Svanur Guðmundsson
Svanur Guðmundsson
Eftir Svan Guðmundsson: "Hefur ríkissjóður lagt félaginu til, á árunum 2002 til 2011, 4,2 milljarða kr. í formi hlutafjár, skammtímalána og áhættugjalda."

Undanfarið hefur mátt lesa fjölda frétta um tækifæri í gagnaverum og hefur Landsvirkjun tekið undir það. Til Íslands liggja nú tveir öflugir ljósleiðarastrengir en nýting þeirra er undir 5%. Fljótt á litið ættu því að vera gríðarleg tækifæri fyrir gagnaver hér á landi en vert er að rifja upp söguna sem er ekkert sérstaklega falleg.

Farice-fyrirtækið var stofnað 2002 af fjarskiptafyrirtækjum hér á landi og í Færeyjum og átti íslenska ríkið lítinn hlut í upphafi. Fyrirtækinu var ætlað að halda utan um heildsölu á ljósleiðaratengingum við útlönd og var FARICE 1-ljósleiðarinn lagður í því skyni árið 2003.

Fjarskiptaöryggi Íslands við útlönd þótti þó ábótavant því að einungis gamli CANTAT-strengurinn og örbylgjusamband gat tekið við af FARICE-1-strengnum ef hann bilaði. Auk þess þótti þjónusta við möguleg gagnaver á Íslandi spennandi kostur.

Árið 2007 var því hugað að lagningu annars ljósleiðara til Íslands. Fyrirtækið Hibernia bauðst til að taka verkefnið að sér. Á teikniborðinu var strengur, sem fyrirtækið fjármagnaði sjálft, og átti að tengja saman Ameríku, Evrópu og Ísland. Stjórn Farice ákvað að vel athuguðu máli að ganga til samninga við Hibernia um not á þeirra streng.

Ákvörðun stjórnvalda ráðgáta

En viti menn. Samgönguráðuneytið sleit fyrirvaralaust viðræðum við Hibernia og valdi þess í stað svonefndan DANICE-streng. Sú ákvörðun er vægast sagt umdeilanleg því að þjónusta Hibernia hefði verið Íslendingum 25% ódýrari, auk þess sem með þeirri leið hefðu útlendingar tekið alla áhættu af verkefninu og fjármagnað það.

DANICE þurfti hins vegar að fjármagna með fé íslenska ríkisins og fyrirtækja í almannaeigu. Þessum sinnaskiptum stjórnvalda olli þrýstingur frá eigendum Verne Global, þeim Vilhjálmi Þorsteinssyni, fv. gjaldkera Samfylkingarinnar, og Björgólfi Thor Björgólfssyni fjárfesti. Þeir voru reyndar beggja vegna borðs, annars vegar sem hagsmunaaðilar varðandi fyrirhugaða uppbyggingu gagnavers Verne á Suðurnesjum og hins vegar sem ráðgjafar ríkisins í þessu máli. Aldrei komu fram nein haldbær rök fyrir vali stjórnvalda á DANICE-strengnum dýra.

Eigendur Farice ehf. áttu hins vegar mikið undir að þóknast ríkisstjórninni, því að fyrir lá þjónustusamningur við Fjarskiptasjóð sem tryggði fyrirtækinu tekjur og þess utan átti ríkið hlut í Farice ehf.

Ábyrgðarlaus fjáraustur

Í ágúst 2008 var lagt af stað með lagningu Danice en þar sem íslensku bankarnir hrundu tveimur mánuðum síðar var ákveðið að fresta lagningu strengsins til ársins 2009. Slæm staða Farice ehf. eftir hrunið kallaði á fjárhagslega endurskipulagningu félagsins og breytingu á eignarhaldi. Landsvirkjun kom inn með 29,5% eignarhlut og ríkissjóður með um 30%.

Til að gera langa sögu stutta hefur ríkissjóður lagt félaginu til, á árunum 2002 til 2011, 4,2 milljarða kr. í formi hlutafjár, skammtímalána og áhættugjalda. Jafnframt var félaginu lögð til ríkisábyrgð upp á rúmlega sjö milljarða króna. Sú ábyrgð var veitt þrátt fyrir að heimildir lægju ekki fyrir og að ábyrgðin bryti í bága við lög um ríkisábyrgðir eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á og sagði; „að greiðslan hefði farið fram án þess að formleg heimild lægi fyrir“.

Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Farice ehf. lagði ríkissjóður fram 2.247 milljónir í hlutafé og var gert ráð fyrir að fyrirtækið yrði sjálfbært á næstu þremur árum, en því miður varð það ekki raunin. Farice ehf. hefur aldrei verið rekið með hagnaði.

Tap á orkusölu til gagnavera

Í landinu eru nú rekin sex gagnaver og kaupa þau um 264 GWh af raforku. Ef reiknað er út frá meðalverði Landsvirkjunar á rafmagni, samkvæmt ársreikningi 2015, er heildarsalan til þeirra rúmar 800 milljónir á ári. Tap Farice ehf. var 851 milljón árið 2015.

Þegar allt þetta er skoðað verður að segjast að áhugi Landsvirkjunar á gagnaverum og raforkusölu til þeirra kemur undarlega fyrir sjónir. Í raun hefur íslenska ríkið, eigandi Landsvirkjunar, aldrei haft neinn hag af því að selja gagnaverum rafmagn. Þvert á móti, og er jafnvel ástæða til að efast um að upplýsingar frá Landsvirkjun séu með öllu réttar. Annars er það rannsóknarefni hvernig ákvörðun um DANICE var tekin og sérstakt rannsóknarefni ákvarðanir síðustu ríkisstjórnar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins.

Höfundur er framkvæmdastjóri.