem var eftir mjólkurkvóta á tilboðsmarkaði Matvælastofnunar í gær og hækkun kvótaverðs.

Mikil eftirspurn var eftir mjólkurkvóta og einnig mikið framboð á öðrum tilboðsmarkaði ársins. Markaðurinn var sá líflegasti sem verið hefur frá árinu 2010, þegar kvótanum var komið inn í þetta viðskiptakerfi. 1,6 milljón lítrar skiptu um hendur og var verðið 240 krónur á lítrann. Það er 30 krónum hærra en í apríl og 100 krónum hærra en í nóvember fyrir tveimur árum þegar kvótaverðið náði lágmarki. Hæst hefur kvótaverðið komist í 320 krónur, á árinu 2013.

Kvótinn aftur í gildi

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, segir að ástæðan fyrir mikilli eftirspurn sé að kvótinn komist aftur í gildi um næstkomandi áramót, eftir að hafa fríhjólað í tvö ár. Margir hafi aukið framleiðsluna og verið hvattir til þess vegna þess að vantað hafi mjólk á markaðinn. Jafnframt hafi verið stefnt að því að leggja kvótakerfið niður og einhverjir hafi aukið framleiðsluna í trausti þess að það yrði gert.

Áherslur breyttust í samningum um nýjan búvörusamning og ákvörðun um framtíð greiðslumarkskerfisins frestað. Arnar segir að margir séu að framleiða langt umfram greiðslumark og horfi upp á það að þurfa að laga sig að kvótanum um næstu áramót. Þeir bregði á það ráð að reyna að ná sér í kvóta til að tryggja tekjur sínar.

Með kaupum á kvótanum tryggja bændur sér fullt afurðastöðvaverð fyrir mjólkina og hlut í beingreiðslum til næstu þriggja ára.

Vilja ekki verðlausan kvóta

Arnar telur að nýjar aðbúnaðarreglur séu meginástæðan fyrir því að bændur vilji hætta mjólkurframleiðslu og selja kvótann. Nefnir hann að básafjós verði bönnuð eftir tæp tuttugu ár en fram til þess tíma verði ýmsar reglur hertar. Segir Arnar að þeir bændur sem ekki hafi farið í endurnýjun framleiðsluaðstöðu sinnar vilji reyna að selja kvótann núna, á meðan tækifæri er til, fremur en að eiga á hættu að brenna inni með hann. Telur hann að þetta séu frekar minni framleiðendur en stærri og frekar eldri bændur en yngri.