Jón Ragnar Ríkharðsson
Jón Ragnar Ríkharðsson
Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson: "... ég vil búa til gott heilbrigðis- og velferðarkerfi, hafa allar grunnstoðir traustar og það er hægt án þess að seilast djúpt í vasa vinnandi fólks ..."

Ég hef fastmótaða hugmyndafræði sem enginn getur haft áhrif á – annars hefði maður ekkert í framboð að gera. Skatta vil ég lækka umtalsvert og hafa þá eins lága og mögulegt er.

Ég vil berjast fyrir því að sett verði ákvæði í stjórnarskrá sem banna stjórnvöldum að hækka skatta umfram ákveðið hámark sem verður lægra en þeir skattar sem við borgum í dag. Er þetta maðurinn sem vill berjast fyrir hagsmunum eldri borgara? Veit hann ekki að það kostar peninga að rétta þeirra hlut? Ríkið fær tekjur af sköttum ... o.s.frv., þessar mótbárur mun ég fá að heyra.

En það verður eins og að skvetta vatni á gæs – ég vil búa til gott heilbrigðis- og velferðarkerfi, hafa allar grunnstoðir traustar og það er hægt án þess að seilast djúpt í vasa vinnandi fólks. Þegar Fjölnismenn börðust fyrir framförum sagði góður og gegn embættismaður að stærð landsins byði ekki upp á annað en landbúnað og bæri ekki fleiri en fimmtíu þúsund sálir. Í upphafi síðustu aldar var barist fyrir því að verkafólk fengi greitt í peningum – það þótti ekki raunhæft.

Sagan geymir fullt af skoðunum bjúrókrata sem elst hafa ákaflega illa – það eru hugsjónamenn sem vita hvað þeir vilja sem breyta heiminum, en ekki þeir sem fastir eru í staðreyndum samtímans. Benjamin Disraeli sagði að það væru fjórar tegundir ósanninda: „Hálfsannleikur, lygi, helvítis lygi og tölfræði – tölfræðin er versta lygin.“ Það þýðir ekki að nota tölfræðina á mig.

Höfundur gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna.

Höf.: Jón Ragnar Ríkharðsson