Einu sinni sá ég mynd á netinu þar sem dapur maður gengur inn í fataskáp og velur sér karakter til að klæða sig í þann daginn. Þannig leið mér á tímabili.

Í dag líður mér betur. Í dag þarf ég að taka lyf. Concerta heitir það. Eins mikið og ég hafði fordóma gegn lyfjum fyrir stuttu þá er ég allt í einu greindur með fjóra bókstafi, ADHD heita þeir, og bullandi ofvirkni og hvatvísi í ofanálag. Það kom mörgum ekki neitt á óvart þegar ég sagði þeim að ég væri byrjaður að taka lyf við þessu öllu saman. Samt hafði enginn komið til mín og sagt; Benedikt. Ég held að þú sért ofvirkur og trúlega með ADHD. Ég hefði óskað þess. Þá hefði ég tekið á þessu fyrr. Ég er svolítið pirraður á sjálfum mér að hafa ekkert gert fyrr en ofboðslega feginn að hafa gert það.

Andleg veikindi eru nefnilega svolítið merkilegur fjandi. Andleg líðan sést ekki þannig að fólk veit ekki að öðrum líður illa. Ef einhver er fótbrotinn þá er hann spurður hvort allt sé í lagi og hvort það sé ekki eitthvað sem hægt sé að gera til að létta honum lífið. En þeim sem líður illa eiga helst að hætta þessu væli og drulla sér að klára það sem þeir byrjuðu á. Vinna bara meira og leggja harðar að sér. Það sé ekkert að. En stundum er bara alveg hellingur að.

Einu sinni sá ég mynd á netinu þar sem dapur maður gengur inn í fataskáp og velur sér karakter til að klæða sig í þann daginn. Þannig leið mér á tímabili. Og það bitnaði á þeim sem standa mér næst. Helvítis helvíti.

En í dag líður mér betur og það er lyfjunum að þakka. Ég varð nefnilega lyfjalaus eina helgi og munurinn á andlegri líðan minni var ótrúlegur. Og þá meina ég ótrúlegur. Og af því að ég er skyndilega orðinn svo meðvitaður um andlega líðan skammaðist ég mín ekkert fyrir að segja öðrum frá að mér liði bara helvíti illa. Og viti menn. Það var engin skömm að því. Ég er ekki að segja að það sé allt í himnalagi. Það er fullt að og það er fullt sem ég er að læra inn á. En ég er alla vega ekki lengur með neina fordóma gagnvart þeim sem þurfa að taka lyf við alls konar kvillum og ég er hættur að segja „Hristu þetta slen bara af þér auminginn þinn.“ Ég er núna kominn í hitt liðið. Genginn í þeirra raðir.

Það er nefnilega allt í lagi að skipta um skoðun. Sérstaklega ef maður hefur haft svona ofboðslega rangt fyrir sér svona ofboðslega lengi.

Benedikt Bóas benedikt@mbl.is