[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Flestir eru á því að núverandi stjórnarskrá hafi sannað gildi sitt í eftirköstum hrunsins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, en þar var lagt til að bæta við þremur nýjum ákvæðum í stjórnarskrána; um náttúruvernd, auðlindaákvæði og þjóðaratkvæðagreiðslur. Ákvæðin eru afrakstur vinnu stjórnarskrárnefndar Alþingis, sem skipuð var árið 2013.

Hann sagði að nefndin hefði ákveðið í upphafi síns starfs að forgangsraða í störfum sínum eftir því hverju væri líklegt að hægt væri að ná sáttum um. Því hefðu þessi ákvæði orðið fyrir valinu.

Valgerður Bjarnadóttir, fulltrúi Samfylkingar í stjórnarskrárnefnd, sagði að Alþingi hefði ekki ráðið við það verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Það hefði stjórnlagaráð hins vegar gert og að 64% þátttakenda í atkvæðagreiðslunni 20. október 2012 hefðu verið samþykk því að leggja þær tillögur til grundvallar.

Lagði Valgerður áherslu á að stefna Samfylkingar væri að halda áfram með starf stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili.

Ólýðræðislegir þröskuldar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og fulltrúi í stjórnarskrárnefndinni, tók að mestu í sama streng og Valgerður. Hún lagði áherslu á að ætlunin með stjórnlagaráði hefði verið að gefa fólkinu í landinu tækifæri til þess að hafa áhrif á það ferli sem það væri að endurskoða stjórnarskrána.

Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni, sagði: „Alþingi hefur breytt stjórnarskránni sjö sinnum á lýðveldistímanum, og meirihluta greinanna hefur í raun verið breytt.“

Svo bætti hann við: „Sumir orða það þannig að Alþingi ráði ekki við þetta verkefni. Þegar ég heyri menn halda því fram hugsa ég stundum, meinar sá sem þetta segir ekki bara, Alþingi er ekki tilbúið að gera þær breytingar sem ég vil fá fram?“ Staldraði hann við atburðarás síðasta kjörtímabils og þær breytingar sem stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði ætlað að gera. Þær áætlanir hefðu runnið út í sandinn, þar sem algjörlega óraunhæft hefði verið að ætla að keyra fram stjórnarskrárbreytingar ofan á allt annað sem menn hefðu verið að vinna úr á vordögum 2009. Þar hefði hafist ákveðinn skotgrafahernaður, þar sem viðhorf fylkinganna hefði orðið allt eða ekkert. „Menn vildu setja úrslitakosti, knýja fram niðurstöðu.“ Og það hefðu menn viljað gera, nánast óháð því hvað minnihluti þingsins, sem þó var allverulegur, vildi í málinu, vildi Birgir meina. Átökin hefðu því verið hörð, og hann sjálfur hefði tekið þátt í því ásamt fleirum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, var hins vegar ósátt við ferlið sem stjórnarskrármálið hefði verið sett í og sagði það ekki hafa tekist betur til en svo að forsætisráðherra væri einn flutningsmaður að tillögunni. Fá þyrfti heildræna sýn, stjórnarskrá á mannamáli. Þetta væri hins vegar ekki leiðin. Þröskuldar þeir sem settir hefðu verið á þjóðaratkvæðagreiðslur í tillögunni væru ólýðræðislegir.