[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lilja Marteinsdóttir, íslenskur ríkisborgari í Höfðaborg í Suður-Afríku, veit ekki sitt rjúkandi ráð eftir að hún fékk þau svör frá utanríkisráðuneytinu í fyrradag að 12 ára dóttir hennar yrði að koma til Íslands til þess að endurnýja vegabréfið sitt til næstu fimm ára.

Vegabréf dótturinnar rennur út eftir um sex mánuði og stúlkan fær ekki framlengingu á dvalarleyfinu í Suður-Afríku nema að vera með gilt vegabréf um miðjan október, í að minnsta kosti tvö ár.

Mæðgurnar hafa búið í Höfðaborg í um fjögur ár. Lilja er í sambúð með þarlendum manni og eiga þau tvö börn yngri en tveggja ára. Hún er sjálf að bíða eftir framlengingu á dvalarleyfi í Suður-Afríku og á meðan má hún ekki yfirgefa landið. „Það tekur nokkra mánuði að fá áritunina og fari ég úr landi, til dæmis til þess að fara með dóttur minni til Íslands, má ég ekki koma til baka,“ segir Lilja. „Fari hún ekki til Íslands til þess að fá nýtt vegabréf verður henni vísað úr landi.“

Lilja segir að samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins sé ekkert annað í stöðunni en að senda barnið til Íslands til þess að sækja um nýtt vegabréf svo stúlkan fái að vera áfram í Suður-Afríku næstu þrjú árin, en dvalarleyfi sé gefið út til eins árs í einu. „Það eina sem mér stendur til boða er að senda barnið eitt til Íslands og þar sem svona ung börn mega ekki ferðast ein verð ég líka að borga fyrir fylgdarmanneskju.“

Óvenjuleg staða

Lilja segist hafa heyrt af nokkrum í svipaðri stöðu. „Staða mín er sérstök vegna dvalarleyfisumsóknar minnar og hinna barnanna en samt er eina lausnin að senda 12 ára gamla dóttur mína aleina til Íslands,“ áréttar hún.