Hólar í Hjaltadal Rúmlega fjögur þúsund manns mættu á Landsmót hestamanna í Skagafirði. Óttast sveitarfélagið að þar verði það ekki haldið aftur.
Hólar í Hjaltadal Rúmlega fjögur þúsund manns mættu á Landsmót hestamanna í Skagafirði. Óttast sveitarfélagið að þar verði það ekki haldið aftur. — Morgunblaðið/Þórunn
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Landsmóti hestamanna ehf. var gert að greiða 2,5 milljónir króna í löggæslukostnað vegna mótshaldsins á Hólum í Hjaltadal í sumar.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Landsmóti hestamanna ehf. var gert að greiða 2,5 milljónir króna í löggæslukostnað vegna mótshaldsins á Hólum í Hjaltadal í sumar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á þeim löggæslukostnaði sem ýmis sveitarfélög eru krafin um vegna hátíða.

Ljóst er að talsverðs misræmis gætir í kröfum lögreglu um greiðslu kostnaðar vegna landsmótsins, þar sem ekkert þarf að greiða þegar það er haldið á höfuðborgarsvæðinu.

„Ef þetta er ekki mismunun veit ég ekki hvað það er,“ segir Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri Skagafjarðar, en sveitarfélagið styrkti mótshaldið í sumar.

Í samtali við Morgunblaðið segir hún að búið sé að samþykkja að halda landsmótið hjá Fák í Víðidal árið 2018, á Hellu árið 2020 og hjá Spretti í Kópavogi árið 2022.

Þá viti hún ekki hvort til standi að mótið verði að nýju í Skagafirði tveimur árum síðar heldur skiljist henni að vegna þessa sé unnið að því að færa mótið alfarið á höfuðborgarsvæðið.

Ásta segir að mikill missir væri að mótinu, enda sé það sveitarfélaginu heiður að fá að halda það.

„Auðvitað vonumst við til að koma áfram til greina, eftir mjög vel heppnað mót í sumar. En maður spyr sig, því að svona misræmi hjálpar að minnsta kosti ekki til.

Ef maður horfir á hinn endann er lögreglunni vissulega naumt skammtað og hún þarf að kalla út aukalið. En það hlýtur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að gera líka.“