Ný undankeppni er handan við hornið hjá karlalandsliðinu í fótbolta. Liðinu sem endanlega vann hug og hjörtu landsmanna í sumar en hafði náð ansi mörgum á sitt band árin á undan.
Ný undankeppni er handan við hornið hjá karlalandsliðinu í fótbolta. Liðinu sem endanlega vann hug og hjörtu landsmanna í sumar en hafði náð ansi mörgum á sitt band árin á undan.

Væntingarnar til liðsins voru nokkrar í síðustu undankeppni en þó einungis hóflegar. Sem er fremur ólíkt okkur Íslendingum þegar kemur að íþróttum. Í sumar voru engar sérstakar kröfur gerðar til liðsins fyrir EM. Fyrst og fremst réði eftirvæntingin ríkjum.

Landsliðsmennirnir þurfa nú að takast á við það verkefni að ná sér niður eftir stórkeppni og leggja aftur af stað í langhlaupið. Slíkt er ekki alltaf auðvelt að gera en nýjasti Ólympíumeistarinn okkar, Guðmundur Guðmundsson, þykir til dæmis snillingur í því. Kallar það á einbeitingu, metnað, aga og endalausar endurtekningar til að viðhalda góðum árangri og jafnvel bæta ofan á hann.

Riðillinn er erfiður. Í raun er sérkennilegt til þess að hugsa að fjórar þjóðir sem eru að koma úr lokakeppni EM lendi saman í riðli í undankeppni HM. Það er engu að síður staðreynd hvað varðar Ísland, Tyrkland, Úkraínu og Króatíu að þessu sinni.

Ég hef trú á því að íslenska liðið blandi sér í baráttuna um að komast í umspilið fyrir HM. Fyrir fram tel ég líklegast eins og aðrir að Króatía vinni riðilinn enda frábært lið þar á ferðinni. Riðillinn í undankeppni EM var einnig erfiður hjá Íslandi. Líklega erfiðari en riðill Íslands í lokakeppninni. Fyrst Ísland komst áfram úr þeim undanriðli getur það einnig komist áfram úr þessum undanriðli. En þar til úr því fæst skorið á mikið eftir að ganga á. Við skulum gera hóflegar kröfur.