Þórunn Pálsdóttir fæddist 29. ágúst 1924. Hún lést 10. ágúst 2016.

Útför Þórunnar fór fram 30. ágúst 2016.

Það var góðvirðisdagur 10. ágúst 2016 þegar lífi tengdamömmu minnar lauk hljóðlega í hádeginu á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund eftir 91 ár og 346 daga. Sonur minn og ég vorum í þúsunda kílómetra fjarlægð í Kína. Það munum við harma til æviloka.

Ég hafði birst þér í draumi áður en við hittumst. Kona frá Asíu með sítt svart hár, í rauðum bol og svörtu pilsi gekk inn í hús sonar þíns. Einhver sagði við þig í drauminum að þetta væri konan sem í framtíðinni yrði frúin í húsinu. Eftir að ég hafði hitt ykkur í Hveragerði sagðir þú manni þínum frá þessu og bættir við að í kvöld hefði þessi sama kona komið í húsið.

Ég giftist svo syni þínum og samfylgd okkar var staðreynd. Í brúðkaupinu bakaðir þú 300 lítil brauð og faðir minn útbjó 300 egg að kínverskum hætti. Ég kallaði ykkur alltaf mömmu og pabba samkvæmt kínverskri venju.

Unaðsdagar í lífi mínu fóru í hönd. Við vorum öll saman í Hveragerði. Pabbi sló blettinn og þú rakaðir og settir grasið í svartan poka. Á kvöldin borðuðum við kartöflur og grænmeti sem við höfðum ræktað í garðinum okkar. Að kvöldi dags fengum við okkur margvíslega drykki og nutum lífsins.

Þú sagðir eftir að við giftum okkur að nú gætir þú kvatt þennan heim. Undrun þín var mikil þegar ég sagði þér að ég væri ólétt. Þú spurðir mig hvað ég vildi borða. Ég svaraði að ég vildi núðlusúpu. Þú gekkst rösklega til verks og eldaðir núðlusúpu handa mér.

Gjöf mín til þín á áttræðisafmæli þínu var fæðing sonar míns. Þegar við komum með hann í fyrsta skipti heim frá Moskvu beið pabbi okkar á götuhorninu en þú stóðst við tröppurnar og bauðst okkur velkomin. Þegar ég rétti þér sonarson þinn brostir þú út að eyrum. Tár féllu þegar við svo síðar kvöddum.

Þú varst full af orku. Þegar þú varst 82 ára og 85 ára komu þið pabbi með okkur til Danmerkur. Þú fórst vel með þig og þér var ekki sama hvað þú borðaðir. Þú varst snillingur að búa til mat. Stundum varstu meinfyndin. Eitt sinn leið yfir þig og sjúkrabíll var sóttur. Allir í kringum þig voru óttaslegnir. Þegar þú varst lögð á sjúkrabörurnar hafðir þú orð á því að það væri mjög rómantísk að liggja í þeim. Alvarleg andlit sjúkraflutningamanna urðu eitt bros.

Þú lést ekki hugfallast þótt þú misstir heyrnina og vinir þínir hyrfu. Frammi fyrir fámennum hópi ættingja sagðir þú einfaldlega allt í lagi. Hélst áfram að sitja í sæti þínu við eldhúsborðið, drakkst þitt kaffi og last blöð. Þannig eyddir þú deginum.

Ástæða þess að ég fór að læra íslensku var að ég vildi að þú gætir lesið það sem ég skrifaði. Þetta reyndist mér þó erfiðara en ég hélt því íslenskan er ekki auðvelt tungumál. Þér gekk illa að skilja mig til fulls svo við urðum að treysta á pabba. Þegar hann féll frá á síðasta ári misstir þú mikið.

Nú horfi ég á mynd þína og minnist allra okkar stunda, matarins þíns og að heyra þig raula lagstúf og hugsa til þess að þú hafir aftur hitt pabba hinum megin. Fyrir rúmu ári vorum við fimm en nú erum við þrjú sem drúpum höfði og reynum að lifa lífinu í þínum jákvæða anda Ég sakna þín mín góða móðir.

Þín tengdadóttir,

Feng.

Ég kveð kæra vinkonu með þakklæti í huga. Við fjölskyldan vorum svo lánsöm að kynnast þeim hjónum Þórunni og Hannesi þegar við fluttum í Goðheima 20. Með okkur myndaðist ómetanleg vinátta. Þórunn og Hannes tóku okkur opnum örmum. Þau tóku okkur fagnandi og fundum við fyrir miklum kærleika gangvart okkur. Kærleikurinn var gagnkvæmur. Þau kenndu okkur margt og áttum við margar yndislegar stundir með þeim bæði í Goðheimum og einnig í Hveragerði.

Fyrstu árin okkar í Goðheimum voru einstök. Þá voru Hannes og Þórunn bæði við góða heilsu. Þau voru mikið úti við og var gaman að fylgjast með Þórunni arka um hverfið röggsama með stafinn sinn.

Við nutum þess að hafa fallegt í garðinum okkar og fórum við iðulega saman að kaupa sumarblómin þar til heilsan þeirra leyfði það ekki. Morgunfrúin og stjúpurnar munu alltaf vera í garðinum okkar þeim til sóma. Mikið sem ég á eftir að sakna nærveru og vináttu þeirra yndislegu hjóna. Ég kveð Þórunni vinkonu mína með hennar eigin orðum: „ mér líkar vel við þig“. Ég sendi mínar innilegust samúðarkveðjur til Magnúsar og fjölskyldu.

Sigurbjörg Hallgrímsdóttir

og fjölskylda.

Fyrstu minningar mínar um Þórunni frænku mína eru frá því ég var barn og í heimsókn hjá henni í Goðheimunum. Það var ávallt svo indælt að heimsækja hana og man ég vel þegar ég var lítil að hún lánaði mér stálskálar sem voru í alla vega litum og með þessar skálar lék ég mér og hafði mikið dálæti á.

Fyrir nokkrum árum komu Þórunn og Hannes maðurinn hennar í heimsókn til mín og vildi svo skemmtilega til að hún færði mér þessar skálar að gjöf ásamt öðrum munum og tók af mér orð um að ég myndi skrifa um hana minningargrein þegar hún félli frá. Það er mér bæði ljúft og skylt að skrifa nokkur minningarorð um Þórunni frænku mína.

Þórunn var með eindæmum geðgóð og jákvæð kona. Hún vann lengi sem kennari í Vogaskóla og átti farsælan feril þar og var vinsæl á meðal nemenda. Ég var svo lánsöm að vera nemandi hjá Þórunni í heimilisfræði og man vel hve ég var stolt yfir því að þessi frábæri kennari væri frænka mín. Í tímum hjá Þórunni mátti gjarnan slumpa aðeins með skammtastærðir og hún gat slegið á létta strengi. Frænku var mjög umhugað um að lifa heilbrigðu lífi. Hún lagði mikið upp úr því að borða hollan mat og sást ósjaldan með alpahúfuna sína arkandi um Vogahverfið í heilsubótagöngu. Þórunn var dugnaðarforkur og oftar en ekki var frænka mín boðin og búin að hjálpa til við veislur sem móðir mín hélt og taldi það ekki eftir sér að vippa fram brauðbollum, skinkuhornum, kransatertum og öðru góðgæti.

Þegar árin færðust yfir missti Þórunn heyrn og það var henni örugglega erfitt þó svo að ég heyrði hana aldrei kvarta yfir því. Hún hafði einlægan áhuga á því að fylgjast með fólkinu í kringum sig og virtist hafa ótrúlega yfirsýn yfir afkomendur systkina sinna þó svo hún hafi verið ein af tólf systkina hópi og afkomendurnir orðnir ansi margir.

Ég kveð mína kæru frænku og mun ávallt minnast hennar með miklum hlýhug. Ég sendi Magnúsi, syni hennar, Feng og Hannesi Hermanni innilegar samúðarkveðjur.

Valdís Anna Garðarsdóttir.

Við Þórunn vorum systkinadætur. Faðir minn, Björn, og Sesselja, móðir hennar, voru systkini. Leiðir okkar Þórunnar hafa lengi legið saman. Ég naut þeirrar gæfu að vera mörg sumur í sveit á æskuheimili hennar Sauðanesi á Ásum.

Þar kynntist ég líka vel hennar stóru fjölskyldu. Eftir lát Sesselju tók Þórunn að sér heimilishaldið, aðeins 17 ára. Ég snerist í kringum hana og gat líklega eitthvað létt undir þótt ég væri aðeins 11 ára. Eitt sinn langaði Þórunni á ball sem haldið var í Engihlíð í Langadal. Enginn var heima svo hún vildi endilega að ég færi með. Við fórum ríðandi því enginn bíll var þá á bænum. Engar sögur fara af ballinu. Á leiðinni heim byrjaði að húðrigna. Ég man enn hve gott var að fara í þurr föt og hlýja sér í gömlu rúmunum í suðurbaðstofunni í gamla bænum.

Ég fetaði í fótspor Þórunnar, lauk námi frá Hússtjórnarkennaraskóla Íslands. Nokkrum árum síðar urðum við frænkur samstarfskonur við Vogaskóla þar sem við unnum saman í áraraðir. Þegar við byrjuðum var skólinn í byggingu og eldhúsið ekki tilbúið. Fór því heimilisfræðikennslan fram í eldhúsi safnaðarheimilis Langholtskirkju við mjög frumstæðar aðstæður. Það varð því mikil gleði að flytjast í glæsilegt húsnæði og vel búið eldhús Vogaskóla.

Þessa vísu fengum við senda frá ókunnugum höfundi skömmu eftir flutninginn.

Fimm milljónir finnst mér lítið gjald

fyrir þetta glæsilega pláss

og gott er það er góðra manna vald

gerir oss kleift að eignast þvílíkt stáss.

Á áttunda áratugnum varð mikil breyting á nýtingu skólaeldhússins þegar Menntaskólinn við Tjörnina, síðar Menntaskólinn við Sund, flutti í húsnæði Vogaskóla. Menntaskólinn bauð upp á val í „matarfræði“ í þriðja og fjórða bekk. Mikil aðsókn var að þessu vali í fjölda ára. Eldhúsið var nú nýtt fyrir báða skólana. Þessar vísur bárust okkur Þórunni frá einum piltanna í menntaskólanum:

Vildi læra að malla mat.

Í matarfræði um haustið fór.

Tvær þá hófu eilíft at

önnur stutt en hin var stór.

Þótt mér finnist Þórunn klók

og þrautseigjunni Erla vopnist

þær hamra urðu heilli bók

í hausinn á mér til að opnist.

Vitur út um vorið sveif

vissi mun á beini og roði

hafði lært að sveifla sleif

og sjóða fisk í eigin soði.

Ekki er hægt að hugsa sér betri samstarfsfélaga en Þórunni. Hún var svo skemmtileg, alltaf létt í lund, tillögu- og ráðagóð. Hún var vinsæll kennari og agamál fátíð. Ef það kom fyrir að hávaði raskaði ró hennar tók hún það ráð að slökkva bara á heyrnartækjunum.

Að leiðarlokum þakka ég Þórunni allar skemmtilegu samverustundirnar og óska henni blessunar. Ég votta fjölskyldu hennar innilega samúð.

Erla Björnsdóttir.