Alveg eru almennar umræður í þessu landi stórbrotnar.

Alveg eru almennar umræður í þessu landi stórbrotnar. Nú fer þjóðin af hjörunum vegna þess að þrjú eignarhaldsfélög eftir gömlu bankana hafa ákveðið að greiða svonefndum lykilstarfsmönnum sínum kaupauka ef þeir standi sig við að koma eignum félaganna í verð hratt og örugglega. Í hópi þessara starfsmanna munu bæði vera íslenskir menn og erlendir. Háar fjárhæðir eru nefndar og bæði fjölmiðlar og ráðamenn lýsa hneykslan sinni.

Hvað er hér á seyði? Þessi þrjú félög eru að langmestu leyti í eigu erlendra aðila, þeirra sömu og áttu kröfur í slitabú bankanna þriggja og þjóðin kallaði þá „hrægamma“. Nú hafa þeir ákveðið að verja sínu eigin fé (þ.e. fé félaganna þriggja) til þess að hvetja starfsmennina til að standa sig við störf í þeirra þágu. Þetta er auðvitað bara hagstætt fyrir íslensku þjóðina því að þeir íslensku starfsmenn sem njóta greiðslna samkvæmt þessum ákvörðunum munu greiða af þeim skatta hérlendis. Þær tekjur hefðu ekki skilað sér í ríkissjóð ef hrægammarnir hefðu flutt féð úr landi í fyllingu tímans.

En landinn er samur við sig. Af einhverjum ástæðum virðist meirihluti manna vilja frekar að hrægammarnir flytji þetta fé úr landi en að íslenskir menn fái lítinn hluta þess greiddan í þóknun fyrir vel unnin störf í þágu gammanna. Af hverju ætli það sé?

Höfundur er lögfræðingur.