Reynir Sævarsson fæddist í Hveragerði 16. mars 1959. Hann lést af völdum krabbameins á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn 13. ágúst 2016.

Foreldrar eru Sævar Magnússon, f. 18.6. 1936, og Karítas Óskarsdóttir, f. 25.12. 1939. Systkini eru: Ómar Sævarsson, f. 17.2. 1958, giftur Sigurlaugu Angantýsdóttur og eiga þau tvær dætur, Báru Sif og Önnu Karítas; Þór Sævarsson, f. 13.12. 1962, d. 10.10. 1993; og Sigurjóna Valdís Sævarsdóttir (Jóna Dísa), f. 20.3. 1967, gift Herði Gunnarssyni og eiga þau tvö börn, Tinnu, maki Jón Auðunarson, barn þeirra Alexander Auðun Jónsson, og Þór.

Reynir bjó með fjölskyldu sinni í Laugarási, Biskupstungum, þar sem foreldrar hans ræktuðu blóm frá 1967. Hann fluttist til Kaupmanna hafnar 1979.

Að hans ósk fór útförin fram í kyrrþey í Selfosskirkju 30. ágúst 2016.

Minn elskulegi bróðir Reynir kvaddi okkur laugardaginn 13 ágúst síðastliðinn. Við Hörður maðurinn minn vorum hjá honum síðustu daga og hans síðustu stundir. Reynir kvaddi þennan heim mjög fallega og sáttur enda orðinn þreyttur á erfiðri baráttu við blessaðan krabbann.

Reynir var alla tíð svo listrænn og fjölhæfur að mála og það að teikna myndir steinlá fyrir honum og liggja eftir hann nokkur falleg málverk, annars var hann ekki mjög duglegur að geyma það sem hann gerði. Ég hugsa að fáir hafi átt svona skrautlegt herbergi eins og Reynir, hann skreytti alla veggina og loft hjá sér með myndum og táknum. Þegar hann var 14 ára var hann í öðru sæti í hugmyndasamkeppni hjá Verslunarbanka Íslands um besta sparibaukinn en þá gerði hann líkan að sparibauk úr þremur netakúlum, keypti hann sér gítar fyrir vinningspeninginn sem hann sjálflærði á með hjálp sjónvarpsins.

Reynir flutti til Kaupmannahafnar aðeins tvítugur að aldri því það var ekki auðvelt að vera hommi á Íslandi í þá daga og lokaði hann mjög á Ísland eftir það nema á okkur fjölskylduna sína sem hann hélt allaf góðu sambandi við. Ég hef aldrei skilið þessa fordóma enda aldrei skilið hvað þetta kemur öðrum við og vil ég þakka þeirri hugsun frábærum kennara sem kenndi okkur í Reykholtskóla í kringum 1980 en það var Guðrún Jónsdóttir, núna talskona Stígamóta, og fundu bræður mínir þetta ósvikna fordómaleysi mitt og urðum við nánari fyrir vikið. Við Reynir héldum alltaf sérstaklega góðu sambandi og hringdumst mikið á og svo höfðum við fyrir sið að senda hvort öðru alltaf kort ef við fórum í ferðalag og stóð sá leikur í 30 ár. Reynir reyndist miklu meiri flökkurófa en ég og fékk ég kort úr öllum heimsálfum á þessum árum. Að ferðast og skoða heiminn var hans líf og yndi og núna er hann farinn í sína síðustu ferð og ég veit að Þór bróðir hefur tekið vel á móti honum. Reynir elskaði að fara í göngutúra og hafði hann fyrir vana að ganga helst einn til tvo tíma á dag til að halda sér í formi. Þegar Reynir veiktist í fyrravetur lamaðist hann og gat því ekki farið í sínar gönguferðir og það fannst honum mjög erfitt og eins var sárt að hann gæti ekki notað svalirnar sem hann setti í fyrra vetur en hann var búinn að safna fyrir þeim og hlakka til í nokkur ár. Reynir var alltaf mjög sjálfstæður og vildi helst aldrei neina hjálp og hann breyttist ekkert þótt hann væri fárveikur, honum þótti óþægilegt þegar aðrir voru að gefa honum að drekka og borða eins og smábarni. Reynir vildi gera allt sjálfur en neikvæðni og uppgjöf var ekki til í hans orðabók og notaði hann sína hinstu krafta til að halda sjálfstæði sínu.

Reynir mun að eigin ósk hvíla á sama stað og Þór bróðir okkar í kirkjugarðinum á Selfossi. Núna er Reynir farinn í sína síðustu ferð og er loksins batnað eins og hann sagði sjálfur við okkur Hödda rétt áður en hann kvaddi. Elsku bróðir, góða ferð og ég bið að heilsa Þór.

Þín systir

Jóna Dísa.

Í dag fylgi ég elskulegum mági mínum, Reyni Sævarssyni, síðasta spöl hans í þessu jarðlífi. Ég heyrði fyrst af honum þegar ég kynntist Ómari bróður hans árið 1990 en þá hafði Reynir um árabil verið búsettur í Danmörku. Mikill ævintýrablær hvíldi ávallt yfir honum, hann kom sjaldan á æskuslóðirnar en þegar von var á honum jókst eftirvæntingin og þegar hann mætti var eins og týndi sonurinn væri kominn heim.

Reynir talaði ekki mikið um sjálfan sig en var mjög áhugasamur um að fá fréttir af fjölskyldu sinni, þá sérstaklega af systkinabörnum sínum og í spjalli við þau var hann oft ráðagóður. Mér þótti afar skemmtilegt að ræða við hann og fann að hann var gáfumenni og vel að sér um ýmis málefni.

Hann var lífsreyndur maður þrátt fyrir ungan aldur, þegar hann var yngri var hann duglegur að ferðast um heiminn og kynntist þá fjölbreyttum menningarsamfélögum. Reynir lifði lífinu lifandi og lét drauma sína verða að veruleika hvort sem þeir tengdust námi eða starfi. Hann vann við trjáfellingar í Noregi, lærði kvikmyndagerð í Svíþjóð, lærði frönsku og starfaði meðal annars sem leiðsögumaður í Suður-Ameríku og Rússlandi, auk þess að starfa fyrir Rauða krossinn víða um heim. Þegar leið á ævina fóru veikindi að herja á hann og smám saman fór ferðunum að fækka. Reynir glímdi lengi við hinn illvíga sjúkdóm sem krabbamein er og loks kom að því að morgni laugardagsins 13. ágúst að Guð almáttugur linaði þrautir hans og líknaði barni sínu. Nú er elskulegur mágur minn, Reynir Sævarsson, kominn í himnahæðirnar, hann er kominn heim.

Dagur er liðinn, dimmir furðu skjótt.

Allir góðir englar

vaki yfir þér í nótt.

Vindinum kalda verður bráðum rótt.

Allir góðir englar

vaki yfir þér í nótt.

Hugurinn reikar, hjartað slær svo ótt.

Allir góðir englar

vaki yfir þér í nótt.

Sælt er að geta sofnað vel og fljótt.

Allir góðir englar

vaki yfir þér í nótt.

(Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Ég bið kærleiksríkan Guð að halda verndarhendi sinni yfir foreldum Reynis, Karítas og Sævari, systkinum hans og fjölskyldum þeirra og veita þeim styrk er þau nú syrgja látinn ástvin.

Kveðja,

Sigurlaug Angantýsdóttir.

Elskulegi frændi okkar er látinn. Reynir frændi fluttist til Kaupmannahafnar nokkuð áður en við fæddumst og hittumst við því ekki mjög oft, um það bil á tveggja ára fresti. Hann hefur þó alltaf verið stór hluti af lífi okkar. Hann hringdi oft heim í mömmu og ef við svöruðum fannst okkur gaman að spjalla við hann um heima og geima. Hann sagði okkur ferðasögur og við honum hvað á daga okkar hafði drifið hverju sinni. Reynir var duglegur að senda okkur póstkort þegar við vorum yngri og í þau einu skipti sem við sendum bréf var til að senda honum kveðju. Á afmælum og jólum fengum við fallegar gjafir frá fjarlægum og framandi slóðum sem við höldum mikið upp á, en hans líf og yndi var að ferðast. Okkur þótti hann mjög spennandi enda var hann engum líkur. Minningarnar um þig, elsku frændi, ylja okkur um hjartarætur. Okkur systkinin langar að senda ömmu og afa innilegar samúðarkveðjur og megi góður guð styrkja ykkur í sorg ykkar.

Velkominn heim, þú ungi Íslands meiður,

til upphafs þíns í ljúfum dalafriðnum.

Að taka við þér langt að komnum, liðnum,

sem lífs þú værir – slíkur er nú heiður

hins græna vallar, blóms og blárra dagga.

Hér býður þér nú skjól þín gamla vagga.

Þó sortni ský við hnjúk er himinn

yfir

sem helgar rót í moldu og spörr á flugi

og sendir ljós í systra þinna hugi

– hinn sanni kjarni allrar veru lifir

og enn mun sólin björt á bæinn skína

og blessa föður þinn og móður þína.

(Daði Skúlason)

Sofðu rótt elsku frændi.

Þetta erum við,

Tinna og Þór.

Kynni mín við Reyni byrjuðu í Kaupmannahöfn fyrir ca. 40 árum.

Ungur var hann þá og bar af í fríðleik, gáfum og gæsku. Mikið vildi hann ferðast og sjá heiminn og læra tungumál. Gerðist allgóður í frönsku, ensku og öðrum tungumálum. Einnig las hann bókmenntir og unni listum. Þessi ár voru mjög umbreytingasöm hjá mörgum ungum Íslendingum og mikið farið á milli og önnur lífsgildi athuguð og trúarbrögð.

Sumir fóru aftur til Fróns með veganestið sitt í pokanum, aðrir fóru annað eða héldu áfram að búa og vinna í henni København.

Ár líða, en alltaf hittumst við aftur og voru það gleðifundir. Margt spjallað, ferðalögin hans eða mín verkefni og allt mögulegt, skalinn var breiður.

Þegar Reynir þurfti svo að glíma við sín veikindi á síðari árum, var hann æðrulaus, gleymdi aldrei að spyrja um hagi annarra og vildi helst ekki tala um sín vandamál eða láta vorkenna sér, heldur tala um annað.

Nú er ferðalaginu langa lokið og þú kominn aftur heim. Megir þú hvíla í friði og sátt.

Þú lifir þó áfram í minningunni, elskulegur vinur minn.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint

gleði bak við tárin.

(JÁ)

Pia Rakel Sverrisdóttir.

Ég hefði átt að skrifa Reyni bréf. Nú er það of seint og þegar ég spyr mig hvað ég hefði átt að segja fara mest um hugann minningar sem eiga tæpast erindi á blað.

Það rifjast upp þegar við töluðum saman í síma fyrir nokkrum árum. Ég fékk að vita hvernig meðferð við æxli í heila getur breytt líkamanum. Hann ræddi líka um að flytja til Íslands. Ég vonaði þá að við fyndumst en það varð ekki. Ég veit ekki hvort ég hefði hitt sama mann og ég þekkti þegar við lukum stúdentsprófi saman. Ég á kannski ekkert að vita það. Á kannski bara að vera þakklátur fyrir þær minningar sem ég hef. Þær eru ekki margar frá seinni árum. En þess fleiri frá þeim tíma þegar við ólumst upp í Laugarási.

Krakkaskarinn í hverfinu lifði eins og í sögu. Veltist með hundunum í svaðinu. Uppfullur af óþekkt. Lék sér að öllu sem var bannað. Stal tóbaki frá fullorðna fólkinu og ég man hvað hann gat hlegið skærum hlátri. Þó að allir spyrðu eftir honum, stelpurnar líka, var hann svolítið til hliðar. Gróm sem settist á aðra tolldi ekki við slíkan dreng. Hann brá líka fyrir sig máli sem þekktist varla í sveitinni. Sagði jafnvel „vinur vors og blóma“ um strák eins og mig.

Eftir barnaskóla urðum við samferða í landspróf og menntaskóla og Reynir hætti ekki að hlæja. Þegar ég hugsa um það nú átta ég mig á að hann var einn minna félaga nógu græskulaus til að geta hlegið að mér án þess að það væri neitt óþægilegt. Ég veit samt ekki hvað bjó á bak við þann hlátur. Ég veit varla heldur hvort ég er að rifja þetta upp eða búa það til. En mér finnst eins og orðin sem lýsa honum best séu varla til í nokkru máli. Orð eins og vökudreyminn, húmbjartur og hulduljós.

Foreldrum Reynis og systkinum sendi ég mínar bestu samúðarkveðjur.

Atli Harðarson.

Sama dag og Reynir Sævarsson vinur minn lést vegna veikinda í Kaupmannahöfn gengu tvær ungar konur sem ég þekki í hjónaband á Íslandi. Þær ljómuðu af hamingju því þær voru að giftast ástinni í lífi sínu og allir aðstandendur glöddust innilega með þeim. Allt eins og vera ber á brúðkaupsdegi ungra kvenna sem eiga framtíðina fyrir sér. Þær voru að giftast hvor annarri.

Reynir Sævarsson, skólafélagi minn, sessunautur og vinur í Menntaskólanum að Laugarvatni, flutti til Danmerkur fljótlega eftir að við lukum stúdentsprófinu 1979. Hann sagði skilið við Ísland og það reyndist æ erfiðara að halda sambandi því hann kom eiginlega aldrei heim. Hann kaus að byrja nýtt líf í Kaupmannahöfn þar sem var auðvelt að vera samkynhneigður og samþykktur. Því var ekki að heilsa heima á Íslandi því hér varð hann fyrir aðkasti og einelti vegna þess hver hann var. Þegar ég fékk hina sorglegu fregn um andlátið kom yfir mig sami vanmátturinn og á árum áður þegar ég syrgði sambandið sem hafði fjarað út. Þessar tilfinningar voru blandnar skömm yfir því að hafa ekki gert meira, skorist meira í leikinn, staðið meira með vini mínum gegn hryllilegu eineltinu í menntaskólanum, gegn fordómum og grimmd. Það var raunar aðdáunarvert hvernig Reynir varðveitti lífsgleði sína þrátt fyrir mikið mótlæti og hvernig hann ákvað að byrja nýtt líf í öðru landi. Styrkleikar hans voru svo margir, hann var traustur vinur, skemmtilegur, fyndinn og klár auk þess að vera sérstaklega næmur á tilfinningar. Það er mér afar dýrmætt að hafa átt hann að vini og félaga og ég þakka fyrir það.

Samtökin 78 voru stofnuð árið fyrir útskrift okkar Reynis úr menntaskólanum. Þökk sé þessum samtökum og sterkum einstaklingum fyrir þær gríðarlegu breytingar á viðhorfi til samkynhneigðra sem hafa orðið síðan. Ungu konurnar sem giftu sig daginn sem Reynir dó þurfa ekki að flýja land eins og hann gerði. Ég gleðst yfir því og hlakka til þess dags þegar kynhneigð er hætt að skipta máli.

Hrund Ólafsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Reynir.
Hver minning dýrmæt perla
að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni
af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var
gjöf sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum,
sem fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)
Með þakklæti i hjarta og góðar minningar kveðjum við þig, elsku frændi.
Jóhanna og Hera.