[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Ingi Gíslason fæddist 2. september 1946 í Reykjavík en flutti á Selfoss 1948 tæplega tveggja ára og hefur búið þar síðan.

Björn Ingi Gíslason fæddist 2. september 1946 í Reykjavík en flutti á Selfoss 1948 tæplega tveggja ára og hefur búið þar síðan. „Ég var í sveit á sumrin, á árunum 1954-1962, gekk ungur í skátahreyfinguna Fossbúa og stofnaði ásamt öðrum peyjafélagið Eldingu sem var öflugt íþróttafélag.

Björn gekk í barna- og unglingaskólann á Selfossi og síðar í Iðnskólann. Fór á samning í hárskeraiðn 1964 hjá föður sínum og tók við rekstri stofu hans 1967 vegna veikinda hans. Hann hefur starfað við hárskeraiðn síðan á eigin stofu og útskrifað fjóra nema. „Ég starfa í dag með tveimur sonum mínum, Kjartani og Birni Daða, á rakarastofu sem er í eigu okkar allra.“

Formaður í fjölda félaga

„Ég hef verið í félagsmálum í 50 ár, var kosinn formaður knattspyrnudeildar Selfoss 19 ára og er enn að.“ Björn sat í bæjarstjórn Selfoss í þrjú kjörtímabil og varamaður í þrjú, átti sæti í fjölda nefnda á vegum bæjarins og hefur átt sæti í bæjarráði.

Björn hefur verið formaður í eftirtöldum félögum og nefndum: Knattspyrnudeild UMF Selfoss í 12 ár, Ungmennafélagi Selfoss í 6 ár, Meistarafélagi hárskera, stjórn Tónlistarskóla Árnessinga, Fulltrúaráði Sjálfstæðifélaganna í Árnessýslu, forseti J.C. Selfoss og er núverandi formaður sóknarnefndar Selfosskirkju. Björn sat í stjórn Knattspyrnusambands Íslands, Hjónaklúbbs Selfoss, Sjálfstæðisfélagsins Óðins, kjördæmisráði Sjálfstæðisfélaganna í Suðurkjördæmi, Í landsstjórn J.C. Ísland og Stangaveiðifélagi Rangæinga. Hann ritstýrði í áratug íþróttasíðu Skarphéðins í héraðsblaðinu Suðurland og skrifaði fjölda greina tengdar íþróttastarfi Héraðssambandsins Skarphéðins og skrifaði greinar um málefni bæjarins og um íþróttastarfið sem fram fer í bæjarfélaginu.

Björn er heiðursfélagi knattspyrnudeildar UMF Selfoss og varð heiðursfélagi Ungmennafélags Selfoss á 80 afmæli þess í vor. Hann hefur hlotið gullmerki KSÍ og gullmerki UMF Selfoss.

Á árum áður lék hann í nokkrum hljómsveitum á Suðurlandi, fyrst í skólahljómsveit sem hét GHBÓ, stofnaði hljómsveitina Limbó kvartett, lék í Mánum frá Selfossi og síðar kvartett Einars Loga. „Ég hef alltaf haft áhuga á tónlist, íþróttum, veiðiskap, félagsmálum almennt og er í Karlakór Selfoss. Fjölskyldan er mér kær og hef gaman að fylgjast með afkomendur mínum vaxa úr grasi. Ég hef áhuga á garðrækt og lóðinni minni, stunda sund og hjóla nokkuð.“

Fjölskyldan ætlar af þessu tilefni að bjóða vinum og vandamönnum að fagna með afmælisbarninu í Hvítahúsinu Selfossi í kvöld kl. 20.15-23.15.

Fjölskylda

Eiginkona Björns er Hólmfríður Kjartansdóttir, f. 6.1. 1948, fyrrverandi þjónustufulltrúi Selfossveitna.

Foreldrar: Katrín Aðalbjörnsdóttir baðvörður, f. 17.8. 1922, d. 10.7. 1986, Kjartan Einarsson trésmíðameistari f. 22.5. 1923, d. 31.12. 1961, voru bús. á Hvolsvelli.

Synir Björns og Hólmfríðar: 1) Kjartan, rakari og forseti bæjarstjórnar svf. Árborgar, f. 4.9. 1965, maki: Ingunn Helgadóttir framhaldsskólakennari, bús. á Selfossi, dætur þeirra: Guðrún Birna f. 2008 og Rannveig Helga f. 2010. Frá fyrrahjónabandi: Hólmfríður Erna, f. 1989, barn: Ásdís Inga Theodórsdóttir f. 2010; Viðar Örn f. 1990, barn: Henning Thor Viðarsson f. 2016; og Katrín Arna f. 1995; 2) Gísli húsasmiður, f. 4.11. 1969, maki: Elísabet Hlíðdal leikskólakennari, bús. á Selfossi, þeirra börn: Arnór Ingi, f. 1996, Barbara Sól, f. 2001, Dagur Rafn f. 2006, fyrir á Gísli, Björn Frey, f. 1993; 3) Einar framkvæmdastjóri, f. 26.7. 1974, maki: Anna Stella Eyþórsdóttir skrifstofumaður, bús. á Selfossi, þeirra börn: Karen Lind f. 2002, Einar Bjarki f. 2005, og Jón Daði f. 2011; 4) Björn Daði klippari, f. 2.5. 1980, maki: Elínborg Werner Guðmundsdóttir verslunareigandi, bús. á Selfossi.

Albróðir Björns er Gylfi Þór íþróttakennari, f. 20.12. 1949, bús. á Selfossi. Hálfsystkini samfeðra: Ámundi Reynir, leigubílstjóri í Reykjavík, f. 6.7. 1924, d. 20.8. 2008; Ingigerður Kristín, húsfreyja í Reykjavík, f. 11.1. 1928; Hulda, húsfreyja í London, f. 2.11. 1929, d. 16.7. 1974; Regína Hanna, húsfreyja í Kópavogi, f. 17.11. 1932.

Foreldrar: Gísli Sigurðsson, rakarameistari á Selfossi, f. 24.12. 1896, d. 6.6. 1970, og k.h. Rannveig Sigríður Sigurbjörnsdóttir húsmóðir, f. 1.12. 1918, d. 1.4. 1983.