Sjónrænt sterkt „Trúðarnir velja ákveðna viðburði úr sögunni, sem kalla mætti vörður, sem bjóða upp á sterkar sjónrænar myndir,“ segir Jón Páll.
Sjónrænt sterkt „Trúðarnir velja ákveðna viðburði úr sögunni, sem kalla mætti vörður, sem bjóða upp á sterkar sjónrænar myndir,“ segir Jón Páll. — Ljósmynd/Auðunn Níelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta er ný kómísk og kærleiksrík spunasýning sem hefur sögulega tengingu við Matthías Jochumsson og Eyjafjörð,“ segir Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar hjá Menningarfélagi Akureyrar (MAK), um trúðasýninguna Helgi magri sem frumsýnd verður í Samkomuhúsinu á Akureyri í kvöld kl. 20.

„Ég, eins og Matthías á sínum tíma, er aðfluttur Akureyringur. Mér fannst því liggja beint við að skoða samfélagið og sögu sjónleikja í firðinum til að læra af sögunni, en við hjá MAK höfum sterka samfélagslega tengingu. Þá rek ég augun í þessa landnámshátíð sem haldin var hér á Eyrinni árið 1890 í tilefni af þúsund ára afmæli landnáms í Eyjafirði. Þar voru sýndar þrjár sýningar á hátíðarleikriti um Helga magra sem Matthías samdi sérstaklega fyrir hátíðina og um 400 manns sáu,“ segir Jón Páll og bendir á að Matthías hafi tekið mjög virkan þátt í hátíðinni.

„Sem dæmi var lofgjörðarkvæðið, sem síðar varð þjóðsöngur okkar, flutt þarna ásamt fleiri ljóðum og ræðum Matthíasar. Hann lagði því mikið undir bæði listrænt og fjárhagslega, því hann borgaði fyrir uppfærsluna á Helga magra og ætlaði að ná upp í kostnaðinn með því að selja handritið að verkinu á hátíðinni. Það var prentað í Reykjavík en eintökin skiluðu sér aldrei norður fyrir hátíðina og því sat Matthías eftir með sárt ennið,“ segir Jón Páll þegar hann rifjar upp hina dramatísku uppsetningarsögu verksins.

Blása lífi í söguna

„Uppfærslan á Helga magra fékk vægast sagt slæma dóma á sínum tíma. Þetta er fyrsta sögulega leikritið í íslenskri leiklistarsögu og það fékk mjög slæma útreið. Matthías virðist sjálfur ekki hafa verið ánægður með útkomuna því hann afsakar verk sitt í formálanum,“ segir Jón Páll og rifjar upp að hann hafi því eðlilega íhugað hverjir gætu sviðsett þetta versta verk Íslandssögunnar í dag. „Auðvitað eru það trúðar, því að þeir nálgast alltaf hlutina af kærleika og einlægni. Að mínu mati geta þeir einir rannsakað verkið, fundið því einhverja tengingu í samtímanum og blásið í það lífi,“ segir Jón Páll og bendir á að trúðarnir hafi tekið verkefni sitt bókstaflega. „En við erum með stóra plastskúlptúra á sviðinu sem eru bókstaflega blásnir upp.“

Mikið samvinnuverkefni

Að sögn Jóns Páll er uppsetningin mikið hópverkefni. „Trúðarnir fjórir, þ.e. Pétur, Tómas, Brynhildur og Sigfús, hafa ásamt bestu vinum sínum, þeim Benedikt Karli Gröndal, Halldóru Malín Pétursdóttur, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Kjartani Darra Kristjánssyni, skapað allt í samvinnu við okkur Þórodd Ingvarsson ljósahönnuð,“ segir Jón Páll, sem ásamt Þóroddi er listrænn stjórnandi sýningarinnar. „Í sameiningu höfum við skapað alla umgjörðina, þ.e. búninga, lýsinguna, leikmyndina, plastskúlptúrana og öll önnur brögð leikhússins sem við notum við sviðsetninguna. Þetta er sannkallað samvinnuverkefni. Samkvæmt varðveittum heimildum er vitað að sýningin 1890 var mjög íburðarmikil og þótti sjónrænt áhrifamikil á þess tíma mælikvarða. Við reyndum að nálgast þá upplifun áhorfenda á sínum tíma að um íburðarmikla sýningu væri að ræða,“ segir Jón Páll og bætir við: „Trúðarnir velja ákveðna viðburði úr sögunni, sem kalla mætti vörður, sem bjóða upp á sterkar sjónrænar myndir sem þeir byggja á sviðinu og sviðsetja.“

Góð fyrir hjartað

Uppfærsla Leikfélags Akureyrar á Helga magra verður aðeins sýnd í Samkomuhúsinu út september. „Sýningin er aldrei lengri en 80 mínútur og er leikin án hlés. Þar sem stór hluti hennar byggir á spuna trúðanna er viðbúið að engar tvær sýningar verði eins. Stundum hafa trúðarnir áhyggjur af því hversu fáar kvenpersónur eru í verkinu sem hafa eigin rödd eða senum sem ekki eru skrifaðar í verkið. Öðrum stundum velta þeir fyrir sér þeim persónulega harmi sem bjó að baki verkinu hjá Matthíasi, sem hafði misst tvær eiginkonur, eða hugsa um tengingu við verk Shakespeares sem hann var að þýða um svipað leyti. Þeir velta líka fyrir sér göllunum í handritinu sjálfu og reyna að útskýra fyrir áhorfendum af kærleika,“ segir Jón Páll og tekur fram að sýningin henti áhorfendum frá tíu ára og upp úr. „Þetta er sýning sem er góð fyrir hjartað og augað.“