Afli Nýtt fiskveiðiár er hafið.
Afli Nýtt fiskveiðiár er hafið.
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2016 til 2017, en það hófst í gær. Að þessu sinni er úthlutað 369.925 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 368.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2016 til 2017, en það hófst í gær. Að þessu sinni er úthlutað 369.925 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 368.394 þorskígildistonn í fyrra, að því er fram kemur á heimasíðu Fiskistofu. Aukning á milli ára samsvarar því um 1.530 þorskígildistonnum.

Guðmundur í Nesi á toppnum

Alls fá 504 skip úthlutað aflamarki fyrir nýtt fiskveiðiár, en á síðasta fiskveiðiári var 534 skipum úthlutað aflamarki. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki nú er Guðmundur í Nesi ER 13, en hann fær 8.324 þorskígildistonn, eða 2,22% af úthlutuðum þorskígildistonnum.

Næstu fimm skip á eftir Guðmundi í Nesi eru Kaldbakur EA 1 með 8.086 þorskígildistonn, Gullberg VE 292 með 7.493 þorskígildistonn, Júlíus Geirmundsson ÍS 270 með 7.121 þorskígildistonn, Málmey SK 1 með 6.847 þorskígildistonn og Vigri RE 71 með 6.813 þorskígildistonn.

Úthlutun í þorski á nýju fiskveiðiári er rúmlega 194 þúsund tonn og hækkar um tæp 4.000 tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn er 27.523 tonn og dregst því saman um rúm 1.400 tonn.

Rúmlega 1.200 tonna samdráttur er í úthlutun á gullkarfa, 5.200 tonna samdráttur í löngu og 6.800 tonna samdráttur í úthlutun á íslenskri sumargotssíld. Úthlutað aflamark er 429.363 tonn, sem er um 16 þúsund tonnum minna en á fyrra ári.

Í tilkynningu frá Fiskistofu kemur fram að fimmtíu stærstu fyrirtækin fái úthlutað sem nemur um 86,6% af því aflamarki sem úthlutað er og er það álíka og í fyrra. Alls fá 398 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú, eða um 20 aðilum færra en í fyrra.

HB Grandi fær, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa.