Alþingi Sigríður Andersen telur skattkerfið vera of flókið.
Alþingi Sigríður Andersen telur skattkerfið vera of flókið. — Morgunblaðið/Eggert
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is „Viðbrögðin sem ég hef fengið við reiknivélinni, núna og fyrir fjórum árum þegar ég setti hana upp fyrst, benda til þess að fólk sé alls ekki meðvitað um gangverk skattkerfisins.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

„Viðbrögðin sem ég hef fengið við reiknivélinni, núna og fyrir fjórum árum þegar ég setti hana upp fyrst, benda til þess að fólk sé alls ekki meðvitað um gangverk skattkerfisins. Vegir skatt- og bótakerfisins eru enda nánast órannsakanlegir,“ segir Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hún útbjó reiknivél, svokallaðan Vasareikni, á heimasíðu sinni. Þar getur fólk reiknað út hversu mikið það eykur ráðstöfunartekjur sínar selji það út vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur miðað við þær tekjur sem það hefur, hjúskaparstöðu, eignir og skuldir og svo framvegis.

Hún segir dæmi um að fólk auki aðeins tekjur sínar um þrjú þúsund krónur þegar það selji vinnu sína fyrir tíu þúsund. Hinar sjö þúsund krónurnar fara í virðisaukaskatt, tryggingagjald, iðgjöld í sameignarsjóð, tekjuskatt og bótaskerðingu.

Skattkerfið er of flókið

Að sögn Sigríðar er skattkerfið of flókið, sem hefur neikvæðar afleiðingar í för með sér. Minna aðhald verður frá skattgreiðendum en ella, en hún segir flækjustigið hafa aukist til muna þegar margskiptu tekjuskattskerfi var komið á í tíð síðustu ríkisstjórnar.

„Ég tek til dæmis eftir því að reiknivél hjá ríkisskattstjóra ræður ekki við að reikna skatta einstaklings í hjónabandi eða sambúð þar sem skatturinn fer eftir því hvernig tekjur skiptast á milli hjónanna. Það segir ákveðna sögu um hver flókið kerfið er orðið.“