Nú er það byrjað á ný. Evrópustuðið. Ég er kominn heim. Það gerist ekki betra. Ekkert nema ánægjan. Menn fljúga hátt kvöld eftir kvöld.

Nú er það byrjað á ný. Evrópustuðið. Ég er kominn heim. Það gerist ekki betra. Ekkert nema ánægjan. Menn fljúga hátt kvöld eftir kvöld. Víkverji vonar bara að enginn úti á landi þurfi á sjúkraflugi að halda, þegar ekki verður hægt að lenda á Reykjavíkurflugvelli vegna lokunar neyðarbrautarinnar.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta gaf tóninn í fyrrakvöld og fótboltalandslið karla verður í eldlínunni í nýrri keppni ytra á mánudag, en kvennalandsliðið verður svo á ferðinni í Laugardalnum eftir tvær vikur.

Körfuboltalandsliðið vann hug og hjörtu áhorfenda í úrslitakeppni EM í Berlín í fyrra og jók á gleðina með glæstum sigri á Sviss í riðlakeppni EM í Laugardalshöll í fyrrakvöld. Ísland hefur í gegnum tíðina átt frábæra einstaklinga í körfu á hverjum tíma en nú eru allir landsliðsmennirnir með þetta og þeir voru í einu orði sagt frábærir í umræddum leik. Víkverji á samt erfitt með að sætta sig við að liðið tapaði niður góðu forskoti í stað þess að auka við það. Engu að síður stefnir í skemmtilegan körfuvetur og laugardagur á Kýpur er til lukku.

Víkverji bíður ekki síður spenntur eftir mánudagskvöldinu og er farinn að setja sig í stellingar, máta treyjuna frá Frakklandi og gera allt klárt.

Fjöldi Íslendinga á úrslitakeppni EM í Frakklandi fyrr í sumar skipti þúsundum og uppselt var á alla heimaleiki Íslands í riðlakeppninni. Liðið fær ekki sama stuðning í Úkraínu því aðeins nokkrir íslenskir blaðamenn verða fulltrúar þjóðar

innar í stúkunni á NSK Olimpiyskyiá-leikvanginum á mánudag. Spilað verður fyrir luktum dyrum vegna framkomu áhorfenda heimaliðsins í fyrri keppni og því verða stuðningsmenn að láta sér nægja að horfa á leikinn í beinni útsendingu í sjónvarpi. En það verður allt í lagi.