Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Halldórsson sh@mbl.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir það grafalvarlegt ef rétt sé að stjórnvöld og fjármálaráðuneytið hafi ekki verið upplýst um öll þau gögn sem fyrir lágu um stöðu Sparisjóðs Keflavíkur þegar ákvörðun var tekin um að reyna að halda honum á floti á síðasta kjörtímabili. Sú ákvörðun hafi haft í för með sér milljarða tjón fyrir skattgreiðendur.

Rætt var um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna á Alþingi á miðvikudag. Tilefnið var nýútkomið álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á skýrslunni.

Ögmundur Jónasson, formaður þeirrar nefndar, sagði í ræðu sinni að ljóst væri að víða hefðu verið brotalamir í rekstri sparisjóðanna fyrir fall þeirra. Allt hefði miðast að því að gera þá sem líkasta bönkunum og að þeir hefðu með því fjarlægst gömlu gildi sparisjóðanna.

Sparisjóðirnir út fyrir sviga

Brynjar, sem einnig á sæti í nefndinni, benti á að við endurreisn fjármálakerfisins hefði önnur leið verið farin í tilviki sparisjóðanna, þeir hefðu í raun verið teknir út fyrir sviga.

„Við í nefndinni einblíndum svolítið á gerðir stjórnvalda í kringum Sparisjóðinn í Keflavík, sem átti samkvæmt pólitískri ákvörðun að vera grunnstoð í endurreisn sparisjóðakerfisins. Niðurstaða okkar er að hér hafi verið gerð mistök, sem kostað hafi skattgreiðendur mikið fé, meira heldur en þurfti, ef farin hefði verið sama leið og farin var við endurreisn annarra fjármálafyrirtækja.“

Fjármálaeftirlitið gerði skýrslu í september 2008 um útlána- og markaðsáhættu sjóðsins, þar sem niðurstaðan gaf mjög dökka mynd af stöðunni. Stofnunin gaf þó sparisjóðnum ítrekaðan frest til að uppfylla lögbundnar kröfur um eiginfjárhlutfall. Segir Brynjar að þegar skoðuð hafi verið öll gögn sem legið hafi fyrir eftir vinnu Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, um stöðu sjóðsins, hafi verið ljóst að staða hans færi sífellt versnandi.

Segist hefðu gripið í taumana

„Engu að síður voru ítrekað veittir frestir. Útilokað er að réttlæta það með nokkrum hætti, að mínu viti, að FME skyldi veita sex mánuði í viðbót eftir sex mánaða framlengingu á undanþágunni, án þess að geta gefið nokkur haldgóð rök fyrir því þegar fulltrúar FME komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.“ Brynjar sagði það ekki ljóst hvort þessi afstaða Fjármálaeftirlitsins hefði haft áhrif á pólitíska ákvörðunartöku, en margir væru þó á þeirri skoðun að því hefði verið öfugt farið, hin pólitíska afstaða hefði haft áhrif á ákvörðun FME. Benti hann á að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefði sagt fyrir rannsóknarnefndinni að ef hann hefði vitað af skýrslu FME frá 2008 hefði verið gripið strax í taumana.

„Svo það virðist vera að stjórnvöld og ráðuneytið hafi ekki verið upplýst um öll gögn sem lágu fyrir um stöðu sjóðsins. Það er auðvitað grafalvarlegt ef rétt er,“ sagði Brynjar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók einnig til máls og benti á að þessi ákvörðun Steingríms hefði einnig mætt gagnrýni í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Sagði Birgir að þótt hægt væri að deila um hversu mikið tjón í milljörðum talið hefði hlotist af ákvörðunum af þessu tagi, „verður engu að síður að horfast í augu við að það geti verið skaðlegt fyrir stjórnmálamenn að ætla að taka ákvarðanir undir þessum kringumstæðum á forsendum rómantískra hugmynda um að hægt sé að viðhalda kerfi, sem einu sinni var, og einu sinni þjónaði tilgangi en er óvíst að eigi við með sama hætti í breyttu umhverfi“.

Áhyggjur reyndust réttmætar

Guðlaugur Þór Þórðarson tók einnig til máls um sparisjóðinn og sagði það ekki vera í fyrsta skipti, allt síðasta kjörtímabil hefði hann ásamt fleiri þingmönnum gagnrýnt ákvarðanir stjórnvalda, en gert hefði verið lítið úr þeim áhyggjum.

„Þegar niðurstöður skýrslunnar eru skoðaðar þá kemur í ljós að allar þær áhyggjur sem við höfðum, og allar þær athugasemdir sem við settum fram, reyndust því miður réttmætar. Má í raun segja að, ef eitthvað var, þá vanmátum við hvað var í gangi.

Allir vöruðu við þeirri leið sem farin var af hálfu síðustu ríkisstjórnar. Og málið er mjög einfalt, vegna þess að þessi leið var farin, þá kostaði hún milljarða fyrir íslenska skattgreiðendur.“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagðist sem fyrrverandi fjármálaráðherra una því mjög vel sem að sér sneri; bæði því sem rannsóknarnefndin setti á blað og niðurstöðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Draga mætti lærdóm af málinu. „Niðurstöðurnar tel ég vandaðar og ekki ósanngjarnar á einn eða neinn hátt,“ sagði Steingrímur. „Ég dró ekki undan að í hlut áttu ákveðnar pólitískar áherslur og þess er að sjálfsögðu getið í skýrslunni.“

Fall sjóðsins
» Fjármálaeftirlitið tók yfir sparisjóðinn vorið 2011 og skipaði honum skilanefnd.
» Eignir og skuldbindingar hans voru færðar í nýtt félag, sparisjóðinn SpKef, í eigu Bankasýslu ríkisins.
» SpKef var sameinaður Landsbankanum árið 2011.
» Gjaldþrot sjóðsins er talið hafa kostað skattgreiðendur rúmlega 25 milljarða króna.