Einar Hallgrímsson fæddist 23. maí 1921 að Þorsteinsstöðum í Svarfaðardal. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á Sjúkrahúsinu á Akureyri 26. ágúst 2016.

Foreldrar hans voru Hallgrímur Einarsson, f. 6. júlí 1888 á Skeiði í Svarfaðardal, d. 15. janúar 1966, og Soffía Jóhannesdóttir, f. 23. júlí 1891 í Göngustaðakoti í Svarfaðardal, d. 23. janúar 1991. Einar var yngstur sinna systkina. Systur hans voru Lilja Hallgrímsdóttir, f. 5. ágúst 1916, d. 11. febrúar 2014, og Jónína Hallgrímsdóttir, f. 10. apríl 1919, d. 25. júní 2016. Einar kvæntist Guðlaugu Önnu Guðnadóttur, f. 9. desember 1921 á Enni á Höfðaströnd. Gengu þau í hjónaband 15. júní 1947 og eignuðust þrjú börn, þau eru: a) Halla Soffía, f. 30. mars 1949. Maki Hafliði Ólafsson, f. 22. janúar 1942. Börn þeirra eru: Einar, f. 21. desember 1985, og Sigurlaug Hanna, f. 8. júlí 1988. b) Jóhanna Guðný, f. 18. apríl 1951, og c) Hallgrímur, f. 18. apríl 1951. Einar var búfræðingur frá Hólaskóla og hóf búskap að Urðum í Svarfaðardal árið 1946 og bjó þar til æviloka.

Útför Einars fer fram frá Urðakirkju í dag, 2. september 2016, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Nú höfum við kvatt hann afa okkar í hinsta sinn. Elsku besta afa okkar. Þegar við hugsum til afa og reynum að lýsa honum í nokkrum orðum eru það orð eins og einlægni, heiðarleiki og jákvæðni sem koma upp í hugann. Kímnin var heldur aldrei langt undan og það fylgdi honum allt til enda.

Afi var gegnheill bóndi sem hafði hug á búverkum allt fram til síðasta dags. Eftir að hann var hættur að vera sjálfur í útiverkunum fylgdist hann með því hvað aðrir voru að gera, spurði á hverjum degi oft á dag hvað fólkið hefði verið að gera og skráði svo það helsta niður í dagbók. Kvöldið áður en hann kvaddi spurði hann hvað fólkið hefði nú verið að gera í dag. Mamma sagði honum að hún hefði verið að taka upp kartöflur. Það þótti honum gott, það væri ekkert betra að geyma það að taka upp kartöflurnar. Svona var afi í hnotskurn. Hann setti sig svo vel inn í allt sem var verið að gera á bænum; hvað við værum komin langt í girðingunni, hvort það ætti ekki að garða það sem ætti að taka inn á morgun, hvort að við ætluðum ekki að setja áburðardreifarann inn í skemmu ef það færi nú að rigna? Hann var með í öllu. Svo grínaðist hann oftar en ekki þar sem hann sat fyrir framan sjónvarpið og hneykslaðist á því að það skyldi ekki vera kvenmaður sem læsi kvöldfréttirnar í það skiptið. Þegar fólkið á skjánum þakkaði fyrir og kvaddi að lestri loknum þakkaði afi fyrir sömuleiðis.

Afi var mikill söngmaður og hafði gaman af félagsstarfi. Hann hafði verið í öllum mögulegum kórum hér á svæðinu, Kirkjukórnum, Karlakór Dalvíkur og Kór aldraðra. Þegar hann treysti sér ekki lengur til að vera í kór var það ekki þar með sagt að hann gæti ekki sungið lengur. Hann hafði nefnilega þann bjartasta tenór sem ekki verður toppaður, og er þá alls hlutleysis gætt. Á hverjum aðfangadegi sat hann á sínum stað í sófanum og hlustaði á messuna í útvarpinu og söng svo með öllum jólasálmunum þannig að húsið fylltist af söng. Þetta gerði hann líka síðustu jólin hér, 94 ára að aldri.

Við erum svo innilega þakklát fyrir að hafa haft hann afa hjá okkur svona lengi og við svo góða heilsu. Það mun taka langan tíma að venjast því að heyra ekki fótatakið hans hér, að sjá hann ekki sitja við stofugluggann eða að hann hringi í mann og spyrji: Hvar ert þú? Hvað er mamma þín að gera? En frændi? Við höfum þó kveikt á útvarpinu inni í herberginu hans, svona til að reyna aðeins að fylla upp í tómarúmið. Afi er ekki langt undan og hann verður í huga okkar og hjarta um ókomin ár.

Innilegar þakkir fyrir allt, elsku afi, við munum sakna þín.

Einar og Sigurlaug Hanna.