Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Eftir Gísla Gíslason: "Grein Lilju var sem ljúf tónlist í eyrum þeirra sem hafa talað fyrir auknu samstarfi við Færeyjar og reyndar Grænland einnig."

Nýlega birti Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, grein í Morgunblaðinu um samstarf Íslands og Færeyja og á svipuðum tíma heimsótti hún Færeyjar og átti þar fund með góðvini Íslendinga, Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja. Grein Lilju var sem ljúf tónlist í eyrum þeirra sem hafa talað fyrir auknu samstarfi við Færeyjar og reyndar Grænland einnig. Í heimsókn sinni til Færeyja undirritaði Lilja þriggja landa yfirlýsingu um að kannaðir verði kostir viðskiptasamnings Íslands, Grænlands og Færeyja auk þess sem tekið var undir stuðning við aðild Færeyja að EFTA.

Það blasir við í breytingum á norðurslóðum að aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands styrkir stöðu smáríkjanna sem ráða yfir stóru hafsvæði og auðlindum á hafsvæðinu. Allt hefur sinn tíma en stefnan er mikilvæg og markmiðin í sjónmáli ef vel er róið. Undirritaður hefur talað fyrir auknu samstarfi m.a. á því sviði að metnaður verði lagður í að ná samningum um fiskveiðar þannig að við stöndum saman í samningsgerð við Norðmenn, ESB og á næstu árum Breta. Aukið samstarf mun fá aukið vægi við útgöngu Breta úr ESB. Á sömu forsendum geta löndin þrjú markað stefnu í umhverfismálum á norðurslóðum, m.a. með því að gera hafsvæðið frá Grænlandi til Færeyja að ECA-svæði þar sem þess verði gætt í siglingum að eingöngu verði notað eldsneyti á skip, sem mengar minna en nú þekkist. Við eigum ekki að bíða eftir því að aðrir bendi okkur á nauðsyn þess að draga úr mengun á norðurslóðum og við megum alls ekki bíða eftir því að allt sé komið í ógöngur til að bregaðst við því augljósa. Tíminn til aðgerða er nú! Þá getur framlag þessara þriggja landa í samstarfi við aðrar þjóðir varðandi öryggismál á hafinu einnig verið mikilvægt.

Færeyingar nefna stundum að Íslendingar horfi mest á hinn stóra sjóndeildarhring þegar kemur að viðskiptum, en gæti ekki nægjanlega að sínu nánasta umhverfi. Þetta er eflaust rétt, því tækifæri liggja í því að auka viðskipti við Færeyjar og á Grænlandi mun í auknum mæli á næstu árum opnast tækifæri til viðskipta og þjónustu. Mikilvægt er þó að hagsmunir af viðskiptum verði gagnkvæmir og þar liggja ýmis tækifæri fyrir löndin þrjú. M.a. má nefna fiskveiðar, fiskeldi, ferðaþjónustu, heilbrigðismál, menntamál og samgöngur, þar sem öll löndin hafa mikla hagsmuni af samstarfi og aukinni samvinnu.

Á síðustu árum hefur margt verið ritað og rætt um þróun á norðurslóðum, auknar siglingar, nýjar siglingaleiðir og umhverfismál. Rætt hefur verið um auðlindir í hafinu og á hafsbotni og þar hafa Íslendingar visslega átt sína ágætu rödd m.a. með ráðstefnunni Arctic Circle. Með yfirlýsingu ráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands glæðist sú von að ákveðin og stór skref verði tekin á næstu misserum af forystu þessara landa á sviði umhverfismála, samstarfs um veiðar, aukinna viðskipta og samstarfs á öllum þeim sviðum sem að gagni geta orðið.

Það er ekki tilviljun að Færeyingar hafi fyllt götur og torg í Þórshöfn þegar íslenska landsliðið spilaði í Frakklandi á liðnu sumri og að á Grænlandi var fylgst grannt með árangri Íslands. Í þessum löndum eigum við sameiginlega hagsmuni og væntingar, en umfram allt stöndum við sterkust saman.

Höfundur er áhugamaður um aukið samstarf Íslands og Færeyja og í stjórn Viðskiptaráðs Færeyja og Íslands.