Jöfnunarmark Aron Elís Þrándarson og Ævar Ingi Jóhannesson fagna marki þess fyrrnefnda í heimaleiknum við Norður-Íra fyrir ári síðan.
Jöfnunarmark Aron Elís Þrándarson og Ævar Ingi Jóhannesson fagna marki þess fyrrnefnda í heimaleiknum við Norður-Íra fyrir ári síðan. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Aðalatriðið er að uppskera sigur gegn Norður-Írunum. Það er svo gríðarlega mikilvægt upp á framhaldið.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Aðalatriðið er að uppskera sigur gegn Norður-Írunum. Það er svo gríðarlega mikilvægt upp á framhaldið. Við erum búnir að koma okkur í svo góða stöðu í þessum riðli og það yrði algjör synd að klúðra því,“ sagði Aron Elís Þrándarson, leikmaður U21-landsliðsins í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær. Ísland mætir Norður-Írlandi í bænum Lurgan kl. 18 í dag, í sjöunda leik sínum í undankeppni EM. Leikið er á heimavelli Glenavon, liðsins sem KR sló auðveldlega út í forkeppni Evrópudeildarinnar í sumar.

Eins og Aron Elís benti á er Ísland í góðri stöðu í sínum riðli. Liðið hefur ekki tapað leik og er með 12 stig, líkt og Makedónía, en Frakkland er efst með 14 stig. Ísland á leik til góða á bæði lið. Efsta lið riðilsins kemst beint á EM en 2. sæti gæti gefið þátttökurétt í umspili (þangað komast lið úr fjórum riðlum af níu).

Eftir leikinn við Norður-Íra í dag ferðast íslenska liðið til Frakklands og mætir heimamönnum á þriðjudagskvöld í toppslag. Ísland vann frækinn sigur á Frakklandi, 3:2, á Kópavogsvelli fyrir ári en gerði svo 1:1-jafntefli við Norður-Írland þar sem Aron Elís skoraði mark Íslands. Hann segir leikmenn staðráðna í að gera betur nú:

„Mér fannst við eiga frekar dapran leik gegn Norður-Írum heima. Við vorum nýbúnir að eiga góðan leik gegn Frökkum og ég veit ekki alveg hvað gerðist. Við vorum að spila við erfiðar aðstæður og þetta voru mikil slagsmál. Auðvitað vildum við taka þrjú stig þar en það eru allir landsleikir hörkuerfiðir. Við vitum alveg að þetta lið mun koma á morgun [í dag] og berjast eins og ljón. Við þurfum að vera tilbúnir í það,“ sagði Aron Elís.

„Þeir eru „agressívir“, sérstaklega í byrjun leiks, og við verðum að vera skynsamir. Við keyrum bara á sömu „prinsippum“ og við höfum gert – erum þéttir fyrir í vörninni og refsum þeim svo þegar tækifæri gefst,“ bætti hann við.

Ísland hefur í síðustu tveimur leikjum sínum gert markalaus jafntefli við Skotland og Makedóníu, í bæði skiptin á útivelli. Þessi lið koma svo til Íslands í byrjun október í síðustu leikjum riðlakeppninnar. Aron Elís er staðráðinn í að komast með Íslandi í lokakeppni EM en það hefur Íslandi einu sinni tekist, árið 2011. Aðeins 8 þjóðir voru með á því móti en þær verða í fyrsta skipti 12 talsins í lokakeppninni í Póllandi á næsta ári.

„Markmiðið okkar er að vinna riðilinn. Við erum í mjög góðri stöðu eins og er, en það eru allir leikir erfiðir fyrir okkur. Við þurfum að gera þetta almennilega,“ sagði Aron Elís.

Fyrirliði liðsins, Hjörtur Hermannsson, er áfram með hópnum en þjálfarar A-landsliðs Íslands ákváðu að betra væri fyrir Hjört að spila þessa mikilvægu leiki með U21-landsliðinu en að vera í A-landsliðshópnum sem mætir Úkraínu á mánudagskvöld. Aron Elís fagnar því að hafa miðvörðinn öfluga áfram í sínu liði:

„Það er gríðarlega mikilvægt að hafa Hjört. Hann er mikill leiðtogi og búinn að spila leikina í riðlinum með okkur. Það er mjög gott að hann sé hér.“