Samspil Birgitta Spur segist hafa valið verk sem virka saman og út frá því hvernig þau spila hvert á móti öðru.
Samspil Birgitta Spur segist hafa valið verk sem virka saman og út frá því hvernig þau spila hvert á móti öðru. — Morgunblaðið/Ásdís
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Samskeytingar nefnist ný sýning í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar sem verður opnuð á morgun, laugardag, kl. 14. Þar verða sýnd verk Sigurjóns frá 7. og 8. áratug síðustu aldar en verkin eru samsett úr mörgum ólíkum...

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Samskeytingar nefnist ný sýning í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar sem verður opnuð á morgun, laugardag, kl. 14. Þar verða sýnd verk Sigurjóns frá 7. og 8. áratug síðustu aldar en verkin eru samsett úr mörgum ólíkum efnum.

Verkin flokkast undir það sem kallað hefur verið samskeytingar, eða „assemblage“. Þá er viðarbútum, tilsniðnum eða eins og þeir koma fyrir, skeytt utan á tiltekinn kjarna svo úr verður heildstætt listaverk. Á þessari sýningu gefur að líta úrval verka af þessum toga, sem Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns, hefur valið. „Við ákváðum að ganga út frá því í þessari sýningu hvernig verkin væru uppbyggð. Við höfum valið úr það sem virkar saman og út frá því hvernig þau spila hvert á móti öðru. Dæmi um eitt verk er verk sem ekki hefur verið sýnt lengi og er í eigu Listasafns Íslands, „Konan í húsinu“. Verkið gaf ég Listasafni Íslands þegar safnið flutti í eigin byggingu við Fríkirkjuveg árið 1987,“ segir Birgitta, en mörg verkanna hafa verið sýnd áður en eru nú sýnd saman undir nýjum formerkjum.

Trémyndir í nýju ljósi

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur skrifar í sýningarskrá sýningarinnar en hann er vel að sér í myndlist Sigurjóns og telur hann með allra fjölhæfustu þrívíddarlistamönnum sem íslenska þjóðin hefur alið. Hann segir að full ástæða sé til að skoða trémyndir Sigurjóns í nýju samhengi, eða út frá þessari „assemblage“ tækni, sem hafði veruleg áhrif á nútíma myndlist og sé það markmið sýningarinnar. „Assemblage“, sem hér kallast „samskeytingar“, eiga rætur sínar í collage klippimyndatækninni sem birtist í verkum Picasso og Braque rétt fyrir fyrra stríð.

Nýtti sér aðrar leiðir

Sigurjón var fjölhæfur listamaður en hann hjó mikið í stein, vann í tré og einnig var hann ötull við að móta í leir og gifs og sjóða saman listaverk úr málmi. Birgitta segir Sigurjón hafa notað mikið samskeytingar á seinni árum og notaði þá til þess mörg ólík efni. Það hafi að hluta til komið til vegna þess að þegar heilsu Sigurjóns hrakaði hafi hann ekki getað unnið í stein, sem hugur hans stóð mest til.

Sigurjón fór því að vinna í léttari efni og prófaði sig áfram með að skeyta saman ólíkum efnum. „Hann nýtti sér þá aðrar leiðir, m.a. með því að setja tré og málm saman, bæði með fundna hluti sem hann gerði lítið við, eins og rekavið og annað, og svo þurrkaðan eðalvið sem hann útvegaði sér og vann í,“ segir hún. „Hann þoldi ekki steinrykið, var með ofnæmi og kominn með steinlunga. Svo fékk hann berkla og fór á Reykjalund og var þar í tvö ár og síðan kom heiftarlegt ofnæmi fyrir öllum efnum sem hann hafði unnið í, bæði leir, tré og gips. En steinninn útheimti líka að vera í góðu formi líkamlega,“ segir hún en bætir við að hann hafi þó verið byrjaður að setja saman mismunandi efnivið mun fyrr, eða allt frá 6. áratugnum.

Eins og framhaldssaga

Sigurjón bjó yfir víðtækri reynslu og hafði góð tök á ýmsum efnum í list sinni. „Þessi mikla vídd er í verkum hans af því hann hafði svo mikla þekkingu á höggmyndalistinni. Hann var alltaf með nýjar hugmyndir og það var eins og ný hugmynd fæddist alltaf af annarri. Hann vildi helst ekki láta verkin út úr húsi því hann ætlaði að vinna áfram á því sem fyrir var. Það var eitthvert framhald. Eins og í framhaldssögu,“ segir Birgitta hlæjandi.

Hún segir Sigurjón alltaf hafa haft mikinn áhuga á arkítektúr. „Í huga mínum hefur mörgum verka Sigurjóns svipað til byggingarlistar. Lóðlínan var alltaf innbyggð í öllum verkum Sigurjóns. Hann var mjög mikill rýmislistamaður og þótti gaman að ímynda sér fjarvídd, rými og fjarlægðir. Var mikill áhugamaður um stjörnufræði og gat verið að skoða himininn og þá var hann að hugsa mörg ljósár út í geiminn. En það var hluti af þessari rýmistilfinningu hans. Og þó að mörg verka hans séu unnin á litlum skala eru innbyggð í þeim stór hlutföll. Gefa fyrirheit um stærri form. Og svo er það með þetta lóðrétta og lárétta. Hann var svo viðkvæmur fyrir lóðréttum línum að ef hann kom í hús og sá skakka mynd þá vegg þá fór hann og rétti hana við, án þess að spyrja um leyfi!“ segir Birgitta og hlær. Birgitta segir opnunina óformlega; húsið verður opið og allir velkomnir.