Sektir Aðeins um 5,7% innheimtust af álögðum sektum og sakarkostnaði árið 2014, að því er fram kemur í endurskoðun ríkisreiknings 2014.
Sektir Aðeins um 5,7% innheimtust af álögðum sektum og sakarkostnaði árið 2014, að því er fram kemur í endurskoðun ríkisreiknings 2014. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Árangur í innheimtu sekta er óviðunandi að mati meirihluta fjárlaganefndar. Í nefndaráliti meirihlutans frá 30.

Fréttaskýring

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Árangur í innheimtu sekta er óviðunandi að mati meirihluta fjárlaganefndar. Í nefndaráliti meirihlutans frá 30. ágúst síðastliðnum var fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2014.

Mat Ríkisendurskoðunar er að af um 4,5 milljörðum króna sem voru útistandandi í dómsektum í árslok árið 2014 muni liðlega 255 milljónir króna koma til greiðslu, eða einungis um 5,7% af álögðum sektum.

Til samanburðar er hlutfallið á Norðurlöndunum um 80-90%.

Segir í skýrslunni að mismunurinn hafi annaðhvort verið bakfærður vegna þess að einstaklingar afplánuðu sekt sína í fangelsi eða þeir tækju hana út í samfélagsþjónustu. Stærstur hluti mismunarins væri þó afskrifaður vegna fyrningarákvæða í ljósi þess að ekki væri pláss fyrir sektarþolana í fangelsum.

Sex milljarðar útistandandi

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í desember árið 2015 sagði að í 43 dómsmálum af 83 þar sem dómþoli var dæmdur til a.m.k. átta milljóna króna sektar á tímabilinu 2012-2014 yrði vararefsing fullnustuð með samfélagsþjónustu.

Heildarfjárhæð þeirra sekta næmi um 1,5 milljörðum króna, tæpum helmingi heildarfjárhæðar dómsekta.

Í máli Ólafar Nordal innanríkisráðherra þegar hún mælti fyrir frumvarpinu í nóvember á síðasta ári kom fram að útistandandi sektir á Íslandi væru tæpir sex milljarðar króna.

Málið hefur verið rætt „þó nokkuð“ í fjárlaganefnd, líkt og segir í álitinu, en áður hefur nefndin óskað eftir útlistun frá innanríkisráðuneytinu á því til hvaða úrræða yrði gripið til að bæta innheimtu sekta og sakarkostnaðar og tryggja að innheimtuárangur yrði svipaður og við innheimtu opinberra gjalda.

Starfshópur ekki orðinn til

Í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fjárlaganefndar var bent á að starfshópur myndi skila skýrslu til ráðherra ásamt lagafrumvarpi um frekari endurskoðun heimilda stjórnvalda til innheimtu sekta, í samræmi við lög um fullnustu refsinga sem samþykkt voru í vor. Í bráðabirgðaákvæði í lögunum segir að starfshópurinn skili af sér fyrir 1. október á þessu ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Innanríkisráðuneytinu hefur starfshópurinn þó ekki verið skipaður enn og stendur vinna enn yfir við að búa hann til.

Í lögunum eru innheimtuheimildir endurskoðaðar, en í þeim felast m.a. rýmri eignakönnunarheimildir innheimtuaðila. Þar er heimiluð eignakönnun í bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum, að norrænni fyrirmynd. Í greinargerð með frumvarpinu segir að heimildin sé talin mikilvæg til að lágmarka fullnustu fésekta með fangelsisvist og samfélagsþjónustu. Takmarkaðar heimildir í þessa veru hingað til hafi valdið því að innheimta hafi oftar verið talin árangurslaus og vararefsingu beitt í ríkari mæli, þ.e. að skuldara verði gerð refsing í formi samfélagsþjónustu eða fangelsisvistar.

Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að farin verði svonefnd „norsk leið“ sem felur í sér heimild til þess að skoða laun þeirra sem eiga útistandandi sektir.