[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, segir að með félagaskiptum sínum í Stjörnuna séu yfirgnæfandi líkur á að ferli hans með erlendum félagsliðum sé lokið.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, segir að með félagaskiptum sínum í Stjörnuna séu yfirgnæfandi líkur á að ferli hans með erlendum félagsliðum sé lokið. Hlynur fór utan til Svíþjóðar árið 2010 en hafði þó fyrr á ferlinum verið einn veturinn í Hollandi en líkaði illa. Í Svíþjóð skapaði Hlynur sér nafn sem einn öflugasti leikmaður deildarinnar og varð til að mynda meistari með Sundsvall Dragons.

„Ég held að nýliðið tímabil hljóti að hafa verið síðasta tímabil mitt erlendis. Annað kæmi mér mjög á óvart. Ég hefði viljað fara fyrr út en fór aðeins of seint. En er að öðru leyti sáttur við ferilinn í Svíþjóð. Við höfðum það gott í Svíþjóð. Þar er flott að búa og það verður söknuður að því. Þetta verður stór breyting en ég held að þetta sé orðið gott á þessum vettvangi,“ sagði Hlynur í samtali við Morgunblaðið, en hann er fæddur árið 1982 og lék áður hér heima með Skallagrími og Snæfelli.

Tvívegis tók Hlynur flest fráköst í sænsku deildinni og frammistaða hans með landsliðinu hefur oft verið mjög góð. Framganga hans á EM í Berlín vakti talsverða athygli erlendra fjölmiðlamanna sem þar voru. Hlynur stóð sig þar ótrúlega vel gegn miðherjum sem eru mun hærri en hann í loftinu og nánast undantekningarlaust voru það leikmenn úr NBA-deildinni eða liða sem leika í Meistaradeild Evrópu. Blaðamaður hefur oft heyrt íþróttaáhugamenn hérlendis velta því fyrir hvers vegna sú frammistaða skilaði ekki Hlyni í einhverja af sterkustu deildunum í Evrópu.

„Lokakeppni EM hefði getað verið gluggi fyrir mig en ég var ekki með umboðsmann og var samningsbundinn Sundsvall á þeim tíma. Réttu umboðsmennirnir og réttu samböndin skipta gríðarlegu máli í evrópskum körfubolta upp á það að fá tækifæri og komast inn fyrir þröskuldinn í sterkustu deildunum. Ég hef oft spilað betur í landsleikjum en margir leikmenn úr spænsku eða ítölsku deildinni. En þessu er einnig öfugt farið því leikmenn sem eru að spila í verri deildum en ég hafa einnig spilað betur en ég í landsleikjum. Þessi heimur snýst mikið um samböndin og umboðsmennina,“ útskýrði Hlynur og sagði þá staðreynd einnig skipta máli að Ísland væri lítil stærð í körfuboltaheiminum, alla vega áður en landsliðið komst inn á stórmót.

Hefðin hefur sitt að segja

„Við höfum stundum talað um það í landsliðinu. Ef félagslið skoðar íslenskan leikmann og serbneskan leikmann sem eru nákvæmlega jafn góðir yrði Serbinn alltaf líklegri til að fá vinnuna sem í boði er. Hefðin skiptir máli og við höfum eiginlega ekkert náð að sýna okkur fyrr en á Eurobasket. Þátttaka okkar þar hefur hins vegar hjálpað. Nú eru strákar að fara út og meira verður um það á næstu árum ef okkur tekst að halda landsliðinu í þessum gæðaflokki,“ sagði Hlynur Bæringsson enn fremur við Morgunblaðið.

• Spjall við Hlyn um þá ákvörðun að velja Stjörnuna er að finna á mbl.is/sport/korfubolti frá því í gærmorgun.