[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTI Benedikt Grétarsson bgretarsson@mbl.is Handboltamaðurinn Alexander Petersson lék vel með Rhein-Neckar Löwen þegar Þýskalandsmeistararnir unnu Magdeburg í árlegum leik um nafnbótina „Meistarar meistaranna“.

HANDBOLTI

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@mbl.is

Handboltamaðurinn Alexander Petersson lék vel með Rhein-Neckar Löwen þegar Þýskalandsmeistararnir unnu Magdeburg í árlegum leik um nafnbótina „Meistarar meistaranna“. Alexander kinnbeinsbrotnaði fyrir þremur vikum en er kominn aftur á handboltavöllinn. „Ástandið á mér er bara fínt. Það var sagt að þetta tæki 3-4 vikur en núna eru rúmar tvær vikur frá aðgerð. Mér líður bara vel en maður veit aldrei hvað gerist ef maður fengi högg í andlitið. Ég æfi með hlífðargrímu en má ekki nota hana í leikjum,“ sagði Alexander þegar blaðamaður truflaði hann við morgunverð í gær.

Markmiðin eru klár hjá meisturunum.

„Við stefnum á að verja titilinn og komast í „Final four“ í Meistaradeildinni. Við ætlum langt í Evrópukeppninni en í fyrra var deildin aðalmarkmiðið.“

Gaui góður en við söknum Stebba

Guðjón Valur Sigurðsson leikur með Löwen í vetur og er ætlað að fylla skarð Uwe Gensheimer í vinstra horninu. Þá er Stefán Rafn Sigurmannsson einnig farinn frá Löwen til danska liðsins Skjern.

„Að mínu mati erum við ekkert að missa niður gæði í hópnum þegar við fáum Gauja fyrir Gensheimer. Uwe var samt aðalmaðurinn hérna og kannski svolítið andlit félagsins út á við. Við söknum svo allir Stebba. Hann er skemmtilegur karakter í klefanum og þýskan hans er ennþá mikið töluð innan liðsins. „Stebba-tungumálið“ lifir ennþá í búningsklefanum! Hann átti auðvitað erfitt uppdráttar að vera að keppa við Gensheimer um spilatíma en hann stóð sig samt alltaf vel þegar hann fékk að spila.“

Landsliðsferillinn búinn?

Alexander lék undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar hjá Rhein-Neckar Löwen en nú er það hinn danski Nikolaj Jakobsen sem stýrir skútunni. Alexander segir þjálfarana vera ólíka persónuleika.

„Gummi var miklu meira niðursokkinn í allt sem tengdist handbolta. Hann er gríðarlega einbeittur og það kemst fátt að nema handbolti hjá honum. Nikolaj er léttari á því og kannski betri í félagslega þættinum en Gummi. Báðir eru þeir samt mjög góðir þjálfarar.“

Alexander hefur á undanförnum árum dregið sig í auknum mæli úr landsliðsverkefnum en ætlar hann að fara að leggja landsliðsskóna á hilluna?

„Þetta er góð spurning en einnig spurning sem mér finnst ekkert sérstaklega skemmtileg! Ég mun taka endanlega ákvörðun á næstu vikum en það er alveg eins líklegt að ég hafi leikið minn síðasta landsleik. Ég vil einbeita mér að félagsliðinu mínu og reyna að vera aðeins lengur í topphandbolta. Til að það verði að veruleika, þarf ég einfaldlega að fá hvíld þegar landsliðsverkefnin detta inn. Ég fann t.d. mikinn mun á mér eftir hvíldina í sumar, þegar umspilsleikirnir við Portúgal fóru fram. Það er ekki langt þangað til ég tek lokaákvörðun varðandi landsliðið.

Alexander hefur ekki tekið ákvörðun um hversu lengi hann mun halda áfram í handbolta.

„Nú er Gaui kominn hingað og það gefur manni auka hvatningu. Ég ætla ekki að hætta á undan honum!“ En kitlar það eitthvað að koma heim og ná einu tímabili á Íslandi í lok ferilsins?

„Nei, ég held ekki. Ef ég næ að spila hér í 2-3 ár í viðbót, þá held ég að ég geti bara ekki spilað handbolta lengur og verði alveg ónýtur. Ekki nema KR fari að byggja eitthvað upp, þá kem ég kannski þangað,“ sagði Alexander léttur að lokum.