Skilgreining „Eitt aðalatriðið í sýningunni er skilgreiningin á þeim hlutum sem þarna eru, það er í raun verið að fjalla mikið um málverk. Verkin eru öll til staðar, bæði sem vefnaður og málverk,“ segir Hildur Bjarnadóttir.
Skilgreining „Eitt aðalatriðið í sýningunni er skilgreiningin á þeim hlutum sem þarna eru, það er í raun verið að fjalla mikið um málverk. Verkin eru öll til staðar, bæði sem vefnaður og málverk,“ segir Hildur Bjarnadóttir. — Morgunblaðið/Þórður
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Verkin á sýningunni eru í raun niðurstaða rannsóknarverkefnis sem ég hef unnið að í Noregi síðustu þrjú árin.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Verkin á sýningunni eru í raun niðurstaða rannsóknarverkefnis sem ég hef unnið að í Noregi síðustu þrjú árin. Verkefnið snýst um tengsl lita við ákveðinn stað,“ segir myndlistarkonan Hildur Bjarnadóttir en hún opnar sýninguna Vistkerfi lita á Kjarvalsstöðum á morgun, laugardag, kl. 16. Sýningin á Kjarvalsstöðum er framhald af doktorsverkefni Hildar sem hún mun verja í haust við Listaháskólann í Björgvin á vegum Miðstöðvar listrannsókna í Noregi.

Skerpir einkenni beggja kerfa

„Þarna verða tvenns lags verk. Fyrst ber að nefna jurtalitað silki sem myndar innsetningu í rými Listasafnsins ásamt ofnum verkum sem unnin eru úr tvenns lags þræði, jurtalitaðri ull og hörþræði sem litaður er með akrílmálningu. Ég lít á ofnu verkin sem málverk. Allur liturinn í sýningunni er tengdur landspildu í Flóahreppi á Suðurlandi sem ég eignaðist nýlega og hef núna fest þar rætur. Litinn vann ég úr jurtum þaðan en ég sé plönturnar sem upptökutæki á umhverfi sitt. Þær taka inn upplýsingar úr jarðveginum og andrúmsloftinu og eru næmar á öll umhverfisáhrif. Ég hef tínt plönturnar, soðið þær og unnið úr þeim litinn sem ég nota síðan í verkunum á sýningunni en allar upplýsingarnar koma fram í litnum. Það skiptir ekki öllu máli hvernig liturinn lítur út, mér þykir það mikilvægara að í honum megi finna upplýsingar um staðinn,“ segir Hildur sem hefur unnið með jurtaliti á einn eða annan hátt í um áratug. Í tilkynningu segir að fyrir henni sé landspildan vettvangur til að velta fyrir sér viðfangsefnum í tengslum við það að eiga sér rætur á tilteknum stað og enn fremur þeirri vistfræðilegu röskun sem umgengni mannsins við náttúruna getur valdið. Í gegnum landið staðsetur hún sig í tíma og rúmi, persónulega, pólitískt og listrænt.

„Það er varla hægt að ná fram rauðum eða bláum úr plöntunum á þessu svæði. Það er þó hægt að ná rauðleitum litum, dökkgráleitum, brúnleitum og grænleitum en þetta er ansi drapplituð palletta. Ég bið þó áhorfandann að horfa í gegnum litinn á sýningunni og hugsa um hvaðan hann er og tengsl hans við þennan ákveðna stað. Á sama tíma getur áhorfandinn velt fyrir sér tengslum sínum við sína staði og áhrifum hans á þá. Ég nota síðan akríllitina til þess að skapa kontrast við náttúrulitina en það eru tvö mjög ólík litakerfi, eitt manngert og hitt náttúrulegt. Með því að stilla þeim saman er hægt að skerpa einkenni beggja kerfa og skapa áhugavert samtal á milli þeirra,“ segir Hildur en hún kveðst einnig vinna mikið með hliðsjón af arkitektúr rýmisins.

Hildur lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið 1997 með MFA-próf frá nýlistadeild Pratt Institute í Brooklyn, New York. Síðan haustið 2013 hefur hún stundað doktorsnám í myndlist við Listaháskólann í Björgvin. Hildur hefur haldið fjölda einkasýninga víða um heim, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum.

Vinnur mikið með kerfi

Hildur kveður umhverfissjónarmið ekki vera í forgrunni sýningarinnar þrátt fyrir að áhugavert sé að ígrunda það í tengslum við sýninguna og vinnuna á bak við hana.

„Eitt aðalatriðið í sýningunni er skilgreiningin á þeim hlutum sem þarna eru, það er í raun verið að fjalla mikið um málverk. Verkin eru öll til staðar, bæði sem vefnaður og málverk. Silkið sem hangir í rýminu er orðið að þrívíðum hlut og það er hægt að ganga í kringum það og upplifa litinn frá mismunandi sjónarhornum. Ég vinn mikið með ákveðin kerfi, silkið og vefnaðurinn eru ólík kerfi, þau eru mínar aðferðir við að skoða og skilja það umhverfi sem ég bý í,“ segir Hildur og tekur fram að það verði örugglega skemmtileg stemmning á morgun, enda sé um fyrstu opnun haustsins á Kjarvalsstöðum að ræða. Hildur og Ólöf Kristín Sigurðardóttir, sýningarstjóri sýningarinnar, verða með spjall á sunnudaginn kemur kl. 13 þar sem farið verður yfir sýninguna. Vistkerfi lita kemur til með að standa til 8. janúar á næsta ári.