[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Fyrsta starfsfólkið í Purpose-tónleikaferðalagi Justins Bieber kemur til landsins í dag.

Baksvið

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Fyrsta starfsfólkið í Purpose-tónleikaferðalagi Justins Bieber kemur til landsins í dag. Um 100 manna starfsmannahópur fylgir Bieber á tónleikaferðalaginu og kemur hann hingað í minni hópum fram að tónleikunum sem fara fram í Kórnum í Kópavogi 8.og 9. september næstkomandi. Fyrstir til að koma eru tæknimenn og aðrir sem vinna í tæknilega hlutanum en þegar nær dregur tónleikum tínast til landsins dansarar, hljómsveit og annað fylgdarlið, að ógleymdum Justin Bieber sjálfum.

Vinna vegna tónleikana fór á fullt í Kórnum á þriðjudaginn. Að sögn Ísleifs Þórhallsonar tónleikahaldara hjá Senu vinnur íslenska starfsfólkið nú alla daga við að bera inn græjur, smíða svið og annað sem þarf að græja.

Kópavogsbær hóf vinnuna í húsinu aðeins fyrr en hann stóð fyrir því í samvinnu við tónleikahaldara að smíða gönguramp í salnum til að hægt sé að koma þeim sem eru baksviðs yfir á sviðið. „Baksviðið er eins langt í burtu frá sviðinu og hægt er. Ef þessi göngubrú hefði ekki verið smíðuð hefði þurft að senda söngvarann og allt liðið út eða í gegnum þvöguna. Á Timberlake tónleikunum leystum við þetta með tímabundinni göngubrú en það er rándýrt að smíða slíkt í hvert skipti þannig að við leystum þetta mál með bænum og smíðuðum varanlega brú. Þá er eitt mál leyst til frambúðar og Kórinn er enn betri núna fyrir tónleikahald,“ segir Ísleifur.

Í viðræðum við næstu stjörnu

Ertu þá farinn að skipuleggja næstu tónleika? „Við erum í viðræðum en við kíkjum á það þegar þetta er yfirstaðið,“ svarar Ísleifur kankvís enda líklega nóg að hugsa um Bieber sem stendur.

Er það álíka stórt nafn og Justin Bieber? „Já álíka stórt og jafnvel stærra þó að það sé varla hægt að segja það. Það má alveg segja að flóðgáttirnar séu opnar því núna vita allir að það er hægt að koma með hvern sem er til Íslands, það treysta allir bransanum á Íslandi og vita að við ráðum við hvað sem er. Miðasalan á þessa tónleika sýnir líka að það er hægt að gera miklu meira en menn gerðu sér grein fyrir. Það gat eiginlega enginn látið detta sér í hug að það væri hægt að selja svona marga tónleikamiða í þessu landi. En nú liggur það fyrir að þetta er hægt þannig að það er verið að tala við fólk út í heimi um ýmislegt, en ekkert komið á alvarlegt stig. Það er líka fólk út í heimi, umboðsmenn og ýmsir, að koma til landsins til þess að horfa á Bieber. Þannig að viðræðurnar halda áfram eftir tónleikana.“

Eðlilegur óskalisti

Uppselt er á tónleikana 9. september en enn er hægt að fá miða í stæði á tónleikana 8. september. Ísleifur er bjartsýnn á að það seljist upp á þá að mestu enda fari stemmningin fyrir tónleikunum vaxandi dag frá degi.

Er Bieber með langan óskalista yfir það sem hann vill hafa hjá sér baksviðs? „Óskalistinn er sæmilega stór en ekkert óeðlilegur. Mínir starfsmenn leggja mikinn metnað í að gera allt sem þeir eru beðnir um og láta þessu fólki líða ótrúlega vel, þannig að þetta gangi allt vel og verði frábærir tónleikar,“ segir Ísleifur og ekki er hægt að fá hann til að kjafta frá því hvenær poppstjarnan kemur til landsins.