Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Eftir Karen Elísabetu Halldórsdóttur: "Aðrar greinar utan ferðaþjónustu eru að dragast aftur úr í framleiðni. Þetta er áhyggjuefni."

Það kemur í ljós við nýlega úttekt Mckinsey að aðrar greinar utan ferðaþjónustu eru að dragast aftur úr í framleiðni. Þetta er áhyggjuefni vegna þeirrar séríslensku sögu okkar að setja öll eggin í sömu körfuna. Hins vegar eru tækifæri í ferðaþjónustu afar mikil og ánægjulegt að sjá hvernig frelsið og einstaklingsframtakið nýtur sín í þeirri grein. Við þurfum hins vegar alltaf að huga að því hvernig atvinnutækifæri við sjáum fyrir okkur til langs tíma öllum til hagsbóta.

Hvernig sjáum við t.d. sem foreldrar fyrir okkur atvinnumöguleika barna okkar í framtíðinni? Flest hvetjum við og viljum að krakkarnir okkar sæki sér menntun og reynslu sem verður til þess að þau verði sem atvinnufærust alls staðar í heiminum. Við hljótum að velta því fyrir okkur um leið og við hvetjum þau til að kaupa sér fasteign á Íslandi við hvað þau ætli að vinna. Helstu líkurnar í dag eru að þau velji sér nám við ferðaþjónustu, tækni, heilbrigðisþjónustu, í viðskiptum eða við iðnað. Það er mikil ábyrgð að skapa atvinnuumhverfi á Íslandi og með það í huga þarf að huga að atvinnustefnu landsins.

Víða er verið að leggja áherslur á uppbyggingu stóriðju og þá helst á landsbyggðinni. Ég hef efasemdir um að sú stefna eigi við í góðum hagvexti og litlu atvinnuleysi. Hins vegar er eftirspurn eftir störfum fyrir þá sem hafa háskóla-, tækni-, heilbrigðis- eða iðnmenntun. Líkur á því að stóriðjur verði helst mannaðar af erlendu vinnuafli sem mögulega staldrar hér stutt við eru því töluverðar. Horfa verður á skörun atvinnugreina sem færa okkur miklar tekjur og hafa hag af því að náttúran sé ósnert og um hana sé gengið af virðingu. Það er löngu tímabært að hugsa til næstu 100 ára frekar en einungis þeirra næstu tíu. Það eigum við gera með tilliti til þeirra sem koma á eftir okkur, þeirra sem erfa landið.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Kópavogi og tekur þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.