Stóryrtur en óskýr Donald Trump flytur ræðu um stefnu sína í innflytjendamálum í Phoenix í Arizona. Í ræðunni áréttaði hann loforð sitt um að reisa múr á landamærunum að Mexíkó og láta grannríkið greiða kostnaðinn að fullu.
Stóryrtur en óskýr Donald Trump flytur ræðu um stefnu sína í innflytjendamálum í Phoenix í Arizona. Í ræðunni áréttaði hann loforð sitt um að reisa múr á landamærunum að Mexíkó og láta grannríkið greiða kostnaðinn að fullu. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Donald Trump, forsetaefni repúblikana í Bandaríkjunum, sýndi á sér nýja hlið í stuttri heimsókn í Mexíkó í fyrrakvöld þegar hann ræddi kurteislega við forseta landsins og kom fram sem spakur og háttprúður stjórnmálaleiðtogi til að reyna að vinna á sitt band óákveðna kjósendur sem efast um að hann sé hæfur til að gegna forsetaembættinu vegna glannalegra yfirlýsinga hans í kosningabaráttunni. Nokkrum klukkustundum síðar sýndi hann sitt gamla andlit í Arizona þegar hann hvessti sig í ræðu um innflytjendamál til að sannfæra stuðningsmenn sína um að hann væri enn staðráðinn í að reisa gríðarstóran múr á landamærunum að Mexíkó og láta grannríkið greiða kostnaðinn.

Trump sagði í ræðunni í Arizona að ekki kæmi til greina að veita ólöglegum innflytjendum almenna sakaruppgjöf eða landvistarleyfi í Bandaríkjunum þar sem það yrði til þess að fleiri myndu freista þess að setjast þar að með ólöglegum hætti. Hann svaraði því ekki hvort hann vildi að allir ólöglegir innflytjendur, um ellefu milljónir manna, yrðu fluttir úr landi með valdi en gaf til kynna að hann vildi vísa eins mörgum og mögulegt væri til síns heima, að sögn fréttaskýranda bandaríska dagblaðsins The Washington Post .

Lætur mörgu ósvarað

Stefna Trumps í þessu máli hefur verið mjög óskýr og ruglingsleg og mörgum spurningum er enn ósvarað eftir ræðuna í Arizona. Hann gaf til kynna að allir sem dveldu án landvistarleyfis í Bandaríkjunum ættu á hættu að verða vísað úr landi en svaraði því ekki hvenær og hvernig það yrði gert. Svo virðist sem hann vilji koma sér hjá því að útfæra stefnu sína frekar og það hefur orðið til þess að sumir hægrisinnaðir álitsgjafar, sem styðja repúblikana, segjast ekki geta tekið stefnu hans í innflytjendamálum alvarlega.

Trump leggur þeim mun meiri áherslu á að sannfæra kjósendur um að hann beri hagsmuni venjulegra launþega fyrir brjósti, vilji vernda störf þeirra og uppræta glæpi. Hann sagðist ætla að leggja áherslu á að flytja glæpamenn úr röðum innflytjenda úr landi, þrefalda mannafla stofnunar sem sér um að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi og stofna sérstaka sveit sem fengi það verkefni að finna þá sem teldust hættulegastir.

Talið er að um 690.000 ólöglegir innflytjendur hafi verið dæmdir fyrir glæpi í Bandaríkjunum, samkvæmt rannsókn á vegum Migration Policy Institute, hugveitu sem sérhæfir sig í rannsóknum á búferlaflutningum fólks í heiminum. Fjöldi þeirra gæti þó verið nær tveimur milljónum að mati sumra sérfræðinga, að sögn The Washington Post .

Dáist að Mexíkóum

Í ræðunni tók Trump fram að hann vildi að innflytjendurnir fengju mannúðlega meðferð og sagði að áhersla yrði lögð á að koma í veg fyrir að fleiri ólöglegir innflytjendur kæmust til landsins frá Mexíkó.

Donald Trump áréttaði loforð sitt um að reisa múr á landamærunum að Mexíkó og knýja grannríkið til að greiða kostnaðinn „að fullu“.

Hann var þó ekki svo skorinorður um þetta þegar hann ræddi við forseta Mexíkó, Enrique Peña Nieto, nokkrum klukkustundum áður. Á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra sagði Trump að þeir hefðu ekki rætt hverjir ættu að greiða kostnaðinn af múrnum. Peña Nieto bar ekki á móti þessu á blaðamannafundinum en tísti síðar á Twitter að hann hefði sagt við gestinn um leið og þeir hófu viðræðurnar að Mexíkó myndi ekki greiða kostnaðinn.

Á blaðamannafundinum í Mexíkó forðaðist Trump að lýsa mexíkóskum innflytjendum sem glæpamönnum, eiturlyfjasölum og nauðgurum, eins og hann hefur hneigst til. Þvert á móti lét hann í ljós aðdáun sína á bandarískum Mexíkóum. „Stórbrotið, stórbrotið, vinnusamt fólk,“ sagði hann um þá. „Ég ber mikla virðingu fyrir þeim og siðferðisgildum þeirra í fjölskyldu-, trú- og samfélagsmálum.“

Bæði illa þokkuð
» Nýleg könnun bendir til þess að 56% Bandaríkjamanna hafi nú neikvæð viðhorf til Hillary Clinton, forsetaefnis demókrata, fleiri en nokkru sinni fyrr. Hún er þó með meira fylgi en Trump og 41% segist hafa jákvæð viðhorf til hennar.
» Trump er enn óvinsælli því að könnunin bendir til þess að 63% hafi neikvæð viðhorf til hans og aðeins 35% jákvæð.