— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Þingsályktunartillaga 25 þingmanna um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar var lögð fram á Alþingi á þriðjudaginn.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Þingsályktunartillaga 25 þingmanna um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar var lögð fram á Alþingi á þriðjudaginn. Flutningsmennirnir vona að hún fái afgreiðslu á þessu þingi en tillagan hefur ekki enn verið sett á dagskrá Alþingis.

Í lögum nr. 91 frá 2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna segir í fyrstu grein að Alþingi geti ályktað að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Í sömu grein segir að niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu sé ráðgefandi. Samkvæmt því getur niðurstaðan ekki orðið bindandi.

„Siðferðileg skylda yfirvalda“

Ögmundur Jónasson, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, hefur sagt í viðtali við Morgunblaðið að ef fram kæmi yfirgnæfandi vilji þjóðarinnar til að halda flugvellinum í Vatnsmýri teldi hann það siðferðislega skyldu yfirvalda, þ.e. ríkis og Reykjavíkurborgar, að taka það alvarlega.

Í 4. grein sömu laga segir að þjóðaratkvæðagreiðsla samkvæmt 1. grein skuli í fyrsta lagi fara fram þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að Alþingi hefur samþykkt hana. Því er útilokað að slík atkvæðagreiðsla geti farið fram samhliða alþingiskosningunum sem áformaðar eru 29. október næstkomandi.

Þingsályktunartillagan er flutt af þingmönnum úr öllum flokkum nema Pírötum og Bjartri framtíð.

Í greinargerð með tillögunni segir að markmið hennar sé að þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn um málið og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna.

„Ljóst er að ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og að staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Þá er ekki síður ljóst að vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og hlutverks síns sem varaflugvöllur, gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning,“ segir m.a. í greinargerðinni.

Flutningsmenn
tillögunnar
Ögmundur Jónasson, Höskuldur Þórhallsson, Elín Hirst, Kristján L. Möller, Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Ásmundur Einar Daðason, Brynjar Níelsson, Elsa Lára Arnardóttir, Geir Jón Þórisson, Haraldur Benediktsson, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttr, Karl Garðarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Vilhjálmur Árnason, Páll Jóhann Pálsson, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.