Helmout Karl Kreidler fæddist í Heilbronn í Þýskalandi 24. júní 1938. Hann varð bráðkvaddur við heimili sitt 19. ágúst 2016.

Foreldrar hans voru hjónin Annelise Kreidler, fædd Kübler, f. 24.11. 1908, d. 22.2. 1941, og Carl Josef Kreidler, f. 12.3. 1898, d. 28.11. 1963. Helmout var eina barn þeirra hjóna.

Helmout kvæntist hinn 23. febrúar 1963 Erlu Victorsdóttur, f. 7.10. 1943, d. 7.8. 1967. Foreldrar hennar voru Hulda Jónsdóttir Gestsson, f. 25.10. 1909, d. 1.1. 1995, og Victor Gestson, f. 29.7. 1908, d. 27.8. 1999. Sonur Erlu og Helmouts er Einar Victor, fæddur 10.8. 1966.

Helmout kvæntist hinn 21. september 1968 eftirlifandi eiginkonu sinni Steinunni Kristjánsdóttur (Lillý), f. 29.6. 1944. Foreldrar hennar eru Anna Jónsdóttir, f. 26.4. 1924, og Kristján Jónsson, f. 6.3. 1915, d. 2.2.1993. Steinunn gekk Einari Victori í móður stað. Einar Victor kvæntist hinn 30. júní 2001 Guðrúnu Unnsteinsdóttur, f. 22.3. 1976. Þau skildu. Börn þeirra eru Dagur Freyr, f. 7.8. 2002, og Eydís Lára, f. 10.3. 2007.

Helmout lauk námi frá Verslunarháskólanum í Reutlingen. Hann nam sjóntækjafræði í Stuttgart og útskrifaðist sem meistari í faginu árið 1958. Þegar augnlinsur komu til sögunnar lauk hann réttindaprófi fyrir snertilinsur í München. Árið 1998 lauk hann síðan sjónfræðiprófi frá Háskólanum í Kongsberg í Noregi. Hann starfaði við sitt fag fyrstu árin í Þýskalandi og Sviss, ferðaðist um Evrópu og kynnti nýjungar í greininni. Hann stofnaði Gleraugnabúðina á Laugavegi 1965 og síðar Gleraugnasmiðjuna í Kringlunni ásamt syni sínum Einari. Í verslununum var veitt alhliða gleraugnaþjónusta og seldar voru allar gerðir af glerjum og augnlinsum sem voru sérgrein fyrirtækisins. Helmout rak verslunina á Laugavegi í samfellt í 42 ár en hann lét af störfum vegna aldurs árið 2007.

Helmout gekk í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Breiðholt árið 1995, var virkur félagi til dauðadags og gegndi þar trúnaðarstörfum.

Útför Helmouts fer fram frá Háteigskirkju í dag, 2. september 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég hitti Helmout í fyrsta sinn stuttu áður en hann og Lillý systir gengu í hjónaband. Þau voru gefin saman í kirkjunni á Hólmavík sumarið 1968, fyrsta parið sem gekk í það heilaga í nývígðri kirkjunni, glæsilegt par. Þau bjuggu í Reykjavík en ég var þá nýbakaður stúdent að norðan á leið í höfuðstaðinn. Helmout fannst ekkert sjálfsagðara en að mágkonan unga fengi að búa hjá þeim, nýbökuðum hjónakornunum. Einnig tóku þau til sín Einar Victor, son hans tveggja ára, og gekk systir mín honum í móður stað.

Síðar þegar við Hjálmtýr hófum búskap hjálpaði Helmout okkur að eiga til hnífs og skeiðar í lok hvers mánaðar þegar mánaðarlaunin voru farin í steinsteypu. Þetta var fyrir tíma kreditkortanna. Helmout var gjafmildur og greiðvikinn og mér líkaði nákvæmni hans, allt pottþétt, eins og hann sagði oft sjálfur. Ég kom til hans með útfylltan tékka sem tók gildi fyrsta dag næsta mánaðar. Svo endurtók sagan sig svo lengi sem við þurftum.

Við eigum góðar minningar um ferðalög með systur minni og mági, bæði skíða- og golfferðir. Minnisstæðust er mér bílferð okkar til Suður-Þýskalands, þar sem við heimsóttum bernskuslóðir hans. Hann missti móður sína tveggja ára og ólst til að byrja með upp hjá ömmu sinni og afa sem var borgarstjóri í Heilbronn. Í lok stríðsins árið 1945 voru þau bæði skotin af nasistum fyrir framan augun á sjö ára barninu en ættmenni faldi Helmout litla í kjallara hússins. Þegar hermenn bandamanna fundu hann var hann fyrst settur í fóstur hjá afasystur sinni í borg nálægt Stuttgart því faðir hans var stríðsfangi í öðru landi. Síðar ólst hann upp hjá föður sínum og ráðskonu hans. Hann var fáorður um fortíð sína en alla tíð duglegur að bjarga sér, lauk námi sínu í Stuttgart árið 1958, vann þar til að byrja með við sitt fag og bauðst síðan starf í Sviss. Á þeim tíma varð þróun í gleraugnasmíðum og gullspangagleraugu komin í tísku. Var Helmout sendur af fyrirtækinu til Frakklands, Norðurlanda og víðar til að kynna þessa nýjung. Á Íslandi var Helmout beðinn um að dvelja um stund til að kenna ungum sjóntækjanema. Á þeim tíma hitti hann Erlu, fyrri eiginkonu sína, og fluttu þau til Sviss en sneru þó fljótlega aftur til Íslands vegna heilsubrests Erlu. Frá þeim tíma hefur Helmout búið á Íslandi og varð íslenskur ríkisborgari árið 1973.

Helmout rak gleraugnaverslun við Laugaveg 36 um árabil og átti farsæla starfsævi. Í fríum ferðuðust hann og Lillý mikið innanlands og utan, bæði ein og með góðum vinum. Helmout hafði mörg áhugamál. Hann var með græna fingur, ræktaði vel garðinn sinn kringum sumarbústaðinn þeirra við Elliðavatn og er þar glæsilegt um að lítast enda ekki von á öðru frá fagurkeranum Helmout. Föstudaginn 19. ágúst kvaddi hann okkur skyndilega. Hann var við bústaðinn þeirra við vatnið á sólbjörtum sumardegi á leið í golf með Lillý sinni.

Ég kveð kæran mág og vin með þökk fyrir allt og allt. Megi Lillý systir, Einar, Dagur Freyr og Eydís Lára öðlast styrk til að takast á við sorg og söknuð.

Anna K. Kristjánsdóttir

Helmout Karl Kreidler, mágur minn og vinur, andaðist 19. ágúst sl. Hann var að leggja af stað í golf með eiginkonu sinni þegar hann hné niður og var allur. Engan grunaði svo snöggan endi á lífshlaupinu og kom því andlátið sem reiðarslag öllum sem Helmout var kær. Hann hafði reyndar látið hafa eftir sér að þegar kallið kæmi vildi hann fara skjótt og í návist ástvinar síns. Honum varð virkilega að ósk sinni.

Ég var enn í háskóla þegar ég kynnist Helmout sem þá var farinn að vera með tvíburasystur minni, Lillý. Þau giftu sig síðan fyrst brúðhjóna í Hólmavíkurkirkju haustið 1968. Gaman var að heimsækja hin nýgiftu hjón og kynntist ég þar fyrst hvað karlmenn geta verið góðir kokkar. Helmout hafði gaman af að elda og voru frönsk áhrif á matargerðina augljós. Hann hafði einnig mikla þekkingu á borðvínum, meiri en almennt gerðist hér á landi í þá daga. Ég á áhuga minn á matargerð og borðvínum meir Helmout að þakka en nokkrum öðrum.

Helmout var heimsborgari og fagurkeri í orðsins fyllstu merkingu. Hann var smekkmaður mikill og alltaf óaðfinnanlega klæddur. Hann talaði vel frönsku og ensku fyrir utan móðurmál sitt, þýsku. Ekki tókst honum þó að ná góðum tökum á íslenskunni enda þótt fáir hafi verið jafn miklir Íslendingar í sér og hann. Þegar hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1973 var hann ákaflega stoltur.

Helmout og Lillý höfðu gaman af ferðalögum og ferðuðust þau víða um heim. Fastur liður í lífi þeirra var skíðaferðir til helstu skíðalanda. Við hjónin, Steinunn og ég, eigum góðar minningar með þeim úr slíkum ferðum. Ógleymanlegar eru ferðir okkar um Suður-Þýskaland sem hann þekkti öðrum stöðum betur. Golfferðir til útlanda urðu að árlegum viðburðum hjá þeim hjónum.

Helmout átti mörg áhugamál fyrir utan ferðalögin, skíðin og golfið s.s. laxveiðar, siglingar og garðrækt. Þau hjónin höfðu keypt fyrir langa löngu sumarhús við Vatnsendavatn í Kópavogi. Helmout hafði unun af að rækta tré, runna og matjurtir og umgekkst hann gróðurinn af umhyggju og sérstakri snyrtimennsku. Hann gaf sér einnig tíma til að sigla á vatninu en hann hafði smíðað þar tvo litla seglbáta og var sá stærri skírður „Lady Lillý“. Þau hjónin fluttu snemma sumars hvert ár í þennan unaðsreit sem þau höfðu gert sér og bjuggu þar langt fram á haust.

Helmout hafði sterkar skoðanir á hinum ýmsu málum og tjáði þær umbúðalaust og af sannfæringu. Hann hafði litla þolinmæði gagnvart sjónarmiðum sem honum hugnaðist ekki. En hann var heiðarlegur og sannur, fals var ekki til í huga hans. Hann var mikill fagmaður og fylgdist vel með öllum nýjungum sem snertu starf hans. Hann fór á sjóntækjasýningar ár hvert og sótti hin ýmsu námskeið í faginu.

Nú þegar komið er að ferðalokum vil ég þakka Helmout fyrir vináttuna og fyrir allar samverustundirnar sem við höfum átt um dagana. Ég bið honum guðs blessunar og megi hann hvíla í friði.

Elsku Lillý, Einar, Dagur Freyr og Eydís Lára, þið eigið gnótt góðra minninga sem munu ylja ykkur um ókomin ár og sefa sorg ykkar.

Jón G. Kristjánsson.

Við eigum margar góðar minningar frá sumarbústöðum okkar við Elliðavatn. Þar ræktuðu Helmout og Lilly fallegan garð sem þau hafa sinnt vel.

Helmout, Viðar Olsen heitinn og ég sigldum á vatninu og skemmtum okkur vel við að þjóta áfram á okkar litlu seglbátum. Helmout var driffjöðrin í því að við stofnuðum siglingaklúbb sem við kölluðum Þingnes. Helmout var okkar „kommandör“. Fleiri en við sem sigldum tengdust svo klúbbnum og hittumst við oft og borðuðum saman í bústöðum okkar við vatnið. Nú síðast hittumst við fyrir fáum vikum í bústað Óla Björgvins og Emmíar. Við áttum þar góða stund.

Á Þorláksmessu borðuðum við og fleiri skötu og hefur sá siður haldist í áratugi. Helmout sá um að kalla hópinn saman og panta fyrir okkur borð. Við munum halda þessum siðum áfram og minnast Helmouts.

Kæra Lillý og Einar, við vottum ykkur samúð vegna skyndilegs fráfalls okkar góða vinar.

Fyrir hönd vinanna við Elliðavatn.

Björn Árdal.

Helmout, vinur okkar til rúmlega 40 ára, varð bráðkvaddur á landinu sínu við Elliðavatn, sem hann elskaði.

Það er óhætt að segja, að Helmout kunni að njóta lífsins, hann var mjög skemmtilegur, hugmyndaríkur, skapstór, stjórnsamur en síðast en ekki síst, góður vinur.

Við ferðuðumst með Lillý og Helmout utanlands sem innan, þetta voru góðar ferðir og sá Helmout til þess að við lentum í alls konar ævintýrum. Minnisstæðar eru vetrarferðirnar okkar um heimahéruð Helmouts í Svartaskógi í Suður-Þýskalandi. Hann sýndi okkur æskustöðvar sínar sem mótuðu hann að vissu marki, því þar upplifði hann sem ungur drengur stríðshörmungar. Hann kynnti fyrir okkur skíðaparadísina Montafon í Austurríki, en þar hafði hann skíðað með fjölskyldu sinni frá 11 ára aldri.

Helmout var hrókur alls fagnaðar, einlægur og talaði oft beint frá hjartanu. Ekki er hægt að segja að hann hafi talað 100% íslensku, en hann var meiri Íslendingur en flest okkar, minnugur á staðarnöfn og ratvís með ólíkindum.

Lillý og Helmout voru mjög samrýnd og hafa alltaf verið dugleg að ferðast, þau höfðu einnig mikinn áhuga á matargerð og buðu okkur hjónum oft í glæsilegar matarveislur, var þá mikið hlegið, spjallað og skoðaðar myndir frá ferðalögum okkar.

Árin þegar við bjuggum í Suðurhólum 8, þau á 1. hæð en við á 3. hæð eru afar minnisstæð, mörg náttfatapartí þegar börnin voru sofnuð og snúra leidd á milli hæða til að heyra ef einhver vaknaði. Garður þeirra fyrir framan íbúðina var einstaklega fallegur, Helmout var fagurkeri og hafði mikinn áhuga á blómum og trjárækt, sem best lýsti sér með yndislegum reit þeirra hjóna við Elliðavatn. Það var þeirra „Golden pond“ .

Minningarnar hrannast upp, lífið breyttist skyndilega, þegar þau hjón voru á leiðinni í golf á yndislegum degi.

Helmouts verður sárt saknað, ekkert verður eins og það var, engar nýjar sögur af Helmout.

Hann sagði nokkrum sinnum við okkur, „krakkar, þegar ég er farinn þá heimsækið þið Lillý með rauðvín og skálið, kannski verð ég bara með“. Eitt er víst að þetta loforð verður efnt.

Elsku Lillý okkar, Einar og barnabörnin, innilegar samúðarkveðjur. Megi góður guð veita ykkur styrk í sorginni.

Ása og Jóhannes.

Við munum hvað þú varst hamingjusamur þegar þið Lillý keyptuð sumarbústaðinn við Elliðavatn. Lillý kallaði bústaðinn „On Golden Pond“. Við grilluðum þar og sungum saman, líka þýsk lög eins og „O, alte Burschen Herrlichkeit“ og „Am Brunnen vor dem Tore“ voru þar með. Við áttum góðar stundir saman á skíðum í Bad Gastein. Síðasta ferðin niður fjallið var okkur oft erfið. Þú veist hvers vegna. Ekki gleymast ferðirnar til Hinterglemm þar sem við lékum golf saman. Ferðirnar til Egyptalands og Kúbu eru okkur einnig ógleymanlegar. Núna Helmout, „fórst du allein“ á undan okkur í óvissuferð. „Aus unserem Leben bist du gegangen, in unseren Herzen bleibst du.“

Guð styrki Lillý, Einar og barnabörnin. Blessuð sé minning vinar okkar Helmouts.

Emmi og Ólafur (Óli).

Vinur okkar Helmout er látinn. Þvílík sorgarfregn sem okkur barst. Við vorum svo lánsöm að kynnast Helmout, Lillý og Einari, syni þeirra, í brúðkaupsferð okkar á Barbados haustið l972.

Helmout gantaðist oft með að þau hefðu verið hreint ómissandi í brúðkaupsferðinni.

Minningarnar eru margar og allar bjartar og góðar. Helmout var einstakur félagi og vinur, gat verið ákveðinn en alltaf kurteis og sanngjarn. Við minnumst meðal annars kvöldverðar á þekktum veitingastað erlendis með þeim hjónum og öðrum góðum vinum. Skemmst er frá að segja að matur og þjónusta stóðu ekki undir væntingum. Heimsmaðurinn Helmout tók forystuna, óskaði eftir að tala við eigandann um leið og reikningurinn var greiddur. Ógleymanleg er athugasemd Helmout: „Sir, me and my friends are not entirely satisfied.“ Eigandinn hneigði sig og spurði hvort við myndum vilja heiðra veitingastaðinn með nærveru okkar næsta kvöld, slíkt var auðsótt.

Við áttum skemmtilega tíma saman, fórum á græna jeepster til óbyggða og í einni slíkri ferð var ákveðið að fara á framandi slóðir. Mexíkó varð fyrir valinu. Ferðin varð ævintýraleg vegna þess að við ákváðum að fara alls ekki á hefðbundna ferðamannastaði heldur þangað sem heimamenn ráðlögðu ferðamönnum að vera ekki að flækjast á og sáum ekki eftir því. Ókum yfir hásléttur, gistum í litlum þorpum hjá heimamönnum og ferðuðumst gjarna í strætisvögnum með þeim og búfénaði þeirra.

Ógleymanlegt er fallhlífaflug og sigling á stórri skútu sem endaði með því að við Helmout hvolfdum stórri Catamara og komumst að því hve mannslíf getur verið lítils virði því eiginkonur okkar þurftu að greiða 25 dollara í björgunarlaun fyrir okkur „hetjurnar“.

Aldrei var lognmolla þar sem Helmout var, gestrisni, hjálpsemi og framkvæmdagleði var honum eðlislæg. Eitt sinn hringdi Helmout og bað mig að koma og skoða sumarhús við Elliðavatn sem hann hafði áhuga á að kaupa og sagði staðsetninguna engu líka. Ég sagði honum að húsið þarfnaðist nokkurrar lagfæringar. Helmout fannst það góður kostur og sagðist þurfa að hafa svona langtíma „project“ í gangi, öruggt væri að byggt yrði á þessum stað innann nokkurra ára og sannarlega reyndist hann sannspár.

Helmout rak fyrirtæki sitt að Laugavegi 36 til fjölda ára, þar var gott að líta inn og spjalla. Lillý og Einar voru honum efst í huga og nöfnin þeirra alltaf nefnd í sömu andrá. Hann hafði einstaklega þægilega nærveru, skarpgreindur, vel lesinn og bjó yfir dásamlegri kímnigáfu sem vinir fengu að njóta.

Góðar og dýrmætar minningar geymum við með okkur.

Það er með sorg í hjarta að við fylgjum Helmout síðasta spölinn hér á jörð. Við kveðjum kæran vin og biðjum drottin að blessa Lillý, Einar barnabörnin og ástvini alla.

Gættu þess vin, yfir moldunum mínum,

að maðurinn ræður ei næturstað sínum.

Og þegar þú hryggur úr garðinum gengur

ég geng þér við hlið þó ég sjáist ei lengur.

En þegar þú strýkur burt tregafull tárin

þá teldu í huganum yndisleg árin

sem kallinu gegndi ég kátur og glaður,

það kæti þig líka, minn samferðamaður.

(James McNulty.)

Jenny Irene og

Haraldur Hjartarson.

Við fráfall Helmouts Karls Kreidler viljum við félagar hans í Rótarýklúbbnum Reykjavík – Breiðholt minnast hans og tuttugu ára samfylgdar.

Helmout gerðist félagi í klúbbnum hinn 20. marz 1995 og var hann fulltrúi fyrir starfsgreinina sjóntækjafræði, Optician Optometrist.

Helmout var ættaður frá Schwaben í Þýzkalandi, vel menntaður með lokapróf frá Verzlunarháskólanum í Reutlingen, optikerpróf í Stuttgart, og réttindapróf fyrir snertilinsur í München. Hann vann víða sem optiker í Evrópu, meðal annars í Sviss, en 1960 hóf hann að starfa sem optiker hjá Ingólfi Gíslasyni á Skólavörðustíg í Reykjavík.

Helmout gerðist íslenzkur ríkisborgari árið 1965. Það ár hóf hann að reka eigin optikerþjónustu og gleraugnaverzlun við Laugaveg og síðar í Kringlunni. Hann var nákvæmur fagmaður á sínu sviði og mikill áhugamaður.

Það var mikill fengur að því að fá Helmout til félags við okkur. Kynning hans á sjóntækjafræðum, einkum í starfsgreinarerindi hans er minnisstæð, og eins útskýringar sem hann gaf okkur félögum aðspurður.

Helmout var félagslyndur maður og áhugasamur um það sem aðrir klúbbfélagar höfðu að segja um sín starfssvið. Það var líf í kringum hann. Hann tók virkan þátt í starfi klúbbsins, umræðum um kynningar annarra og oftar en ekki nálgaðist hann efnið úr óvæntri átt. Helmout gegndi trúnaðarstörfum í klúbbnum.

Helmout var einlægur í framkomu, áræðinn og hreinskilinn, greinilega skapmikill, en fór vel með það. Hann vildi hafa reglu á hlutunum.

Áhugamál hans voru útivist, skíða- og siglingaíþróttir, trjá- og garðrækt. Nutu sumir félaga samveru við hann og hans fjölskyldu í tengslum við þessi áhugamál.

Með þessum orðum þökkum við rótarýfélagar góðum dreng viðkynninguna, samstarfið og tryggðina.

Eiginkonu Helmouts, Steinunni Kristjánsóttur, syni og fjölskyldu biðjum við huggunar í sorginni.

Fyrir hönd Rótarýklúbbsins Reykjavík – Breiðholt.

Kristján Búason.