Magnea Halldórsdóttir fæddist 1. júní 1935 í Reykjavík. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Vestmannaeyjum, 7. ágúst 2016.

Magnea var dóttir Halldórs Lárussonar og Hrefnu Leu Magnúsdóttur. Halldór faðir Magneu var fæddur á Breiðabólsstað á Skógarströnd, sonur sr. Lárusar Halldórssonar og Arnbjargar Einarsdóttur. Faðir Hrefnu Leu var Magnús Sigurðsson vélstjóri, sem fórst með vélbátnum Magna. Halldór Lárusson faðir Magneu var einnig vélstjóri. Hann fórst með vélbátnum Ólafi 2. nóvember 1938 ásamt eldri bróður sínum Bárði. Fyrsta barn Magneu er Halldór Björgvinsson, fæddur í Reykjavík 1955. Önnur börn Magneu eru óskírð Björgvinsdóttir, fædd 26. nóvember 1956, dáin fjórum mánuðum síðar, eða í mars 1956, Kristinn Björnsson, fæddur í Reykjavík 1958, Stefanía Fríða Tryggvadóttir, fædd á Selfossi 1965, Helga Bára Tryggvadóttir fædd í Bár, Árnessýslu 1968, og Ragnar Tryggvason, fæddur á Selfossi 1970. Magnea var gift Björgvini Kristni Kristinssyni í 13 ár. Hún var í sambúð með Birni Ingimundarsyni í Biskupstungum. Síðar var Magnea gift Tryggva Bjarnasyni sem bjó austur í Flóa en flutti síðar að Lambastöðum. Síðustu æviárum eyddi Magna á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum með unnusta sínum Hildari Jóhanni Pálssyni sem fæddur var 9. október 1946 og dáinn 8. nóvember 2015. Barnabörn Magneu eru tíu og langömmubörn sjö.

Útför Magneu fór fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 20. ágúst 2016.

Kær frænka mín og vinur er fallin frá, vil ég minnast hennar með nokkrum orðum. Mínar fyrstu minningar um Maddý frænku tengdust þeim dögum þegar ég fékk að heimsækja hana í sveitina. Þar var alltaf líf og fjör, sungið og trallað fram á nótt enda elskaði Maddý að spila á harmonikku og gítar. Hún var dugleg að fylgjast með lífi mínu og var alltaf tilbúin að gefa mér góð ráð eins og t.d. að það væru nægir fiskar í sjónum og að hinn eini sanni kæmi ríðandi á hvítum hesti og ætti heima í stórri höll.

Síðast þegar ég hitti Maddý frænku fórum við Lára systir og Hrefna frænka til Vestmannaeyja í sérstaka frænkuferð. Við skreyttum okkur og Maddý með litríkum fötum, höttum og sjölum, svo var spjallað, dansað, sungið og spilað. Þrem dögum áður en Maddý dó hringdi hún í mig og sagði að það hefði verið hvíslað að henni að hringja í mig, á sama tíma var ég að tala um hana við vini mína – já, svona var Maddý.

Ég vil að lokum þakka frænku minni fyrir öll yndislegheitin og við Guðmundur Brói og okkar fjölskylda sendum allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur og minnumst Magneu með virðingu og söknuði.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Anna Lea.