Kappar Þessir piltar fóru létt með að fanga auga ljósmyndara er þeir léku sér með bolta í sólinni á Austurvelli.
Kappar Þessir piltar fóru létt með að fanga auga ljósmyndara er þeir léku sér með bolta í sólinni á Austurvelli. — Morgunblaðið/Ómar
Kristján H. Johannessen Sigtryggur Sigtryggsson Sumarið hefur verið landsmönnum hagfellt. „Bráðabirgðatölur sýna að stuttsumarið var hlýtt á landinu – landsmeðalhiti í byggð reiknast 10,4 stig,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Kristján H. Johannessen

Sigtryggur Sigtryggsson

Sumarið hefur verið landsmönnum hagfellt. „Bráðabirgðatölur sýna að stuttsumarið var hlýtt á landinu – landsmeðalhiti í byggð reiknast 10,4 stig,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Hér vísar Trausti til þess að á mælikvarða Veðurstofu Íslands reiknast sumarið mánuðirnir fjórir júní til og með september og því telst einn mánuður vera eftir af sumrinu.

„Þetta gefur stuttsumrinu 2016 níunda til tíunda sæti á hlýsumarlista sem nær aftur til ársins 1874,“ segir Trausti. Sumarið 1933 er efst á listanum með 11,0 stig. Af nýlegum hlýrri sumrum nefnir Trausti árin 2014, 2010, 2004 og 2003.

Júní, júlí og ágúst voru nokkuð jafnhlýir að þessu sinni, meðalhiti í júní var 10,2 stig (1,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára), meðalhiti í júlí 10,5 stig (0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára) og í ágúst var meðalhitinn 10,4 stig (0,2 stigum ofan við meðallag síðustu tíu ára). „Fyrstu átta mánuðir ársins eru í meðallagi síðustu tíu ára,“ segir Trausti.

Tíðin var hlý og þurr

Veðurstofan hefur nú tekið saman tíðarfar í ágúst. Þar kemur m.a. fram að meðalhiti í Reykjavík mældist 11,8 stig, en það er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

„Þetta er áttundi hlýjasti ágústmánuður frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Á Akureyri var meðalhitinn 10,9 stig, 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, og 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,1 stig,“ segir í samantekt Veðurstofunnar.

Úrkoma í ágúst var víðast hvar undir meðallagi áranna 1971 til 2000, en hún var mest að magni til um landið suðaustanvert.

„Úrkoman í Reykjavík mældist 33,4 mm og er það rétt rúmur helmingur meðallags ágústmánaða áranna 1961 til 1990. Þetta er minnsta úrkoma í Reykjavík í ágúst síðan 2011. Á Akureyri mældist úrkoman í ágúst 47,4 mm, um 40 prósent umfram meðalúrkomu,“ segir í áðurnefndri samantekt. Þá mældust sólskinsstundir í Reykjavík 192,5 eða 38 fleiri en í meðalágúst áranna 1961 til 1990 og 13 fleiri en í meðalágúst síðustu tíu ára.