Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Eftir Hildi Sverrisdóttur: "Lítill vöxtur framleiðni er stóra vandamálið sem stjórnmálamenn ættu að missa svefn yfir."

Efnahagsbatinn á Íslandi undanfarin ár er einstakur, um það ber alls konar alþjóðlegur samanburður vitni. Skynsamleg hagstjórn á núverandi kjörtímabili í bland við hagstæðar ytri aðstæður hefur skilað okkur aftur í fremstu röð vestrænna ríkja. Það eru góðar fréttir fyrir heimili landsins – og ríkissjóð, sem hefur þá úr meiru að spila til að styðja þá sem þurfa aðstoðar samfélagsins með.

Engu að síður eru hættumerki í hagþróuninni. Framleiðnivöxtur hefur frá hruni verið um 1% á ári, sem er miklu minna en undanfarna áratugi. Þetta er stóra vandamálið sem stjórnmálamenn ættu að missa svefn yfir, vegna þess að aukin framleiðni er lykillinn að verðmætasköpun og velferð þjóðarinnar í framtíðinni.

Í dag eru um fimm vinnandi menn á hvern aldraðan á Íslandi. Árið 2050 verður hlutfallið tveir og hálfur á móti einum. Þetta þýðir að við þurfum að stórauka framleiðni til að standa undir verðmætasköpun samfélagsins og þar með velferðarþjónustu við þjóð sem eldist hratt. Við þurfum að búa til helmingi meiri verðmæti á hvern vinnandi mann – og gott betur.

Í skýrslu McKinsey fyrir Viðskiptaráð árið 2012 var sjónum beint að því hvernig tryggja mætti framleiðni og verðmætasköpun til framtíðar. Annars vegar var lagt til að Íslendingar legðu allt kapp á að efla alþjóðageirann, þ.e. útflutningsstarfsemi sem byggist ekki á náttúruauðlindum heldur hugviti, og hins vegar að störf yrðu færð úr innlendum þjónustugreinum þar sem framleiðni er léleg, til dæmis landbúnaði og verslun, yfir í alþjóðageirann.

Settur var á fót Samráðsvettvangur um aukna hagsæld, sem birti tillögur um hvernig mætti ná markmiðunum. Þar á meðal eru margar sem ganga út á að opna íslenskt atvinnulíf fyrir samkeppni og innflutningi. Sömuleiðis var lagt til að peningar skattgreiðenda sem fara í menntakerfið yrðu nýttir betur með því að stytta nám og útskrifa fólk fyrr úr langskólanámi. Lagt var til að hefta vöxt opinbera geirans, sameina ríkisstofnanir og þannig mætti áfram telja.

Eflum hugvitið

Viðskiptaráð birti fyrir skemmstu úttekt þar sem McKinsey-skýrslan er rifjuð upp og skoðað hversu mikið af tillögum Samráðsvettvangsins hafi komist í framkvæmd. Niðurstaðan er að það er aðeins um þriðjungur og að hagþróunin sýni að í raun hafi mistekist að efla alþjóðageirann. Hinn mikli vöxtur ferðaþjónustunnar, sem er í eðli sínu lágframleiðnigrein þótt hún skili nú miklum tekjum í þjóðarbúið, hefur þvert á móti gert útflutning landsins einsleitari og viðkvæmari fyrir áföllum.

Við þurfum að halda áfram á þeirri braut að efla hugvitið og útflutning byggðan á því. Við þurfum að opna viðskiptalífið fyrir samkeppni, fækka sérleyfum og vernduðum starfsgreinum og efla einkarekstur í stað þess að þenja út opinbera geirann. Við þurfum að halda áfram að taka erfiðar ákvarðanir í skólamálum, sem stytta nám og skila ungu fólki fljótar út á vinnumarkaðinn.

Eingöngu með þessu móti getum við aukið framleiðni og þannig tryggt að nóg verði til skiptanna árið 2050, bæði fyrir vinnandi fólk og þá sem þurfa á aðstoð samfélagsins að halda.

Ég tel Sjálfstæðisflokknum best treystandi til að fylgja þessu stóra velferðarmáli eftir. Ég býð fram krafta mína til að svo megi verða og bið um 4. sætið í prófkjöri flokksins í Reykjavík.

Höfundur er borgarfulltrúi og býður sig fram í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.