Íslenskir kylfingar voru á ferð og flugi um Evrópu síðustu dagana og nokkrir þeirra kepptu í gær. Íslandsmeistarinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG lék á pari á fyrsta degi á Gordon Golf Open-mótinu á Áskorendamótaröð Evrópu í Frakklandi.

Íslenskir kylfingar voru á ferð og flugi um Evrópu síðustu dagana og nokkrir þeirra kepptu í gær. Íslandsmeistarinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG lék á pari á fyrsta degi á Gordon Golf Open-mótinu á Áskorendamótaröð Evrópu í Frakklandi. Birgir notaði 70 högg á hringnum. Hann fékk fjóra fugla, fjóra skolla og tíu pör og er í 52. sæti af 155 kylfingum. Hann á því fína möguleika á því að komast í gegnum niðurskurð keppenda að loknum 36 holum í dag.

Birgir er fyrir mótið í 108. sæti á peningalista mótaraðarinnar á þessu ári, en hann hefur getað tekið þátt í sex mótum og fór í gegnum niðurskurðinn í þremur þeirra.

Þrír fyrrverandi Íslandsmeistarar eru einnig á ferðinni erlendis. Þórður Rafn Gissurarson úr GR hóf í gær leik á móti á tékknesku mótaröðinni. Þórður er í 38. sæti af 120 kylfingum að fyrsta hringnum loknum, en hann lék á 75 höggum, sem er þrjú högg yfir pari vallarins. Austurríkismaðurinn Sebastian Wittmann átti besta skor dagsins, 67 högg.

Ólafur Björn Loftsson úr GKG og Axel Bóasson úr Keili komust í gegnum niðurskurðinn á móti í Finnlandi á Nordic Golf-mótaröðinni. Ólafur og Axel eru jafnir eftir 36 holur í 39. sæti á samtals tveimur höggum yfir pari. Axel hefur leikið báða hringina á 73 höggum en Ólafur á 72 og 74 höggum. Daninn Jesper Lerchedahl er efstur á samtals sjö höggum undir pari. kris@mbl.is