„Myndin sýnir með áhrifamiklum og hjartnæmum hætti hvernig unglingsárin springa vandræðalega út en Hjartasteinn veður inn á þéttsetið svið þroskasagna í kvikmyndum með rétt hlutfall af sjálfsöryggi, samúð og skýrri sýn.

„Myndin sýnir með áhrifamiklum og hjartnæmum hætti hvernig unglingsárin springa vandræðalega út en Hjartasteinn veður inn á þéttsetið svið þroskasagna í kvikmyndum með rétt hlutfall af sjálfsöryggi, samúð og skýrri sýn.“ Þetta segir í gagnrýni sem birtist á vefmiðlinum Screen Daily hinn 31. ágúst. „Næm og hluttekningarfull nálgun Guðmundar gagnvart ungum aðalpersónum sínum, ómenguðum samskiptum þeirra og flóknum viðfangsefnum sem þær þurfa að komast í gegnum – ætti að efla horfur myndarinnar á alþjóðavettvangi að lokinni heimsfrumsýningu,“ segir einnig í gagnrýninni.

„Við fengum rosa flotta umfjöllun í Screen Daily – hún var alveg mögnuð,“ segir Guðmundur Arnar, leikstjórinn, en myndin hlaut einnig gagnrýni í fjölmiðlinum Hollywood Reporter sem ekki reyndist alveg jafn jákvæð.

„Við bjuggumst alveg við því, þeir eru aðeins meira fyrir myndir sem tengjast Hollywood betur,“ bætir hann við.

Aðalleikurum myndarinnar, Baldri Einarssyni og Blæ Hinrikssyni, er einnig hrósað sérstaklega fyrir frammistöðu sína í gagnrýni Screen Daily . „Þeir koma báðir með ómengaðan natúralisma inn í margslunginn efnisþráðinn.“